Heimakærir Sigurður Örn Þorsteinsson og félagar í Fram hafa varið heimavallarvígi sitt afar vel í vetur.
Heimakærir Sigurður Örn Þorsteinsson og félagar í Fram hafa varið heimavallarvígi sitt afar vel í vetur. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Safamýri Andri Yrkill Valsson yrkill@mbl.is Það er ekki oft sem hægt er að tala um að vendipunktur kappleikja eigi sér stað eftir einungis tíu mínútna leik, sama hvaða íþrótt er til umfjöllunar.

Í Safamýri

Andri Yrkill Valsson

yrkill@mbl.is

Það er ekki oft sem hægt er að tala um að vendipunktur kappleikja eigi sér stað eftir einungis tíu mínútna leik, sama hvaða íþrótt er til umfjöllunar. Sú var hins vegar raunin þegar Fram lagði lið Akureyrar í Olís-deild karla í handknattleik í gærkvöld. Eftir jafnræði í upphafi leiks skoruðu Íslandsmeistararnir fimm mörk í röð áður en tíu mínútur voru liðnar og þá var þetta aldrei spurning. Úrslitin voru ráðin í hálfleik þar sem meistararnir voru yfir, 18:10, en lokatölur urðu 25:21.

Það að skora átján mörk í fyrri hálfleik gerist ekki af sjálfu sér, sama hversu mikið af mistökum andstæðingurinn gerir og ber að hrósa Fram fyrir það. Sjö mörk í síðari hálfleik er þó öllu verra en þegar grunnurinn er orðinn svona traustur þá er hægt að leyfa sér ýmislegt sem að öðrum kosti væri talið ansi misjafnt.

Safamýrarpiltar eiga sem kunnugt er titil að verja og stigin tvö úr þessum leik eiga eftir að verða gríðarlega mikilvæg í baráttunni um sæti í úrslitakeppninni. Sjálfir sögðust þeir þó ekki þora að tala um að komast þangað því um leið og talið berst að því þá fer illa í næsta leik. Hjátrúin virðist því vera sterk í Safamýrinni.

Ætla sér yfir heiðina

Það var hreint með ólíkindum að horfa á Akureyringa mölbrotna á örskömmum tíma. Þeir mættu öflugir til leiks og það var stemning í hópnum í upphafi. Þegar Framarar fundu hins vegar fjölina sína þyngdist brún norðanmanna smátt og smátt þar til hún komst einfaldlega ekki neðar. Heimamenn léku sér að þeim í fyrri hálfleik þar sem ekkert gekk upp hjá Akureyri. Ekki neitt.

Það verður þó að hrósa Akureyringum fyrir að koma til baka í síðari hálfleik. Þeir gjörbreyttu sínu skipulagi og ætluðu sér endurkomu, en þeir voru orðnir of djúpt sokknir. Þeir börðu hins vegar hver annan áfram allt til enda, en mörg lið hefðu lagt árar í bát strax eftir fyrri hálfleikinn. En ef þeir höfðu einhvern áhuga á að komast í úrslitakeppnina þá var þetta algjör úrslitaleikur fyrir þá. Það er hins vegar ljóst eftir þennan leik að sumarfríið verður snemma á ferðinni hjá Akureyri í ár, jafnvel á undan vorboðanum sjálfum.

Ekki öfundaði blaðamaður þá að þurfa að klöngrast í rútu aftur norður yfir heiðar eftir leikinn, en þeir ættu þó að hafa haft nægan tíma til að ræða hvað fór úrskeiðis. Það var þó sami baráttuandinn í þeim hvað það varðar eins og á vellinum, þeir ætluðu sér yfir illfæra Öxnadalsheiðina og ekkert múður.

Fram – Akureyri 25:21

Framhúsið, Olís-deild karla, fimmtudag 13. mars 2014.

Gangur leiksins : 1:0, 3:3, 7:3, 9:4, 12:6, 15:8, 18:10, 19:12, 20:15, 22:16, 23:29, 25:21 .

Mörk Fram: Elías Bóasson 7, Garðar Benedikt Sigurjónsson 6/3, Stefán Baldvin Stefánsson 4, Ólafur Jóhann Magnússon 3, Þorri Björn Gunnarsson 2/1, Sveinn Þorgeirsson 1, Sigurður Örn Þorsteinsson 1, Sigfús Páll Sigfússon 1.

Varin skot: Stephen Nielsen 10, Svavar Már Ólafsson 1/1.

Utan vallar: 10 mínútur. Rautt spjald: Arnar Freyr Ársælsson, 3 brottvísanir.

Mörk Akureyrar: Bjarni Fritzson 8/2, Þrándur Gíslason 6, Sigþór Heimisson 3, Andri Snær Stefánsson 2, Kristján Orri Jóhannsson 2.

Varin skot: Tomas Olason 10, Jovan Kukobat 7.

Utan vallar: 6 mínútur.

Dómarar : Gísli Jóhannsson og Hafsteinn Ingibergsson.

Áhorfendur : 250.