Hafsteinn Þorgeirsson fæddist 19. mars 1926 í Hafnarfirði. Hann lést á Dvalarheimilinu Ási í Hveragerði 7. mars 2014.

Hafsteinn var sonur hjónanna Önnu Sigmundsdóttur, f. 30.1. 1905, d. 30.8. 1971, og Þorgeirs Magnússonar, f. 7.10. 1900, d. 15.9. 1937. Systkini Hafsteins, Ingvi, f. 4.10. 1924, Magnús, f. 16.1. 1929, Sjöfn, f. 5.3. 1930, þau eru öll látin. Fósturforeldrar Hafsteins Helga Davíðsdóttir, f. 11.11. 1897, d. 6.7. 1981, og Sigurður Magnússon, f. 28.10. 1898, d. 10.7. 1979.

Eiginkona Hafsteins frá 1. mars 1952 var Hildegard Þorgeirsson, frá Lubeck í Þýskalandi, f. 26.11. 1930, d. 18.4. 2012, dóttir hjónanna Herta Reiss, f. 30.11. 1909, d. 18.12. 1946, og Ernst Reiss, f. 20.8. 1905, d. 25.3. 1979. Seinni kona Ernst var Frida Maass, f. 17.8. 1904, d. 08.10. 1990. Börn Hafsteins og Hildegard eru: 1) Þorgeir, f. 31.7. 1952, maki Guðbjörg Þorsteinsdóttir, f. 12.7. 1950, og eiga þau fjögur börn, a) Helga Björg, maki Dagbjartur Finnsson og eiga þau tvo drengi. b) Almar Þór, sambýlisk. Ólöf Ingibergsdóttir og eiga þau eina dóttur. Ólöf á tvö börn úr fyrri sambúð. c) Sigríður Erna. d) Hafdís Lilja. 2) Karín Herta, f. 19.6. 1954, maki Ríkharður Hrafnkelsson, f.30.4. 1957, og eiga þau tvær dætur a) Margrét Hildur, maki Björgvin Rúnarsson og eiga þau þrjú börn. Björgvin á eina dóttur fyrir. b) Jóhanna María, maki Guðmundur Guðþórsson og eiga þau þrjá syni. 3) Sigurður Helgi, f. 5.7. 1956, sambýlisk. Helga Möller, f. 12.5. 1957. Sigurður var í sambúð með Kristínu Bjarnadóttur, f. 20.11. 1954, og eru börn þeirra a) Bjarni Grétar, sambýlisk. Anna Gunnarsdóttir. b) Ásta Dögg, maki er Ársæll Hjálmsson og eiga þau tvo syni. c) Sigurður Arnór, unnusta Iðunn S. Árnadóttir. 4) Davíð Einar, f. 11.2. 1963, maki Helga B. Marteinsdóttir, f. 6.5.1963, og eiga þau þrjá syni a) Davíð Einar, b) Hafsteinn Helgi, c) Símon Ernst. Helga átti áður Einar Martein. 5) Hafsteinn Ernst, f. 22.11. 1965, unnusta Guðrún B. Sigurbjörnsdóttir, f. 24.3. 1958, fyrrv. maki Oddfríður Traustadóttir, dóttir þeirra er a) Anna Kristín. 6) Hafdís, f. 12.12. 1967, maki Arnar Guðnason, f. 28.6. 1966, og eiga þau þrjú börn a) Magnús Bjarki, b) Arndís Ósk, c) Guðni Freyr. Hafsteinn eignaðist tvö börn fyrir hjónaband, Þóru Guðrúnu, f. 11.5. 1948, og Júlíus Rannver, f. 15.6. 1951.

Vegna berklaveiki föður síns var Hafsteini, ársgömlum, komið í fóstur til Sigurðar föðurbróður síns og Helgu Davíðsdóttur eiginkonu hans. Á Akureyri eyddi Hafsteinn megninu af uppvaxtarárunum eða þar til að hann fór til Reykjavíkur tæplega tvítugur. Í Reykjavík vann hann ýmsa verkamannavinnu en sumarið 1951 réð hann sig til vinnu við Garðyrkjuskóla ríkisins í Hveragerði. Það reyndist afdrifarík ákvörðun að fara til Hveragerðis því þar hitti hann hana Hillu sína, unga þýska stúlku sem hafði komið til Íslands tveimur árum áður. Í Hveragerði hófu þau búskap og eignuðust þrjú elstu börnin sín þar. Árið 1959 fluttu þau til Reykjavíkur þar sem þau bjuggu til ársins 2001 er þau fengu inni á Dvalarheimilinu Ási í Hveragerði.

