Eldsneyti Verð á bensíni og dísilolíu hefur lækkað síðustu daga. FÍB segir tryggðarafslætti skila litlu fyrir neytendur.
Eldsneyti Verð á bensíni og dísilolíu hefur lækkað síðustu daga. FÍB segir tryggðarafslætti skila litlu fyrir neytendur. — Morgunblaðið/Þórður
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Björn Jóhann Björnsson bjb@mbl.is Álagning olíufélaganna og flutningskostnaður á hvern bensínlítra hækkaði um 116% á árunum 2005 til og með 2013, eða úr 17,50 krónum á lítra árið 2005 í 37,90 krónur á lítra árið 2013.

Björn Jóhann Björnsson

bjb@mbl.is

Álagning olíufélaganna og flutningskostnaður á hvern bensínlítra hækkaði um 116% á árunum 2005 til og með 2013, eða úr 17,50 krónum á lítra árið 2005 í 37,90 krónur á lítra árið 2013. Þetta kemur fram í nýjasta tölublaði FÍB-blaðsins, sem kom út í gær. Á sama tímabili hækkaði álagning og flutningskostnaður á hvern dísilolíulítra um 157% en FÍB vekur athygli á því að vísitala neysluverðs hækkaði um 69% frá 2005 til 2013.

FÍB skráir daglega heimsmarkaðsverð á bensíni og dísilolíu og uppreiknar verð með gengi krónunnar gagnvart dollar. Þetta kostnaðarverð ásamt sköttum er dregið frá skráðu daglegu útsöluverði olíufélaganna hér heima og þá kemur út álagning og flutningskostnaður á hvern lítra, að því er fram kemur í FÍB-blaðinu. Um meðaltal hvers árs er að ræða. Ekki er tekið tillit til tryggðarafsláttar, punktasöfnunar og dagstilboða hjá olíufélögunum.

Álagningin náði toppi hrunárið 2008 í bensíni en ekki jafn mikið í dísilolíu. Árið eftir heldur álagning á dísilolíu áfram að hækka en gengur aðeins til baka í bensíni. Lækkun á sér hins vegar stað í báðum tegundum árið 2010 en frá 2011 hefur álagningin hækkað jafnt og þétt. Samkvæmt FÍB hefur álagning á dísilolíu ekki verið jafn há á þessu árabili og hún var 2012 og 2013, eða rúmar 40 krónur að jafnaði á hvern lítra. Álagið á bensínið fór í 38,40 krónur árið 2013 sem er hæsta álagningin frá 2005.

Á föstu verðlagi hækkaði álagningin á bensíni um 28% árin 2005-2013 og um 52% á dísilolíu.

Bent er á það í FÍB-blaðinu hversu stór hluti eldsneyti er í útgjöldum heimilanna. Þess vegna fari aukin álagning beint út í verðlagið og dragi úr kaupmætti heimila og fyrirtækja. Hver króna í álagningu kosti neytendur árlega um 440 milljónir króna.

Segir í greininni að hluti skýringar á hækkun álagningar geti verið hækkun flutningskostnaðar, m.a. vegna hruns krónunnar, og önnur skýring geti verið að olíufélögin hafi aukið álagningu til að kosta aukin afsláttar- og tryggðartilboð. „Offjárfestingar í verslunarhúsnæði og bensínstöðvum hefur einnig áhrif á álagningu. Það er blekkingarleikur að hækka álagningu til að geta boðið hærri afslætti. Svona viðskiptahættir þrífast því miður í því fákeppnisumhverfi sem einkennir íslenska olíumarkaðinn,“ segir í greininni.

Lækkun síðustu daga

Runólfur Ólafsson hjá FÍB segir við Morgunblaðið að álagningin hafi frá áramótum lítið breyst. Síðustu daga hefur eldsneytið lækkað í verði, einkum vegna gengisbreytinga, en heimsmarkaðsverð hefur lækkað sömuleiðis, þvert á spár um hækkanir vegna ólgunnar á Krímskaga. Í gær var algengt verð á bensíni og dísilolíu tæpar 238 krónur á lítra en var í kringum 243 krónur í marsbyrjun.

Runólfur segir það jafnframt athyglisvert, sem bent er á í greininni, að álagningin á eldsneyti er allt að helmingi hærri hér á landi en í Svíþjóð og Danmörku. Álagningin sé a.m.k. 10 krónum hærri á Íslandi og með virðisaukaskatti sé árlegur kostnaður neytenda um 4,4 milljarðar vegna álagningar olíufélaganna. Þá skili tryggðarafslættir litlu sem engu þegar öllu sé á botninn hvolft. Félögin hækki bara álagninguna á móti.