Rithöfundur og ljóðskáld Sigurbjörn Þorkelsson er þakklátur fyrir mikil og jákvæð viðbrögð vegna greina sem hann hefur skrifað í Morgunblaðið.
Rithöfundur og ljóðskáld Sigurbjörn Þorkelsson er þakklátur fyrir mikil og jákvæð viðbrögð vegna greina sem hann hefur skrifað í Morgunblaðið. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is Sigurbjörn Þorkelsson hefur sent frá sér bókina Kjarna málsins með 140 völdum greinum sem Morgunblaðið birti eftir hann á árunum 2004 fram í ársbyrjun 2014.

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Sigurbjörn Þorkelsson hefur sent frá sér bókina Kjarna málsins með 140 völdum greinum sem Morgunblaðið birti eftir hann á árunum 2004 fram í ársbyrjun 2014. „Tvítugur að aldri, fyrir nær 30 árum, byrjaði ég að fá birtar stuttar greinar, þar sem ég taldi mig hafa eitthvað fram að færa, þeim var vel tekið og ég hef verið að síðan,“ segir hann um greinaskrifin, yfir 300 greinar.

Greinarnar eiga það sammerkt að vera hvetjandi og jákvæðar. Sigurbjörn segist vilja standa með fólki sem hallað sé á og gangi í gegnum erfiða tíma, veikindi, missi og fleira.

Ljósberi með krabbamein

„Ég reyni að vera ljósberi, farvegur trúar, vonar og kærleika,“ segir hann. „Ég fjalla ekki endilega um það sem er efst á baugi í þjóðfélaginu hverju sinni heldur um það sem snýr að fólki í daglegu amstri.“

Viðbrögðin hafa ekki látið á sér standa. „Þau hafa verið gríðarlega mikil, jákvæð og þakklát og ég hef eignast góða kunningja og vini í gegnum greinarnar. Ég er mjög þakklátur fyrir þessa uppörvun, ég hef séð að greinarnar hafa virkað, sem hefur gert það að verkum að ég hef haldið þessu ólaunaða hugsjónastarfi áfram í öll þessi ár.“ Í þessu sambandi nefnir hann að meðal annars hafi einnig a.m.k. 25 ljóða hans birst í yfir 200 minningargreinum í Morgunblaðinu. „Ég er afskaplega hrærður og þakklátur vegna þessa, en það er okkar eini tilgangur á þessari jörð að vera Guði til dýrðar, náunganum til blessunar og þannig sjálfum okkur til heilla.“

Í greininni „Ákall um fyrirbæn“ í ágúst í fyrra sagði Sigurbjörn frá því að hann hefði greinst með krabbamein í blöðruhálskirtli í fyrra mánuði. Hann fór í uppskurð í desember og segist enn vera að glíma við sjúkdóminn. Mörg ljóða hans fjalla einmitt um og höfða til fólks sem gengur í gegnum erfiða hluti með trúna, vonina, jákvæðnina, bjartsýnina og kærleikann að leiðarljósi. „Þegar ég lendi í svona hremmingum sjálfur get ég flett upp í eigin textum og látið þá virka fyrir mig.“

Sigurbjörn segir að trúarlegi bakgrunnurinn sé sterkt bakland og gott sé að geta sótt uppörvun og hvatningu í Biblíuna. „Ég er enda mjög litaður af henni í öllum mínum skrifum og ljóðagerð og svo er ég svo lánsamur að eiga stórkostlega konu, Laufeyju Geirlaugsdóttur, sem stendur þétt við hliðina á mér, og þrjá yndislega syni, Þorkel Gunnar, Geirlaug Inga og Pál Steinar.“ Hann bætir við að hann hafi fengið gríðarlega mikil viðbrögð við fyrrnefndri grein og ekki sjái fyrir endann á þeim enn. „Ég er afskaplega þakklátur öllu þessu góða fólki.“

Hefur gefið út 22 bækur

Frá 1995 hefur Sigurbjörn Þorkelsson, ljóðskáld og rithöfundur, gefið út 22 bækur og tvær eru í vinnslu. Þar af eru sjö ljóðabækur, þrjár bænabækur, barnabækur og smásögur. Kjarni málsins er annað greinasafnið úr Morgunblaðinu, en 2004 kom út greinasafnið Góðan daginn með 91 valinni grein frá 1984-2004. Heimir Óskarsson hefur séð um útlit og umbrot allra bókanna. Sigurbjörn hefur starfað mikið að kristilegum málefnum frá 1986 en undanfarin ár hefur hann nær eingöngu einbeitt sér að ritstörfum og verkefnum er þeim tengjast.