Forstjóri Orri Hauksson segir að efnahagsreikningurinn endurspegli nú betur markaðsvirði félagsins við fjárhagslega endurskipulagningu 2013.
Forstjóri Orri Hauksson segir að efnahagsreikningurinn endurspegli nú betur markaðsvirði félagsins við fjárhagslega endurskipulagningu 2013. — Morgunblaðið/Golli
Þrátt fyrir að rekstrarhagnaður Skipta fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) hafi numið 8,3 milljörðum króna árið 2013 og aukist um 12% milli ára nam tap félagsins tæplega 17 milljörðum króna.

Þrátt fyrir að rekstrarhagnaður Skipta fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) hafi numið 8,3 milljörðum króna árið 2013 og aukist um 12% milli ára nam tap félagsins tæplega 17 milljörðum króna. Árið 2012 nam tap Skipta, móðurfélags Símans, 3,4 milljörðum.

Þetta mikla tap skýrist fyrst og fremst af 14 milljarða virðisrýrnun viðskiptavildar. Nemur afskriftin 23% af heildareignum Skipta og ríflega 50% af eigin fé félagsins sem var 26,4 milljarðar króna í árslok 2013. Eiginfjárhlutfall Skipta er engu að síður sterkt, eða 45%.

Í afkomutilkynningu er haft eftir Orra Haukssyni, forstjóra Skipta, að uppgjörið einkennist af mikilli virðisrýrnun óefnislegra eigna sem veldur verulegu tapi. „Slíkt tap hefur ekki áhrif á fjárhagslegan styrk félagsins né getu þess til að standa við allar sínar skuldbindingar. Efnahagsreikningurinn endurspeglar nú betur markaðsvirði félagsins við fjárhagslega endurskipulagningu á seinasta ári. Við teljum rétt að beita ýtrustu varúð við mat á óefnislegum eignum og á einskiptiskostnaði. Alls eru gjaldfærðir 19,6 milljarðar króna vegna þessara liða í uppgjöri ársins og munar um minna.“

Auk afskrifta á viðskiptavild má rekja tap Skipta til þriggja milljarða niðurfærslu á kröfu á hendur Glitni vegna uppgjörs gjaldmiðlaskiptasamninga og 2,6 milljarða gjaldfærslu í varúðarskyni vegna endurákvörðunar skatta.

Sölutekjur Skipta jukust á liðnu ári um 3,6% og námu 29,9 milljörðum króna. Félaginu tókst sömuleiðis að lækka hjá sér rekstrarkostnað um 79 milljónir milli ára og var hann samtals 9,47 milljarðar á árinu 2013.

Handbært Skipta frá rekstri hækkaði nokkuð á síðasta ári og nam sjö milljörðum, samanborið við 6,3 milljarða árið áður. Fjárfestingar Skiptasamstæðunnar í varanlegum rekstrarfjármunum jukust einnig um tæpan milljarð króna milli ára og námu 3,87 milljörðum 2013.

Um mitt síðasta ár lauk fjárhagslegri endurskipulagningu Skipta sem þýddi að vaxtaberandi skuldir lækkuðu verulega og eigið fé styrktist. Skuldir námu um 26,7 milljörðum um áramót en voru fyrir endurskipulagningu 62 milljarðar.