Turn Framkvæmdir eru hafnar við nýja turna í Skuggahverfi.
Turn Framkvæmdir eru hafnar við nýja turna í Skuggahverfi. — Morgunblaðið/Ómar
Fulltrúar meirihlutans í borgarstjórn Reykjavíkur auk fulltrúa Vinstri grænna í umhverfis- og skipulagsráði hafa samþykkt að fela skipulagsfulltrúa um að höfða til samvisku verktaka sem reisa nýjan turn í Skuggahverfi við Skúlagötu um að breyta...

Fulltrúar meirihlutans í borgarstjórn Reykjavíkur auk fulltrúa Vinstri grænna í umhverfis- og skipulagsráði hafa samþykkt að fela skipulagsfulltrúa um að höfða til samvisku verktaka sem reisa nýjan turn í Skuggahverfi við Skúlagötu um að breyta fyrirætlunum sínum.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu í gær til á fundi borgarráðs að reynt yrði að ná samkomulagi við lóðarhafana um breytingar á háhýsinu. Afgreiðslu þeirrar tillögu var frestað.

Að sögn Sóleyjar Tómasdóttur, borgarfulltrúar VG, hafa athugasemdir borist borgaryfirvöldum vegna áforma um að reisa 18 hæða turn við Skúlagötu 22.

„Það er voðalega lítið sem við getum gert. Hann hefur fengið öll tilskilin leyfi og deiliskipulagið er samþykkt. Það má efast um þessa samþykkt vegna þess að það er svo langt síðan og það hefur svo margt breyst. Fólkið sem tók þessa ákvörðun er ekki lengur með umboð borgarbúa,“ segir Sóley en tekur fram að það breyti þó ekki að skipulagið sé í fullu gildi. Framkvæmdirnar byggjast á deiliskipulagi sem var samþykkt árið 2006. Í bókun VG og meirihlutans kemur fram að það skipulag sé barn síns tíma. Hærri turninn eigi eftir að hafa áhrif á veðurfar, útsýni, ásýnd borgarinnar og skerða mikilvægan sjónás norður Frakkastíg. Þá sé hann og reiturinn allur á skjön við umhverfis- og skipulagsáherslur.

Því skorar ráðið á Alþingi að setja inn fyrningarákvæði í skipulagslög þannig að hægt sé að endurskoða skipulagsáætlanir ef framkvæmdir hefjast ekki innan ákveðins tíma, Sóley telur þetta eðlileg viðbrögð borgaryfirvalda og að það ríki nokkuð þverpólitísk sátt um manneskjulegri byggð í umhverfis- og skipulagsráði. kjartan@mbl.is