Útför Hafsteins fer fram frá Hveragerðiskirkju í dag, 14. mars 2014, kl. 15.

Í annað skiptið á ævinni sest ég niður og set minningarorð á blað, fyrir tæpum tveimur árum voru það orð um mömmu, en nú er það um þig, elsku pabbi. Það er margs að minnast, ansi höfum við nú brallað margt saman í gegnum árin. Fór í mörg ferðalögin með þér og mömmu sem þú nýttir ansi oft í sölumennsku, því þá varstu sölumaður hjá vini þínum Jóhanni Eyjólfssyni. Var stundum ekið vestur um land, Norðurlandið, um Austfirði og allt til Hafnar í Hornafirði. Stoppað var nánast í öllum verslunum í flestum þorpum á leiðinni. Ekin var sama leið til baka þar sem ekki var búið að tengja hringveginn saman.

Golfið átti hug þinn allan rúmlega síðustu hálfa öldina og var sérstaklega gaman að fylgja þér eftir seinni árin þegar ég var farin að stunda golfið af krafti. Við höfum nú leikið margar holurnar saman og alltaf var ég stolt að spila mér þér elsku pabbi minn. Síðast spiluðum við saman sumarið 2012, á golfvellinum í Hveragerði og í Vestmannaeyjum á mínum heimavelli.

Þið mamma voruð afar samrýnd og var gaman að fylgjast með ykkur í gegnum árin. Heilsan þín var nú ekki alltaf upp á það besta, fórst í nokkra uppskurði á árunum 1974 til 1982 og var þér nokkrum sinnum ekki hugað líf. Í eitt sinn þegar við mamma, Sjöfn frænka og Siggi afi sátum yfir þér á Landspítalanum eftir einn uppskurðinn töldum við að nú væri öllu lokið. Nei, allt í einu hrökkstu upp og sagðir: „Ég kíkti yfir um og sá svo mikið af fíflum að ég taldi ekkert pláss fyrir mig þar.“ Eftir þetta fór heilsa þín smátt og smátt batnandi. Já, pabbi minn, það er margs að minnast, æskunnar, golfsins, allra stundanna í Hólminum og þegar þið mamma buðuð dætrum mínum að búa hjá ykkur þegar þær fóru til Reykjavíkur í skóla. Það var alltaf gott að sækja ykkur heim, faðmlagið traust og hlýtt.

Mikið á ég eftir að sakna þín, elsku pabbi minn. Það verður skrýtið að aka fram hjá Hveragerði og þið mamma ekki þar. En ég veit hvar ég get stoppað og talað til ykkar ef ég þarf.

Far þú í friði elsku pabbi minn, bið að heilsa mömmu, sé ykkur í anda saman á ný.

Þín dóttir,

Karín Herta.

Jæja afi, nú ertu kominn þangað sem þú vildir, til ömmu. Ég hitti þig síðast í janúar og þá sagðir þú mér að þú nenntir ekki meir og vildir komast til ömmu. Þú fékkst ósk þína uppfyllta. Nú eruð þið saman á ný. Þótt það sé sárt fyrir mig, þá yljar tilhugsunin mér um hjartarætur. Ég ylja mér líka við minningarnar um ykkur ömmu, þig þar sem þú straukst mér um vangann sem barni og hættir því ekkert þótt ég fullorðnaðist. Þig að hræra sykurinn saman við kaffið og slá alltaf þrisvar með skeiðinni í glasið. Þú drakkst alltaf kaffið úr glasi en ekki bolla. Þetta rifjar Kolbrún María mín oft upp. Svona litlar minningar sitja eftir og ylja manni, og á ég nóg af þeim.

Hvíldu í friði elsku besti afi minn.

Þín dótturdóttir,

Margrét Hildur.

Nú er elsku afi minn farinn til ömmu. Ég veit að það hafa verið góðir endurfundir. Ég á ótal minningar um afa, minningar sem munu hlýja mér. Ég minnist þess þegar við sátum í fortjaldinu hjá ömmu og afa og hlýjuðum okkur við prímusinn og þegar við fórum í bíltúra í BMW-inum. Einnig minnist ég afa í smókingnum á gamlárskvöld þegar við borðuðum kokteilpylsur og kartöflusalat um miðnætti og afa með kaffi í afastólnum.

Elsku afi takk fyrir allt.

Þín

Sigríður Erna.

