Stöðvaður Guðni Kristinsson og Brynjar Steinarsson reyna að stöðva Valsmanninn Guðmund Hólmar Helgason og virðast á góðri leið með þá ætlan sína.
Stöðvaður Guðni Kristinsson og Brynjar Steinarsson reyna að stöðva Valsmanninn Guðmund Hólmar Helgason og virðast á góðri leið með þá ætlan sína. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Austurbergi Ívar Benediktsson iben@mbl.is ÍR-ingar komast ekki í úrslitakeppnina um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik í vor ef þeir leika eins illa í næst leikjum og þeir hafa gert í tveimur þeim síðustu.

Í Austurbergi

Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

ÍR-ingar komast ekki í úrslitakeppnina um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik í vor ef þeir leika eins illa í næst leikjum og þeir hafa gert í tveimur þeim síðustu. Þeir voru lengi vel heillum horfnir í gær þegar þeir steinlágu á heimavelli fyrir Val, 29:22, eftir að hafa verið þremur mörkum undir í hálfleik, 15:12. Fyrst og fremst geta ÍR-ingar þakkað markverði sínum, Arnóri Frey Stefánssyni, fyrir að hafa ekki verið sjö til átta mörkum undir strax að loknum fyrri hálfleik. Stórleikur hans hélt ÍR-liðinu inni í leiknum í fyrri hálfleik.

Vissulega er ÍR-liðið vængbrotið um þessar mundir þar sem stórskyttan Björgvin Þór Hólmgeirsson og Ingimundur Ingimundarson eru fjarri góðu gamni vegna meiðsla. En það afsakar ekki það einbeitingarleysi sem hrjáði flesta leikmenn liðsins lengst af í gærkvöldi á heimavelli, sem hefur verið nær óvinnandi vígi fyrir flest þau lið sem hafa gert atlögu að því eftir að ÍR komst upp í úrvalsdeild.

Einbeitingarleysið lýsti sér í hreint ótrúlegum fjölda af slæmum sendingum sem ekki rötuðu á samherja. Þannig enduðu vel á annan tug sókna liðsins. Þegar við bættist slæm nýting í opnum færum var ekki við miklu að búast.

Valsmenn léku að vanda framliggjandi vörn sína, 3/2/1. Hún hefur ekki valdið ÍR-liðinu tiltakanlegum erfiðleikum fram til þessa í viðureignum liðanna í deildinni. Hinsvegar olli hún Breiðaholtsliðinu mestu vandræðum í gær, ekki síst framan af síðari hálfleik. Valsmenn fengu hvert hraðaupphlaupið á fætur öðru í leiknum. Reyndar gekk þeim illa að nýta mörg þeirra í fyrri hálfleik, auk þess sem fjögur vítaköst fóru forgörðum hjá Valsliðinu. Geta leikmenn liðsins þakkað fyrir að viðureignin var ekki jöfn.

Valsmenn lögðu fyrst og fremst grunninn að þessum sigri með mörkum eftir hraðaupphlaup. Að öðru leyti þruftu þeir ekki neinn glansleik til þess að fara heim með stigin tvö. Eftir að hafa verið þremur mörkum yfir í háflleik skildi leiðir í fyrri helmingi síðari hálfleiks. Þá náði Valur mest átta marka forskoti, 21:13. Eftir það voru úrslitin ráðin þótt munurinn hafi aðeins minnkað um skeið.

Valsmenn virðast vera á leið í úrslitakeppnina en meiri vafi leikur á að ÍR-liðið nái þeim áfanga.

ÍR – Valur 22:29

Austurberg, Olís-deild karla, fimmtudag 13. mars 2014.

Gangur leiksins : 0:1, 1:1, 3:2, 4:5, 6:5, 6:10, 9:11, 11:12, 12:15 , 12:16, 13:21, 20:24, 21:27, 22:29 .

Mörk ÍR: Guðni Már Kristinsson 8, Jón Heiðar Gunnarsson 4, Sigurjón F. Björnsson 3, Sturla Ásgeirsson 3/2, Daníel Ingi Guðmundsson 2, Máni Gestsson 1, Davíð Georgsson 1.

Varin skot: Arnór Freyr Stefánsson 14/2, Kristófer Fannar Guðmundsson 6/1.

Utan vallar : 8 mínútur.

Mörk Valur : Geir Guðmundsson 10, Finnur Ingi Stefánsson 8/1, Sveinn Aron Sveinsson 2, Alexander Örn Júlíusson 2/1, Guðmundur Hólmar Helgason 2, Orri Freyr Gíslason 2, Elvar Friðriksson 2, Bjartur Guðmundsson 1.

Varin skot: Hlynur Morthens 11.

Utan vallar: 4 mínútur.

Dómarar : Anton Gylfi Pálsson og Jónas Elíasson.

Áhorfendur : 309.