Guðmundur Guðmundsson fæddist 20. maí 1919 á Núpi í Haukadalshreppi í Dalasýslu. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Hlévangi í Reykjanesbæ 3. mars 2014.

Foreldrar hans voru Sólveig Ólafsdóttir, f. 15.10. 1885, d. 13.2. 1936, og Guðmundur Guðmundsson, bóndi á Núpi í Haukadal, Dal., f. 29.9. 1879, d. 14.9. 1926. Uppeldisfaðir Guðmundar var Guðjón Gísli Sigurðsson, f. 3.6. 1895, d. 21.8. 1982. Systkini hans voru: Sigríður hjúkrunarkona í Englandi, f. 23.4. 1909, d. 6.11. 1997, Sigurlaug húsfreyja í Keflavík, f. 6.11. 1911, d. 2.3. 1987, Jóna Elísabet, ljósmóðir og húsfreyja í Reykjavík, f. 11.6. 1915, d. 16.5. 1995, Jóhannes, prentari í Reykjavík, f. 26.2. 1917, d. 16.10. 1993, Ólafía Katrín, húsfreyja í Keflavík, f. 27.3. 1918, d. 7.4. 1995, Kjartan bifreiðarstjóri í Keflavík, f. 23.4. 1921, d. 12.8. 1972, Jón Kristinn, pípulagningameistari í Borgarnesi, f. 2.3. 1923, d. 19.5. 2004, Guðfinna Sumarrós, verkakona Keflavík, f. 5.6. 1924, d. 20.11. 2012, og hálfbróðir hans sammæðra var Sigurvin Ingvi Guðjónsson, bóndi á Mjóabóli í Haukadal, Dal., f. 18.4. 1927, d. 1.8. 1998.

Guðmundur kvæntist Önnu Jósefsdóttur, f. 18.11. 1918, d. 10.2. 1995, frá Hlíðartúni í Miðdölum 8. ágúst 1942. Guðmundur og Anna eignuðust þrjár dætur, þær Kristínu, f. 8.3. 1941, Ólafíu Gunnlaugu (Stellu), f. 23.3. 1943, og Guðveigu, f. 26.8. 1950. Guðmundur eignaðist sjö barnabörn, 15 barnabarnabörn og fimm barnabarnabarnabörn.

Guðmundur ólst upp í foreldrahúsum og hjá móður sinni á Núpi til 10 ára aldurs, þegar hann fór í vist að Skriðukoti en þar dvaldist hann í sex ár hjá þeim hjónum Árna Jónassyni og Sigurjónu Jónsdóttur. Að þeirri vist lokinni gerðist hann vinnumaður víðar í Haukadal og Miðdölum.

Guðmundur og Anna hófu fyrst búskap á Núpi í Haukadal, Dalasýslu. Árið 1946 festu þau kaup á jörðinni Kolsstöðum í Miðdalahreppi og bjuggu þar til ársins 1966 þegar þau brugðu búi og fluttust til Keflavíkur, þar starfaði Guðmundur hjá Pósti og síma. Árið 1974 fluttust Guðmundur og Anna aftur í Dalina og störfuðu á Dvalarheimili aldraðra á Fellsenda í Miðdölum allt til starfsloka, lá þá leiðin aftur til Keflavíkur. Guðmundur dvaldi síðustu ár ævi sinnar á Hlévangi, dvalarheimili aldraðra í Reykjanesbæ.

Útför Guðmundar fer fram frá Kvennabrekkukirkju í dag, 14. mars 2014, og hefst athöfnin kl. 14.

Í dag kveðjum við elskulegan afa okkar í hinsta sinn. Æskuminningarnar leita fram en við systkinin vorum svo lánsöm að fá að njóta samvista við hann og ömmu okkar, bæði sem börn og fullorðin á Kolsstöðum og í Keflavík. Afi var með eindæmum hraustur alla sína tíð og mikið ljúfmenni. Hann var mikill Dalamaður og voru Kolsstaðirnir hans líf og yndi og þangað leitaði hann ávallt um leið og vora tók og dvaldi þar á sumrin í áraraðir eftir að hann fluttist alfarið til Keflavíkur. Þar dundaði hann sér við að lagfæra girðingar, dyttaði að húsinu og rak kindur úr túninu allt þar til hann gat ekki verið einn lengur vegna aldurs. Hann var ávallt nægjusamur, vildi alls ekki láta hafa fyrir sér og gætti hófsemi í einu og öllu sem gerði það að verkum að hann hafði góða heilsu og gat notið alls hins besta allt til æviloka.

Elsku afi okkar, við kveðjum þig með söknuði í hjarta en gleðjumst yfir öllum góðu minningunum sem við eigum um ykkur ömmu sem hefur nú tekið á móti þér með bros á vör.

Takk fyrir allt elsku afi.

Hver minning dýrmæt perla að liðnum lífsins degi,

hin ljúfu og góðu kynni af alhug þakka hér.

Þinn kærleikur í verki var gjöf, sem gleymist eigi,

og gæfa var það öllum, er fengu að kynnast þér.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Þín barnabörn

Anna Bára, Svavar Guðni

og Rakel Linda.