Alma Birgisdóttir
Alma Birgisdóttir
Eftir Ölmu Birgisdóttur: "Nú er sú staða komin upp á Hrafnistuheimilunum, eins og víða annars staðar, að erfitt er að ráða hjúkrunarfræðinga til starfa."

Markmið hjúkrunar á öldrunarheimilum er að tryggja vellíðan íbúa og viðhalda færni þeirra til athafna daglegs lífs. Umhverfi þar sem íbúar geta notið sín þrátt fyrir heilsubrest og skerta færni er mikilvægt því í stað áherslu á sjúkdóma og getuleysi er horft til styrkleika hvers og eins við heimilislegar og hlýlegar aðstæður. Hjúkrunarfræðingar gegna með öðrum heilbrigðisstéttum lykilhlutverki við að ná þessum markmiðum. Án þeirra væri það ekki hægt.

Nú er sú staða komin upp á Hrafnistuheimilunum, eins og víða annars staðar, að erfitt er að ráða hjúkrunarfræðinga til starfa, þar sem við getum ekki greitt þeim sömu laun og hjúkrunarfræðingar fá á heilbrigðisstofnunum í eigu ríkisins, t.d. Landspítala. Ástæðan er að stjórnvöld hafna því að öldrunarheimilin séu með í „jafnlaunaátaki stjórnvalda“. Þá hafa stjórnvöld um langt árabil ekki hækkað daggjöld í samræmi við verðlagsþróun, né heldur tekið tillit til þeirrar staðreyndar að skjólstæðingar okkar eru í dag veikari en áður við komu á heimilið, þeir hafa langvinna og flókna sjúkdóma sem kallar á aukna mönnun fagfólks. Daggjöldin eru þær tekjur sem reksturinn byggir á.

Laun skipta máli

Hjúkrunarfræðingar vilja gjarnan koma og vinna hjá okkur. En laun skipta máli. Um síðustu mánaðamót sögðu nokkrir hjúkrunarfræðingar upp störfum af þessum ástæðum. Það er nokkuð ljóst að ef við getum ekki mannað vaktir hjúkrunarfræðinga hafa Hrafnistuheimilin ekki annan kost en að bregðast við með því að hætta að taka inn nýja heimilismenn, jafnvel strax í næsta mánuði. Gera stjórnvöld sér grein fyrir því hvaða áhrif það hefur? Hrafnistuheimilin á höfuðborgarsvæðinu taka inn um 125 nýja íbúa á ári og meirihluti þeirra kemur frá Landspítalanum. Síðan eru um 400 innlagnir á ári í endurhæfingar- og hvíldarrými Hrafnistu. Þeir sem koma í þau rými koma líka flestir af Landspítalanum.

Ég sem ber ábyrgð á hjúkrun á Hrafnistuheimilunum verð að sjá til þess að þeir sem dvelja hjá okkur fái þá hjúkrun sem þeir þurfa hverju sinni. Ef við getum ekki sinnt því vegna skorts á hjúkrunarfræðingum gefur það augaleið að Hrafnista mun ekki sjá sér annað fært en að hætta að taka inn nýja íbúa og draga verulega úr innlögnum í endurhæfingar- og hvíldarrými. Ég skora á heilbrigðisráðherra að bregðast við og leiðrétta þennan mismun hið allra fyrsta svo ekki þurfi að koma til þessara aðgerða.

Höfundur er hjúkrunarforstjóri Hrafnistu.

Höf.: Ölmu Birgisdóttur