[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hildigunnur fæddist í Reykjavík 14.3. 1964 en flutti með fjölskyldunni í Garðabæinn þegar hún var fimm ára. Hún var í Barnaskóla Garðahrepps sem síðar varð Flataskóli, í Garðaskóla og síðan í fyrsta árganginum sem gekk í Fjölbrautaskólann í Garðabæ.

Hildigunnur fæddist í Reykjavík 14.3. 1964 en flutti með fjölskyldunni í Garðabæinn þegar hún var fimm ára. Hún var í Barnaskóla Garðahrepps sem síðar varð Flataskóli, í Garðaskóla og síðan í fyrsta árganginum sem gekk í Fjölbrautaskólann í Garðabæ. Hún lauk þaðan stúdentsprófi 1983.

Hildigunnur lærði á fiðlu í Tónlistarskóla Garðabæjar í nokkur ár en fylgdi síðan fiðlukennaranum í Tónskóla Sigursveins og var þar í nokkur ár. Þá lá leiðin í tónfræðadeild Tónlistarskólans í Reykjavík þar sem hún lagði stund á tónsmíðar og almenna tónfræði. Kennarar hennar þar voru Þorkell Sigurbjörnsson og Atli Heimir Sveinsson. Eftir lokapróf frá deildinni tók síðan við nám í Hamborg hjá prof. Günter Friedrichs og síðar í Kaupmannahöfn hjá Svend Hvidtfelt Nielsen.

Hildigunnur kom aftur heim árið 1992, ásamt eiginmanni og elsta barninu sem fæddist í Danmörku. Hún stundaði síðan söngnám og lauk burtfararprófi í söng frá Tónlistarskóla Hafnarfjarðar en kennari hennar þar var dr. Þórunn Guðmundsdóttir.

Tónverk Hildigunnar eru nær 200 talsins og eru reglulega flutt hér á landi og víða um heim, allt frá Ástralíu til vesturstrandar Bandaríkjanna. Hildigunnur hefur verið virk í félagsstarfi tónlistarfólks hér á landi, hefur verið formaður í kammerkórnum Hljómeyki um árabil, spilar í Sinfóníuhljómsveit áhugamanna, situr í stjórn Tónskáldafélags Íslands og er stjórnarformaður Íslenskrar tónverkamiðstöðvar. Auk þess að semja tónverk og syngja kennir Hildigunnur við tónlistardeild Listaháskóla Íslands, í Tónlistarskóla Hafnarfjarðar og Suzukitónlistarskólanum í Reykjavík.

Góð gestaboð – gulls ígildi

Ertu alæta á tónlist Hildigunnur?

„Nei. Ég ætla ekki að halda því fram og ég held að þeir sem fullyrði slíkt séu sjaldnast einlægir í slíkum yfirlýsingum. Ég hlusta fyrst og fremst á klassíska tónlist en hef engu að síður mjög breiðan tónlistarsmekk.

Í gær og fyrradag vorum við í Hljómeyki t.d. að syngja með Dúndurfréttum á þrennum tónleikum þar sem flutt var stórvirkið The Wall með Pink Floyd frá 1979. Þetta voru frábærir tónleikar, fyrir troðfullum Eldborgarsal.“

– En svo ertu matgæðingur.

„Já. Foreldrar mínir unnu bæði úti og maður byrjaði því ungur að bjarga sér í eldhúsinu heima. Síðan komumst við hjónin á bragðið á námsárunum i Danmörku. Við fjárfestum í Det store danske madleksikon, 21 bindi, og eigum nú orðið um 100 góðar uppskriftabækur. Stundum er líka skemmtilegast að spila af fingrum fram í eldhúsinu.

Við erum mjög samstiga í þessari áráttu, höfum bæði gaman af því að elda og reynum að bjóða fólki í mat a.m.k. tvisvar í mánuði. Það er fátt skemmtilegra en að hafa huggulegt heima hjá sér, elda góðan mat, stilla ljósin í stofunni, setja góða músík á fóninn og njóta kvöldsins með góðum vinum og kunningjum.“

Fjölskylda

Eiginmaður Hildigunnar er Jón Lárus Stefánsson, f. 23.1. 1965, verkfræðingur. Foreldrar hans eru sr. Stefán Lárusson, f. 18.11. 1928, fyrrv. prestur, og Ólöf Sigríður Jónsdóttir, f. 11.9. 1943, kennari og fyrrv. kirkjuvörður. Þau eru búsett í Kópavogi.

Börn Hildigunnar og Jóns Lárusar eru Fífa Jónsdóttir, f. 1.6. 1992, nemi; Freyja Jónsdóttir, f. 6.4. 1996, nemi; Finnur Jónsson, f. 30.4. 2000, nemi.

Systkini Hildigunnar eru Ólafur Einar Rúnarsson, f. 25.1. 1970, tenórsöngvari og kennari á Laugarbakka; Þorbjörn Rúnarsson, f. 29.6. 1971, áfangastjóri og tenórsöngvari, búsettur í Hafnarfirði; Hallveig Rúnarsdóttir, f. 8.7. 1964, sópransöngkona.

Foreldrar Hildigunnar eru Guðfinna Dóra Ólafsdóttir, f. 6.6. 1937, fyrrv. tónmenntakennari í Garðabæ, og Rúnar Einarsson, f. 27.12. 1937, fyrrv. rafvirki í Garðabæ.