Látinn er Hafsteinn Þorgeirsson, heiðursfélagi í Golfklúbbi Hveragerðis, GHG. Hann var einnig elsti félagi klúbbsins og sá sem lengst hafði iðkað íþróttina. Um miðja síðustu öld var Hafsteinn félagi í Golfklúbbi Árnesinga sem var með golfvöll á Fagrahvammstúninu í Hveragerði. Þar atti hann kappi við félaga þess klúbbs, en nokkrir þeirra eru forfeður núverandi félaga í GHG.

Hafsteinn flutti til Hveragerðis sem ungur maður og kynntist hér konunni sinni. Hann var þá við störf tengd garðyrkju en Hildegard starfaði í Gufudal þar sem nú er golfvöllurinn okkar. Þau fluttust síðar annað en komu aftur og áttu í Hveragerði sitt ævikvöld.

Þær voru margar ferðirnar Hafsteins upp á golfvöll. Yfir sumarið voru þær margar á dag og hann heimsótti dalinn nánast daglega á veturna. Hann mætti eldsnemma og skráði veðurlýsingu í gestabókina. Oft fór hann á æfingasvæðið eða spilaði nokkrar holur, einn eða með öðrum. Stundum var erindið að fylgjast með, fá sér kaffisopa og spjalla.

Hafsteinn var hvorki hávaxinn né umfangsmikill á velli á sínum efri árum og sjónin orðin léleg síðustu árin. Þá var hann stórreykingamaður. Í minningunni er hún skýr myndin af Hafsteini þegar maður mætti honum á leiðinni upp í dal. Lágur var hann í sæti þannig að hann virtist rétt ná upp fyrir stýrið og reykmökkurinn svo mikill inni í bílnum að hann hefði ekki séð handa sinna skil, jafnvel þótt sjónin hefði verið í lagi. En hann þekkti leiðina og ekki fer sögum af óhöppum í ferðum þessum.

Hún er líka skýr myndin af Hafsteini að spila golf. Hann á þríhjólinu og alltaf reykjandi. Hann sagði oft frá því að læknarnir væru búnir að segja honum að hætta að reykja ef hann ætlaði að halda lífi. Líka að læknarnir botnuðu ekkert í því hvað hann entist lengi með þessi lélegu lungu og alltaf reykjandi. Hafsteinn þakkaði það golfinu.

Hafsteinn var góður kylfingur og setti skemmtilegan svip á klúbbinn. Það getur verið snúið að spila golf ef sjónin er ekki í lagi, sérstaklega þegar ekki eru neinir meðspilarar til að horfa á eftir boltanum. Þrátt fyrir að ekkert sæist til boltaflugsins var nokkuð víst hvar boltann hans var að finna og lítill tími fór í leit, hann var á miðri braut. Ef eitthvað fór úrskeiðis í högginu, sem heyrði til undantekninga, þá var hann viss hvert hann hlyti að hafa farið og fannst hann þar.

Hafsteins verður minnst sem skemmtilegs félaga. Það var létt yfir honum og hann hafði gaman af því að ræða við fólk á öllum aldri. Það var nóg til af skemmtilegum sögum sem hægt var að segja og aldrei var góð saga of oft sögð. Þá var hann duglegur að segja kylfingum til og hjálpaði mörgum að laga sveifluna.

Þegar ég kynntist Hafsteini varð mér fljótt ljóst hvað honum þótti vænt um konuna sína. Það var líka augljóst áfallið fyrir Hafstein þegar Hildegard lést. Eftir það fór heilsu hans mjög hrakandi. Í vetur varð ljóst að hverju stefndi og trúi ég að hann sé hvíldinni feginn.

Fyrir hönd GHG sendi ég vallarstjóranum okkar, Hafsteini yngri, og fjölskyldunni allri samúðarkveðjur.

Auðunn Guðjónsson,

formaður GHG.

Innan örfárra dag verða 37 ár síðan ég sá þig í fyrsta sinn, Hafsteinn minn, er ég kom inn á heimili þitt að heimsækja hana Kaju. Þú tókst mér, ungum skólapilti úr Hólminum, strax vel og varst fljótur að leysa kvíðahnútinn sem ég hafði í þessari fyrstu heimsókn með léttu spjalli og hnyttnum athugasemdum. Þú hafðir sko munninn fyrir neðan nefið alla tíð. Það var mér mikil gæfa að koma inn í fjölskylduna ykkar Hillu. Þú hafðir töluverð áhrif á mitt líf til frambúðar, t.a.m. hjálpaðir þú mér við atvinnuleit eftir að skóla lauk og svo síðan ekki síst kynntir þú golfíþróttina fyrir mér. Þú hafðir alist upp við íþróttaiðkun á Akureyri, stundað knattspyrnu, en skíðin voru þín aðalgrein fram á þrítugsaldurinn. Gaman var hlusta á þig segja sögurnar af skíðaafrekunum og við hvaða aðbúnað skíðaíþróttin var stunduð fyrir miðja síðustu öld, ekki var lyftunum fyrir að fara. Á skíðum vannst þú til þinna fyrstu verðlauna og kepptir á nokkrum skíðalandsmótum. Þú hafðir frá mörgu að segja varðandi félagsstarf þitt í gegnum öll árin, skíðin, skátastarfið í Hveragerði og allt í kringum golfið sem þú kynntist fyrst í Hveragerði 1952.

