Geysir í Haukadal.
Geysir í Haukadal.
Stefnt er að því að hefja gjaldtöku við Geysissvæðið, þ.e. inn á hverasvæðið við Geysi í Haukadal í Bláskógabyggð, síðdegis í dag. „Það eru allar líkur á því að þetta hefjist seinni partinn á morgun.

Stefnt er að því að hefja gjaldtöku við Geysissvæðið, þ.e. inn á hverasvæðið við Geysi í Haukadal í Bláskógabyggð, síðdegis í dag. „Það eru allar líkur á því að þetta hefjist seinni partinn á morgun. Í síðasta lagi á laugardag,“ sagði Garðar Eiríksson, talsmaður Landeigendafélags Geysis, í samtali við mbl.is í gær. Stakur miði inn á svæðið mun kosta 600 kr. fyrir 17 ára og eldri og gestir fá bækling í hendur að sögn Garðars.

Líkt og fram hefur komið átti gjaldtakan að hefjast sl. mánudag en félagið ákvað að fresta henni vegna lögbannskröfu fjármálaráðherra. Niðurstaða í málinu lá fyrir á miðvikudaginn þegar sýslumaðurinn á Selfossi hafnaði kröfu ráðherra.

Landeigendafélagið hefur undirbúið gjaldtökuna síðustu mánuði og um leið þjónustu á svæðinu. Þannig hafa níu starfsmenn verið ráðnir og tóku þeir til starfa 1. mars. „Við höfum starfsfólk í hliðum og starfsfólk á svæðinu. Síðan höfum við samið við verslunareigandann handan götunnar að hann verði með sölu á miðum í samvinnu við okkur,“ segir Garðar. jonpetur@mbl.is