Birgðir Ung kona setur poka á krók sem úkraínskur sjóliði dregur síðan um borð í innilokað úkraínskt herskip í höfninni í Sevastopol á Krímskaga.
Birgðir Ung kona setur poka á krók sem úkraínskur sjóliði dregur síðan um borð í innilokað úkraínskt herskip í höfninni í Sevastopol á Krímskaga. — AFP
Hólmfríður Gísladóttir holmfridur@mbl.

Hólmfríður Gísladóttir

holmfridur@mbl.is

Formaður þingnefndar rússneska þingsins um samskipti við fyrrverandi Sovétlýðveldin sagði í útvarpsviðtali í gær að nokkrar rússneskar hersveitir væru í viðbúnaðarstöðu á Krímskaga, ef vera kynni að gerð yrði árás frá Kænugarði dagana sem íbúar Krím ganga til atkvæðagreiðslu um aðskilnað frá Úkraínu.

Þetta er í fyrsta sinn sem háttsettur rússneskur embættismaður gengst við hernaðarbrölti Rússa á Krímskaga en forsetinn, Vladimir Pútín, hefur ítrekað haldið því fram að einkennisklæddir byssumenn, sem standa vörð við herstöðvar í Krím, tilheyri sjálfsvarnarsveitum heimamanna.

Varar Rússa við

Úkraínska þingið samþykkti í gær að koma á stofn varðsveit sem skipuð verður 60.000 sjálfboðaliðum en markmið hennar verður að koma í veg fyrir að rússneskar hersveitir sæki lengra inn í landið. Í úkraínska hernum eru alls 130.000 hermenn en í þeim rússneska 845.000.

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, sagði í gær að ef Rússar héldu áfram á þessari braut myndi það ekki einvörðungu valda hörmungum í Úkraínu. „Það myndi ekki eingöngu breyta sambandi Evrópusambandsins í heild sinni við Rússland. Nei, það myndi líka, og um þetta er ég sannfærð, stórskaða Rússland, bæði efnahagslega og pólitískt,“ sagði hún á þýska þinginu.

Boðar aðgerðir á mánudag

Rússar sendu sex SU-27 orrustuþotur til Hvíta-Rússlands í gær, að beiðni forseta landsins, en Atlantshafsbandalagið og Bandaríkin hafa eflt herafla sinn á svæðinu síðustu vikur vegna ástandsins í Úkraínu.

John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, varaði við því í gær að ef Rússar sýndu ekki merki þess að þeir væru tilbúnir til að taka skref í átt til þess að leysa deiluna sem upp er komin vegna atkvæðagreiðslunnar um helgina, myndu Bandaríkin og ríki Evrópu grípa til aðgerða þegar á mánudag.

Barack Obama Bandaríkjaforseti fundaði með Arseniy Yetsenyuk, forsætisráðherra Úkraínu, á miðvikudag og sagðist fullviss um að alþjóðasamfélagið myndi standa með Úkraínu ef Pútín mildaðist ekki í afstöðu sinni.