Golfíþróttin náði heljartökum á þér um leið og þú snertir golfkylfu í fyrsta sinn. Varðst fyrsti launaði golfvallarstarfsmaður á Íslandi þegar þú ert ráðinn til GR sem vallarstjóri í Grafarholtið í byrjun sjöunda áratugarins. Þar tókst þú þátt í uppbyggingu vallarins og þú þreyttist aldrei á að lýsa fyrir mér hvernig þú byggðir upp 14. flötina með hjólbörur og skóflu ein að vopni. Þessi flöt er enn í notkun, óbreytt frá upphafi, sem er góður vitnisburður um verkkunnáttu þína. Þú komst að frumstarfi margra golfvalla hér á landi, alltaf jafnáhugasamur um golfíþróttina. Það var ekki ónýtt að eiga þig að þegar við í Mostra í Hólminum hófum að koma upp golfvelli um miðjan níunda áratuginn, alltaf reiðubúinn að leiðbeina og hjálpa til eftir þörfum. Þú tókst golfið alvarlega og varst duglegur að æfa og leika golf. Ekki varst þú nú alltaf efstur á vinsældalistanum á heimilinu með þessu golfbrölti þínu. Þeir eru ófáir sigrarnir í golfmótunum í gegnum tíðina, en sennilega er toppurinn þegar þú varðst Íslandsmeistari öldunga 1983. Ekki verður hjá því komist að minnast elju þinnar við að segja kylfingum á öllum aldri og getustigum til með golfsveifluna. Ég, körfuboltamaðurinn, sem gerði lítið úr þessu golfdrolli, var ekki látinn í friði strax fyrsta vorið okkar saman, þér tókst að koma mér út á golfvöll. Þú varst harður á því að gera kylfing úr þessum stirða körfuboltamanni, seldir mér gamla golfsettið þitt (svo þú gætir keypt þér nýtt), gafst mér golfskó o.fl. sem til þurfti. Það tók þig ekki langan tíma að ná ætlunarverkinu, ég hef verið heltekinn af golfíþróttinni eins og þú frá fyrstu kynnum. Sporin þín í golfíþróttinni á Íslandi eru mörg og stór og er það þakkarvert að leiðarlokum Hafsteinn minn. Vonandi kemstu daglega í golf þarna í efra og að flatirnar séu rétt slegnar.

Kærar þakkir fyrir allt, elsku tengdapabbi.

Ríkharður Hrafnkelsson.

Elsku afi. Nú ert þú kominn til ömmu Hillu og mikið held ég að þið séuð nú glöð saman. Þegar ég horfi aftur í tímann hrannast upp minningar um þig, skemmtilegan afa sem fór mikið í golf. Þú sagðir mér fullt af sögum af þér þegar þú varst ungur á skíðum og þegar þú stofnaðir skátana í Hveragerði og var alltaf gaman að hlusta á þessar sögur. Mér fannst líka alltaf gaman þegar þú komst í heimsókn til okkar í Hólminn og man ég sérstaklega eftir því að þú vaknaðir yfirleitt mjög snemma og fékkst þér alltaf hrufóttasta glasið sem þú fannst, helltir í það kaffi, settir sykur út í og byrjaðir svo að hræra. Þú þurftir að hræra vel svo sykurinn bráðnaði en þú passaðir þig á því að skeiðin færi alveg út í hrufurnar svo það heyrðist örugglega út um allt hús þannig að allir sem voru sofandi vöknuðu og þú fékkst félagsskap. Ég fékk að búa hjá ykkur ömmu einn vetur þegar ég var í skóla í bænum og var það yndislegur tími og fannst mér alltaf gaman að fá að fara með þér á bimmanum að sækja ömmu í vinnuna þegar hún vann hjá Myllunni, þetta var alveg ómetanlegur tími sem ég átti með ykkur. En elsku afi ég vona að þér líði vel og eigir eftir að spila fullt af golfi og eiga góðar stundir með ömmu.

Hvíldu í friði, elsku afi, við eigum eftir að sakna þín mikið.

Þín

Jóhanna María.