Félagar Jón Reginbald Ívarsson, Ómar Egill Ragnarsson og Áskell Harðarson stofnuðu útgáfufyrirtæki fyrir skemmstu. Hlutirnir gerast hratt og hafa þeir nú allnokkur nöfn alþjóðlegra tónlistarmanna á sínum snærum.
Félagar Jón Reginbald Ívarsson, Ómar Egill Ragnarsson og Áskell Harðarson stofnuðu útgáfufyrirtæki fyrir skemmstu. Hlutirnir gerast hratt og hafa þeir nú allnokkur nöfn alþjóðlegra tónlistarmanna á sínum snærum.
María Margrét Jóhannsdóttir mariamargret@mbl.is Þrír plötusnúðar hafa tekið höndum saman og stofnað nýtt útgáfufyrirtæki, BORG LTD, sem sérhæfir sig í útgáfu á smáskífum með svokallaðri hústónlist.

María Margrét Jóhannsdóttir

mariamargret@mbl.is

Þrír plötusnúðar hafa tekið höndum saman og stofnað nýtt útgáfufyrirtæki, BORG LTD, sem sérhæfir sig í útgáfu á smáskífum með svokallaðri hústónlist. Að baki útgáfunni standa Áskell Harðarson, Ómar Egill Ragnarsson og Jón Reginbald Ívarsson og ljóst er að metnaðurinn er mikill.

„Ætlunin er að gefa út alþjóðlega tónlistarmenn í hústónlistargeiranum. Viðbrögðin hafa nú þegar verið vonum framar og það eru margir spennandi hlutir í bígerð. Fyrsta platan lítur dagsins ljós í lok mánaðarins. Fyrst kemur platan út á vínil og verður til sölu á alþjóðlegri vefverslun, Juno Records, sem er ein allra stærsta netverslun sem selur vínilplötur. Þeir höfðu trú á okkur og gerðu strax við okkur dreifisamning,“ segir Áskell en hann er einnig þekktur undir nafninu Housekell.

Ásgeir segir aðdragandann að stofnun útgáfunnar ekki langan.

„Það er í raun skemmtileg saga að baki. Þannig vildi til að þýskur tónlistarmaður, Alex Agore, setti inn á heimasíðu sína mörg óútgefin lög og lét þau skilaboð fylgja að vilji einhver gefa þau út þá endilega hafa samband. Agore er mjög þekktur innan hústónlistarbransans og við Ómar erum miklir aðdáendur hans. Einn sunnudaginn hringdi ég svo í Ómar og stakk upp á að við myndum slá á þráðinn til Agore. Hann var til í það og Agore var opinn fyrir þessu samstarfi. Við stofnuðum því útgáfufyrirtæki, völdum nokkur lög eftir Agore og svo varð ekki aftur snúið. Boltinn fór að rúlla og rúllaði mjög hratt. Nú bíða þrjár til fjórar plötur útgáfu.“

Stefna á alþjóðamarkað

„Hústónlist er vinsælli nú en nokkru sinni fyrr og skilin á milli popptónlistar og hústónlistar eru alltaf að verða óljósari og gróskan er mikil.

Við hugsum þetta stærra en Ísland og erum í samstarfi við fyrirtæki sem dreifa plötunum um alla Evrópu. Við tökum því þátt í þessari miklu alþjóðlegu flóru og njótum mikils stuðnings en það eru allir mjög áhugasamir um þetta framtak.“

Áskell segir mikla eftirspurn vera eftir vínilplötum.

„Munurinn á plötum sem eru gefnar út á vínil annars vegar og á stafrænu formi hins vegar er mjög mikill. Hljóðgæðin á vínilplötum eru svo miklu meiri en það sem maður kaupir til dæmis á itunes. Þetta er eitt af því sem útskýrir þessa miklu endurkomu vínilplatna. Þá er þetta eigulegri gripur en bara einhver skrá í tölvunni og skapar einnig ákveðinn vettvang til sköpunar,“ segir Áskell.

Til að fagna útgáfu fyrstu plötunnar er boðið til veislu á skemmtistaðnum Dolly klukkan 23 annað kvöld. Félagarnir þrír munu þeyta skífum auk þess sem Chris Cheops mun spila. Aðgangur er ókeypis.