Mótmæli Átök brutust út í mótmælagöngunni á miðvikudag en um 3.000 stúdentar tóku þátt í henni.
Mótmæli Átök brutust út í mótmælagöngunni á miðvikudag en um 3.000 stúdentar tóku þátt í henni. — AFP
Caracas. AFP. | Þrír létu lífið í átökum mótmælenda og lögreglu í Venesúela á miðvikudag, þegar 3.

Caracas. AFP. | Þrír létu lífið í átökum mótmælenda og lögreglu í Venesúela á miðvikudag, þegar 3.000 stúdentar efndu til mótmælagöngu í höfuðborginni Caracas, í tilefni af því að mánuður er liðinn frá fyrstu dauðsföllunum í öldu mótmæla sem gengið hefur yfir landið frá byrjun febrúar.

Yfirvöld höfðu ekki gefið grænt ljós á gönguna en forseti landsins, Nicolas Maduro, tilkynnti í vikunni að hann hygðist banna öll mótmæli í miðborginni, svo lengi sem stjórnarandstaðan neitaði að eiga viðræður við stjórnvöld. Forsetinn hefur sætt gagnrýni vegna versnandi lífskjara í landinu en ofbeldisfullir glæpir, verðbólga og skortur á nauðþurftum á borð við salernispappír eru meðal þeirra vandamála sem íbúar landsins standa frammi fyrir.

Frá því að mótmælin brutust út hafa stúdentar og leiðtogar stjórnarandstöðunnar annars vegar og yfirvöld hins vegar, sakað hinn aðilann um að standa að baki róttækum hópum sem hafa beitt skotvopnum í mótmælunum. Alls hafa 24 látið lífið frá því í febrúarbyrjun en fórnarlömbin á miðvikudag voru Jesus Acosta, 20 ára, Guillermo Sanchez, 42 ára, og Ramso Ernesto Bracho Bravo, meðlimur bólivíska þjóðvarnarliðsins. Allir létust af skotsárum.

Stofna nefnd um viðræður

Hilda Ruiz, leiðtogi stúdenta við Central-háskóla, sagði í samtali við AFP að mótmælendur vildu að stjórnvöld svöruðu ásökunum um harkalegar aðfarir lögreglu og að þeim sem bæru ábyrgð á dauðsföllunum yrði refsað.

Utanríkisráðherrar Suður-Ameríkuríkjanna funduðu í Síle á miðvikudag og ræddu stöðu mála í Venesúela. Á fundinum var m.a. samþykkt að koma á laggirnar nefnd til að styðja við viðræður milli stjórnvalda og stjórnarandstöðunnar. Markmið hennar verður að „fylgja eftir, styðja og ráðleggja varðandi víðtækar og uppbyggilegar pólitískar samræður“.

Átök í höfuðborginni
» Mótmælt var í Caracas, San Cristobal, Merida og Valencia á miðvikudag.
» Námsmaður og almennur borgari voru skotnir til bana í Valencia.
» Meðlimur bólivíska þjóðvarnarliðsins lést í átökum í Naguanagua.
» Lögregla beitti táragasi og vatnsbyssum gegn mótmælendum, sem svöruðu með grjótkasti.