Hishammuddin Hussein
Hishammuddin Hussein
Hólmfríður Gísladóttir holmfridur@mbl.is Jay Carney, talsmaður Hvíta hússins, sagði í gær að nýjar upplýsingar hefðu opnað á þann möguleika að leitinni að flugvél Malaysia Airlines, sem hvarf á föstudag, verði beint að Indlandshafi.

Hólmfríður Gísladóttir

holmfridur@mbl.is

Jay Carney, talsmaður Hvíta hússins, sagði í gær að nýjar upplýsingar hefðu opnað á þann möguleika að leitinni að flugvél Malaysia Airlines, sem hvarf á föstudag, verði beint að Indlandshafi. Hann gaf ekki upp um hvers konar upplýsingar væri að ræða.

Bridget Welsh, prófessor í stjórnmálafræði við Singapore Management-háskóla, sagði í samtali við AFP í gær að svo virtist sem hagsmunir er vörðuðu m.a. yfirráð og leynileg gögn hefðu verið teknir fram yfir leitina að vélinni, af Malasíu, Kína og öðrum ríkjum sem að henni standa.

Upplýsingum um afdrif flugs MH370 hefur ekki borið saman frá því leitin hófst og gærdagurinn var engin undantekning. Þá hafnaði Hishammuddin Hussein, samgönguráðherra Malasíu, frétt Wall Street Journal, þar sem sagt var frá því að gögn frá eftirlitsbúnaði Rolls-Royce-véla flugvélarinnar bentu til þess að vélin hefði mögulega verið á lofti í allt að fjórar klukkustundir eftir að síðast heyrðist af henni.

Yfirvöld í Malasíu játuðu jafnframt í gær að kínverskum gervihnattamyndum, sem virtust sýna mögulegt brak í Suður-Kínahafi, hefði verið dreift af Kínverjum fyrir mistök og að bletturinn á myndunum væri alls ekki flak flugvélarinnar. Yfirvöld í bæði Malasíu og Víetnam höfðu sent flugvélar til að kanna málið en fundu ekkert.

CNN hafði eftir starfsmanni malasískra flugmálayfirvalda í gær að síðustu orð áhafnar vélarinnar áður en samband rofnaði hefðu verið „allt í lagi, góða nótt“. Þá sagði eiginkona eins farþega vélarinnar við spjallþáttastjórnandann Piers Morgan að hver óvissudagur virtist heil eilífð.