Þegar þetta er skrifað gengur á með dimmum éljum hér í Hádegismóunum og maður er ekki beint kominn með hugann við Pepsi-deildina í fótbolta.
Þegar þetta er skrifað gengur á með dimmum éljum hér í Hádegismóunum og maður er ekki beint kominn með hugann við Pepsi-deildina í fótbolta. En hvort sem menn trúa því eða ekki þá eru ekki nema rúmar sjö vikur þar til flautað verður til leiks í Pepsi-deild karla og satt best að segja að er maður ekki bjartsýnn á að knattspyrnuvellir landsins verði klárir í slaginn í byrjun maí. Klakinn sem legið hefur yfir völlunum svo vikum skiptir, alla vega á höfuðborgarsvæðinu, hefur gert mönnum lífið leitt og það skyldi þó aldrei fara svo að einhverjir leikir í fyrstu umferðunum yrðu spilaðir undir þaki.

En auðvitað eru fótboltaáhugamenn farnir að spá í spilin fyrir komandi leiktíð. Af því sem maður heyrir eru flestir á því að KR, FH, Stjarnan og Breiðablik verði hvað helst í baráttunni um titilinn eftirsótta í sumar en þessi lið höfnuðu í fjórum efstu sætunum á síðustu leiktíð.

Liðin fjögur hafa hins vegar öll misst mjög öfluga leikmenn frá síðasta tímabili og þó svo að þau hafi reynt að fylla í skörðin eru þau ekki eins sterk og í fyrra. KR hefur misst menn eins og Bjarna Guðjónsson, Brynjar Björn Gunnarsson og Hannes Þór Halldórsson. FH hefur misst Björn Daníel Sverrisson, Guðmann Þórisson og Frey Bjarnason. Stjarnan þá Halldór Orra Björnsson, Robert Sandnes og Kennie Chopart og Blikarnir Kristin Jónsson og Sverri Inga Ingason.

Svona til að hita upp fyrir sumarið þá er allt í lagi að rifja upp leikina í 1. umferð Pepsi-deildarinnar. Þá mætast: KR–Valur, Keflavík–Þór, Fram–ÍBV, Stjarnan–Fylkir, Fjölnir–Víkingur R. og Breiðablik–FH.