Gullfoss Gjaldtaka hefjist árið 2015.
Gullfoss Gjaldtaka hefjist árið 2015.
Viðar Guðjónsson vidar@mbl.is Í frumvarpsdrögum að lögum um náttúrupassa sem Morgunblaðið hefur undir höndum er kveðið á um að heimilt verði að stofna sjálfseignarstofnun, Náttúrupassasjóð, til að sjá um það sem viðkemur passanum.

Viðar Guðjónsson

vidar@mbl.is

Í frumvarpsdrögum að lögum um náttúrupassa sem Morgunblaðið hefur undir höndum er kveðið á um að heimilt verði að stofna sjálfseignarstofnun, Náttúrupassasjóð, til að sjá um það sem viðkemur passanum.

Í því felst að hafa umsjón með tekjum sjóðsins og úthluta fjármunum til uppbyggingar og viðhalds á ferðamannastöðum. Gert er ráð fyrir því að 18 ára og eldri greiði fyrir passann. Gjaldið verði 2.000 krónur fyrir fjóra daga, 3.000 krónur fyrir passa frá fimm dögum til fjögurra vikna og 5.000 kr. fyrir lengri tíma en fjórar vikur. Gildistíminn verði fimm ár.

Aðilar að Náttúrupassasjóði eru ráðuneyti ferðamála, ráðuneyti umhverfismála og ráðuneyti fjármála, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök ferðaþjónustunnar, Landvernd, Samút og Landeigendafélag Íslands.

Fram kemur að stjórn Náttúrupassasjóðs beri árlega að setja saman framkvæmdaáætlun um uppbyggingu og viðhald innviða á ferðamannastöðum. Í áætluninni eru taldir upp þeir ferðamannastaðir sem náttúrupassinn tekur til og verkefnum forgangsraðað. Fram kemur að 95% af tekjum sjóðsins séu hugsuð til uppbyggingar og viðhalds en 5% til málefna er varða öryggi ferðamanna. Tekið er fram að stefnt sé að því að hefja gjaldtöku 1. janúar árið 2015. Þá segir að gildistími laganna sé áætlaður til 31. desember árið 2019.

Eftirlit í höndum lögreglu

Áætlað er að eftirlit með passanum verði í höndum lögreglu en verði tekjur af passanum ekki í samræmi við fjölda ferðamanna skuli endurskoða eftirlitsþáttinn.

Í drögunum segir jafnframt að innlendir sem erlendir ferðamenn þurfi að greiða fyrir passann. Niðurstaða lögfræðiálits sýni fram á að í ljósi skuldbindinga Íslands vegna EES-samningsins yrði mjög erfitt að rökstyðja það að Íslendingar þyrftu ekki að greiða fyrir passann.