Oddný Sigríður Nicolaidóttir fæddist í Reykjavík hinn 2. desember 1930. Hún lést á Landspítalanum við Hringbraut 5. mars 2014.

Foreldrar Oddnýjar Sigríðar voru Sigríður Ólafsdóttir húsmóðir, f. 3.1. 1898, d. 15.6. 1997, og Nicolai Þorsteinsson bifvélavirki, f. 30.6. 1896, d. 2.8. 1965. Önnur börn þeirra: Nicolai, f. 20.7. 1920, d. 25.4. 1997, Edith Elsa María, f. 24.3. 1923, Þorsteinn, f. 6.3. 1927, d. 3.9. 1984, Ólafur, f. 1.1. 1932, d. 5.3. 1976, og Guðni Þór, f. 12.11. 1935, d. 29.7. 2009.

Oddný Sigríður giftist Jónasi Guðlaugssyni frá Eyrarbakka 19. apríl 1951. Foreldrar Jónasar voru Ingibjörg Jónasdóttir húsmóðir, f. 22.3. 1905, d. 4.11. 1984, og Guðlaugur Pálsson kaupmaður, f. 20.2. 1896, d. 16.12. 1993. Börn Oddnýjar og Jónasar eru: 1) Ingibjörg, f. 1950, maki Gísli Ólafsson, f. 1946, þeirra börn Lilja, f. 1971, Aðalheiður, f. 1974, og Ólafur, f. 1981. 2) Garðar, f. 1951, d. 1955. 3) Nicolai, f. 1954, maki Ásta Bjarney Pétursdóttir, f. 1955, þeirra börn Dagný Rós, f. 1975, og Bjarni Garðar, f 1980. 4) Jónas Garðar, f. 1959, maki Jóhanna Vélaug Gísladóttir, f. 1962, þeirra börn Hanna Lilja, f. 1990, og Matthías, f. 1993. 5) Guðlaugur, f. 1960, maki Guðrún Axelsdóttir, f. 1962, þeirra börn Jónas, f. 1981, Þórir. f. 1987, Fannar, f. 1995. og Sindri, f. 2000. 6) Sigurður, f. 1966, maki Bjarnþóra María Pálsdóttir, f. 1971. Börn Sigurðar: Ísak Aron, f. 1996, Sigríður Agnes, f. 1997, og Oddný Soffía, f. 2008. Börn Bjarnþóru: Páll Axel, f. 1991, og Ásdís María, f. 1998.

Oddný Sigríður bjó lengst af í Reykjavík ásamt fjölskyldu sinni. Á yngri árum fékkst hún við ýmis störf og einnig vann hún við bókband hjá Prentsmiðjunni Eddu þar til hún giftist eftirlifandi eiginmanni. Hún starfaði svo stærstan hluta starfsævinnar í fyrirtæki þeirra hjóna ásamt því að sjá um heimilishald og uppeldi barnanna.

Útför Oddnýjar Sigríðar fer fram frá Fella- og Hólakirkju í dag, 14. mars 2014, og hefst athöfnin kl. 15.

Vetrarbarnið móðir mín, sem fæddist í Reykjavík 2. desember 1930, átti góð æsku- og uppvaxtarár í sex systkina hópi. Sem barn og unglingur var hún hlédræg og feimin en svo geislandi að fólk laðaðist að henni. Ung giftist hún pabba og saman gengu þau lífsins veg í tæp 65 ár.

Börnunum sínum öllum sinnti hún af ást og umhyggju, saumaði, prjónaði, eldaði og bakaði og alltaf var næringarríkur og góður matur á borðum, við allra hæfi. Þegar við börnin uxum úr grasi naut pabbi aðstoðar hennar á verkstæðinu og þar gekk hún í verkin af sama krafti og áhuga og öllu öðru sem hún tók sér fyrir hendur.

Heimilið bar vott um einstaka smekkvísi þeirra hjóna og ef mamma væri ung kona í dag hefði hún örugglega uppfyllt öll skilyrði þess að bera titilinn ofurkona. Hún var mjög skipulögð og vinnusöm, hafði endalausa orku og sinnti skylduverkum jafnt sem áhugamálum af alúð og natni.

Hún var falleg, góð og með einstaka kímnigáfu. Hún var hlý og gefandi og hvers manns hugljúfi og fann alltaf leiðir til að njóta lífsins. Mamma átti góðar vinkonur á öllum aldri, hún átti samleið með öllum kynslóðum og hér er við hæfi að minnast á æskuvinkonurnar, Fimmurnar og Curves-leikfimisystur hennar þar sem hún átti sinn sess í sófanum, alls staðar var hún miðjan, hafði frumkvæði, var fyndin og skemmtileg og ræktaði vináttuna af alúð og kærleika.

Hún var líka tilbúin að tileinka sér nýjungar, fór á dansnámskeið, í enskuskóla, lærði á tölvur, sinnti líkamsræktinni af ótrúlegri elju, og gleðin og húmorinn voru alltaf til staðar. Hún elskaði að ferðast og ófáar eru ferðirnar um víða veröld sem henni auðnaðist að njóta.

Að kveðja hana skilur eftir hafsjó af minningum sem birtast hver af annarri og ylja og gleðja. Hún var kona sem gaf af sér hvar sem hún kom. Það er erfitt að finna nægilega falleg og sterk orð til að lýsa móður minni og það var lærdómsríkt að fylgjast með bjartsýninni, baráttugleðinni og æðruleysinu þau tæpu þrjú ár sem hún tókst á við þann gest sem settist að í líkama hennar og neitaði með öllu að víkja. Hún sagði gjarnan: „Ég er búin að eiga góða ævi, heil 83 ár. Ég get nú aldeilis þakkað fyrir það.“

Ég get seint fullþakkað að hafa átt mömmu fyrir bestu vinkonu og mína sterkustu fyrirmynd og ég minnist með gleði allra skemmtilegu samverustundanna þar sem við hlógum þar til tárin streymdu niður kinnarnar. Nú þegar leiðir skilur eru minningarnar dýrmætasti fjársjóðurinn. Missir pabba er þó mestur og samúð okkar hjóna á hann alla.

