Evrópuríkin þurfa að leita leiða til að efla orkubúskap sinn

Í síðasta mánuði voru liðin 110 ár frá fæðingu George Kennans, föður einangrunarstefnunnar svonefndu, sem lagði grunninn að sigri vesturveldanna í kalda stríðinu. Í stuttu máli gekk sú stefna út á það að einangra Sovétríkin og fylgiríki þeirra þar til þau myndu riða til falls undan þeim veikleikum sem hrjá kommúnismann.

En hvað myndi Kennan segja um „nýja kalda stríðið“ sem nú stefnir í á milli Rússa og hins vestræna heims? Hætta er á því að honum myndi þykja aðstaða Evrópuþjóðanna gagnvart Rússum að vissu leyti lakari en hún var í kjölfar síðari heimsstyrjaldar, þegar Rauði herinn sat grár fyrir járnum um hálfa álfuna. Því að það sem hefur kannski helst breyst í heiminum frá dögum kalda stríðsins er hnattvæðingin með tilheyrandi innreið markaðsbúskapar og viðskipta til Rússlands. Í krafti hennar er stór hluti Evrópu, einkum Mið- og Austur-Evrópa, orðin háð viðskiptum austur á bóginn, einkum á orkugjöfum.

Það sést vel af viðbrögðum þjóða eins og Þýskalands hversu mikið þau eiga undir að Rússar skrúfi ekki fyrir orkuna vestur á bóginn, en þriðjungur allrar orku sem neytt er í Þýskalandi kemur að austan. Aðgerðir gegn Rússum gætu því jafnvel hitt Þjóðverja verr fyrir en Pútín. Á móti kemur það að Rússar eru líka háðir vestrænu fjármagni, og því er það hættulegur leikur fyrir Pútín að reyna að hafa of mikil áhrif á sölu gassins vestur á bóginn.

Þrátt fyrir þetta hefur það sýnt sig í Úkraínu, Georgíu og víðar að Pútín skirrist ekki við að beita hinu nýfengna afli Rússlands til þess að fá það sem hann vill. Vilji ríki Evrópu reyna að koma böndum á rússneska björninn, verða þau því að leita leiða til þess að verða minna háð honum í orkumálum en nú er í stað þess að stíga jafnvel skref í öfuga átt eins og dæmi eru um. Til að styðja við þetta, að minnsta kosti til skamms tíma, yrðu Bandaríkin að stíga inn í með gasbirgðir sínar. En eru þau tilbúin að láta gjörðir fylgja orðum?