Bikargleði KR-ingar tóku við bikarnum fyrir sigurinn í Dominos-deildinni eftir að hafa lagt Val að velli í Vesturbænum og fyrirliðinn Brynjar Þór Björnsson hóf hann á loft. Mestar líkur eru á að KR mæti Snæfelli í átta liða úrslitunum en það gæti komist endanlega á hreint í kvöld.
Bikargleði KR-ingar tóku við bikarnum fyrir sigurinn í Dominos-deildinni eftir að hafa lagt Val að velli í Vesturbænum og fyrirliðinn Brynjar Þór Björnsson hóf hann á loft. Mestar líkur eru á að KR mæti Snæfelli í átta liða úrslitunum en það gæti komist endanlega á hreint í kvöld. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Víðir Sigurðsson vs@mbl.is Nánast öllum spurningum var svarað í gærkvöld þegar fimm leikir af sex fóru fram í næstsíðustu umferð úrvalsdeildar karla í körfuknattleik, Dominos-deildinni.

Fréttaskýring

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Nánast öllum spurningum var svarað í gærkvöld þegar fimm leikir af sex fóru fram í næstsíðustu umferð úrvalsdeildar karla í körfuknattleik, Dominos-deildinni.

*Keflavík tryggði sér annað sætið í deildinni með því að vinna ÍR, 126:123, í rafmögnuðum og tvíframlengdum leik suður með sjó.

*Njarðvík tryggði sér fjórða sætið í deildinni með því að vinna Snæfell í miklum spennuleik í sama sveitarfélagi, 83:81.

*Snæfell og Stjarnan hrepptu tvö síðustu sætin í úrslitakeppninni, þrátt fyrir að hvorugt liðið ynni sér inn stig í gærkvöld. Með tapinu í Keflavík eru möguleikar ÍR á að ná áttunda sætinu úr sögunni.

*Og Skallagrímur tryggði sér áframhaldandi sæti í deild þeirra bestu og sendi um leið KFÍ frá Ísafirði niður í 1. deildina. Skallagrímur lagði Hauka, 99:90, í framlengdum leik í Borgarnesi.

Röð efstu liðanna ljós

Röð fjögurra efstu liða er því endanlega ljós, KR, Keflavík, Grindavík og Njarðvík. Það er hinsvegar ekki klárt hverjum þau mæta því Haukar og Þór eru jöfn í 5. til 6. sæti og Stjarnan og Snæfell í 7.-8. sæti.

Stjarnan getur hinsvegar tryggt sér 7. sætið í kvöld þegar Garðbæingar sækja heim fallna Ísfirðinga í síðasta leik 21. umferðarinnar.

Fyrsta umferð úrslitakeppninnar lítur því þannig út sem stendur:

KR – Snæfell eða Stjarnan

Keflavík – Stjarnan eða Snæfell

Grindavík – Þór Þ. eða Haukar

Njarðvík – Haukar eða Þór Þ.

Ef Stjarnan vinnur KFÍ í kvöld verður þar með endanlega ljóst að liðið mætir Keflavík og þá yrðu það KR og Snæfell sem myndu mætast.

KR-ingar unnu síðan sinn 20. sigur í deildinni í vetur þegar þeir unnu Valsmenn, 101:78. Hlíðarendaliðið, sem var þegar fallið, tapaði sínum 20. leik í deildinni á tímabilinu.

Smith skoraði 52 stig

Maður kvöldsins var án efa Benjamin Smith, bandaríski leikmaðurinn hjá Skallagrími. Hann skoraði 52 stig af 99 stigum Borgnesinga gegn Haukum en tók auk þess 10 fráköst og átti 8 stoðsendingar. Mögnuð tölfræði það.

Þá skoraði Michael Craion 42 stig og Darrel Lewis 31 fyrir Keflavík í hinum magnaða leik gegn ÍR en Nigel Moore gerði 32 fyrir ÍR-inga.

*Tölfræði leikjanna og stöðu í deildinni er að finna á bls. 2.