Ingibjörg og Gísli.

Þá er hún Addý amma lögð af stað í lokaferðalagið sitt. Við systkinin urðum þeirrar gæfu aðnjótandi að eiga ömmu okkar að vini og félaga langt fram á fullorðinsár. Amma var nefnilega einn af okkar bestu vinum. Hún tók virkan þátt í lífi okkar alla tíð, mætti manna fyrst í mannfögnuði og fór oftar en ekki með þeim síðustu, enda ótrúlegur gleðigjafi og hrókur alls fagnaðar.

Hún elskaði að skemmta sér, elskaði lífið og allt sem því fylgdi og naut þess til hins ýtrasta að vera til. Hún var amma fram í fingurgóma, jafnt gagnvart okkur og börnunum okkar.

Við minnumst ömmu ætíð með bros á vör enda var hún alltaf að gantast. Það leið ekki það heimboð að stríðnisbrosið læddist ekki yfir andlit ömmu. Það skemmtilegasta við grínið var að oftar en ekki var erfitt að meta hvort um háalvarlegan hlut eða góðlátlegan hrekk var að ræða, svo flink var hún í stríðninni. Henni fylgdi alltaf einstök gleði og með nærverunni einni saman gerði hún dagana alltaf skemmtilegri.

Amma var rómaður fagurkeri í einu og öllu, alltaf stórglæsilega til fara, sama hvað stóð til. Heimilið bar þess einnig merki að þarna byggju mikil smekkhjón. Ekki var hægt að sjá á heimilinu að þau hjón væru á níræðisaldri, enda einstaklega módern í einu og öllu og nutu þess að lifa í núinu.

Allir sem sóttu þau heim kynntust einstakri hlýju, gestrisni og veitingum af bestu gerð. Amma var þekkt fyrir einstaklega ljúffenga dúnmjúka púðursykurstertu sem ætíð var bökuð ef eitthvað stóð til. Hún hvatti alla til að æfa sig í „púðrarabakstrinum“ og eftir standa börn og barnabörn sem eru orðin fær um að baka dýrindis dúnmjúka púðursykurstertu í anda ömmu Addýjar. Tertan mun skreyta ófá veisluborðin í framtíðinni til minningar um frábæra konu.

Við sáum það hvað best síðustu árin hversu mikil Pollýanna amma var. Hún sá alltaf jákvæðu hliðarnar, þrátt fyrir veikindi. Alltaf var stutt í brosið og grínið aldrei langt undan, alltaf mátti gera gott úr hlutunum.

Amma var ævarandi þakklát fyrir æviárin sín og rifjaði oft upp hversu vel hún náði að njóta lífsins, ferðast, skemmta sér og njóta félagsskapar vina og ættingja. Eftir stendur minningin um alveg einstaka ömmu sem mun vera okkur systkinunum fyrirmynd út lífið.

Elsku afi okkar, innilegar samúðarkveðjur frá okkur.

Lilja, Aðalheiður, Óli

og fjölskyldur.

Í dag kveðjum við okkar kæru vinkonu, hana Addý. Vinskapur okkar er búinn að vara frá æsku- og unglingsárum. Margs er að minnast frá þeim tíma.

Farið var í útilegur og ferðalög eins og ungt fólk gerir. Svo kom að því að allar stofnuðum við heimili og fjölskyldur og minnkaði sambandið þá. Fyrir rúmum 25 árum var vinskapurinn endurnýjaður og síðan höfum við vinkonurnar hist reglulega, tvisvar á ári, heima hjá hver annarri og farið seinnipart sumars út að borða á góðum veitingastöðum. Þetta hafa verið yndislegar samverustundir hjá okkur gömlu vinkonunum og höfum við farið í sumarbústaðarferð og þar hefur verið hlegið dátt og rifjaðar upp gamlar minningar frá æskuárunum.

Nú er hún Addý farin og eftir sitjum við með minningar um þessa yndislegu vinkonu og þökkum fyrir að hafa átt hana sem vinkonu öll þessi ár. Blessuð sé minning Addýjar.

Innilegar samúðarkveðjur til Jónasar og fjölskyldu.

Ágústa, Laufey, Nanna

og Valgerður.

Blessaðir séu þeir

sem gefa sér tíma

til að strjúka vanga

og þerra tár af kinn

bara með því að faðma

og vera.

(Sigurbjörn Þorkelsson)

Þessi orð skáldsins lýsa tengdamóður minni einkar vel að mínu mati. Hún var einfaldlega góð kona að upplagi.

Leiðir okkar lágu saman fyrir rúmum þrjátíu árum er ég var að stíga mín fyrstu skref inn í fullorðinsárin. Vegferð okkar saman hefur verið ljúf og margs er að minnast. Um hugann svífa ótal minningabrot. Mikið óskaplega á ég eftir að sakna samverunnar yfir latte-bollanum og Baileys-glasinu.

Með sorg í hjarta en þakklæti fyrir gott líf sem við áttum saman kveð ég tengdamóður mína og trúnaðarvin.

Hver minning dýrmæt perla að liðnum lífsins degi,

hin ljúfu og góðu kynni af alhug þakka hér.

Þinn kærleikur í verki var gjöf, sem gleymist eigi,

og gæfa var það öllum, er fengu að kynnast þér.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Þín tengdadóttir,

Guðrún.