Baldur fæddist í Reykjavík 24. júní 1933. Hann lést á hjúkrunar- og dvalarheimilinu Skógarbæ í Reykjavík 1. mars 2014.

Foreldrar Baldurs voru Magna Ólafsdóttir, f. 27. júní 1898, d. 12. júlí 1987, og Bjarni Bjarnason, f. 5. júlí 1901, d. 23. júlí 1972. Baldur var þriðji í röð sex systkina, en systkini hans eru: Anna Ólafía, f. 24. nóvember 1927, d. 4. nóvember 2013; Bjarni Valgeir, f. 29. ágúst 1931; Bragi Guðmundur, f. 26. september 1935; Bára Helga, f. 27. janúar 1937, og Alda Björg, f. 1. mars 1942.

Fyrri kona Baldurs var Guðrún Jóna Sigurjónsdóttir og eignuðust þau einn son, Baldur Þór, f. 19. mars 1961. Þau skildu. Hinn 19. ágúst 1967 kvæntist Baldur eftirlifandi eiginkonu sinni, Iben Sonne, f. 12. febrúar 1944 í Danmörku. Barnabörn Baldurs eru átta talsins og langafabörnin eru orðin sjö.

Baldur var lengst af starfsævinni leigubílstjóri í Reykjavík, fyrst hjá Steindóri en lengst af þó á Borgarbílastöðinni. Síðustu starfsárin starfaði hann sem húsvörður hjá Knattspyrnufélaginu Val á Hlíðarenda.

Útför Baldurs fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 14. mars 2014, kl. 13.

Ég sendi þér kæra kveðju

nú komin er lífsins nótt,

þig umvefji blessun og bænir

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því,

þú laus ert úr veikinda viðjum

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti

þá auðnu að hafa þig hér,

og það er svo margs að minnast

svo margt sem um hug minn fer,

þó þú sért horfinn úr heimi

ég hitti þig ekki um hríð,

þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir)

Þín

Iben.

Í dag kveð ég bróður og góðan vin. Dengsi, eins og hann var ávallt kallaður af fjölskyldu og vinum, var drengur góður og heill.

Ávallt var hægt að reiða sig á aðstoð hans og oft hljóp hann undir bagga með okkur Birnu þegar eitthvað kom upp á hjá okkar stóra barnahópi.

Við ólumst upp saman í hópi sex systkina á Laugavegi 11. Eins og gengur og gerist var ýmislegt brallað á æskuárunum og miðbærinn var okkar leikvöllur. Minningar af sleðabruni á Arnarhóli og skautum á Tjörninni koma upp í huga mér þegar ég hugsa til baka til þessara ára.

Dengsi fór ungur í sveit á sumrin til frændfólks okkar að Erpsstöðum í Dalasýslu og undi hag sínum vel þar. Á unglingsárunum störfuðum við saman á Eyrinni, sem oft var fyrsta starf ungra manna á þessum árum. Eftir það fór Dengsi eina vertíð á síld með pabba, en eftir það hófst akstursferill hans. Í fyrstu ók hann sendibíl hjá KRON en fljótlega færði hann sig yfir í leigubílaakstur, en við það starfaði hann lengst af ævinnar. Síðustu ár starfsævinnar starfaði Dengsi hjá Knattspyrnufélaginu Val sem húsvörður í íþróttahúsi félagsins á Hlíðarenda. Þótti honum vænt um að fá að ljúka starfsævinni hjá félaginu sínu, en hann hætti störfum rétt fyrir sjötugsafmælið sitt.

Dengsi hafði ávallt gaman af dansi og Iben konu sinni kynntist hann einmitt þegar hann fylgdi vini sínum Sigvalda Þorgilssyni danskennara á dansnámskeið í London.

Ég man hvað krakkarnir mínir voru spenntir þegar von var á Dengsa frænda í heimsókn. Ekki nóg með að hann æki alltaf um á flottum amerískum drossíum, heldur var hann einnig mikill sprelligosi og þótti gaman að ærslast í ungviðinu með töfrabrögðum og öðru glensi. Minnast þau því Dengsa með miklum hlýhug og gleði í hjarta.

Kæri bróðir, hafðu þökk fyrir samfylgdina, þitt ljúfa og rólega viðmót og góðar minningar í gegnum tíðina.

Við Birna biðjum Guð að styrkja Iben, Baldur Þór og aðra aðstandendur í þeirra sorg.

Þinn bróðir,

Bragi (Lillibó).

Nú hefur hann Dengsi okkar kvatt þetta jarðlíf. Trú manna er misjöfn um hvað tekur þá við og er það bara gott. Hver og einn verður að fá að trúa því sem honum finnst réttast.

Mig langar að kveðja þig Dengsi minn með nokkrum minningabrotum sem undanfarna daga hafa komið upp í huga mér.

Þegar við hittumst í fyrsta sinn sagðir þú dálítið skondið, sem ég ætla ekki að hafa eftir hér, en þá sá ég strax hversu vænt þér þótti um einkason þinn, hann Baldur Þór. Hann var á þessum tíma að vinna á varðskipinu Þór og þótti mér aðdáunarvert að alltaf þegar hann fór út og eins þegar hann kom í land, þá varst þú mættur á bryggjuna til að kveðja eða taka á móti honum. Alveg sama hvernig veðrið var, alltaf varst þú mættur.

Eftir að börnin okkar Baldurs fóru að koma í heiminn sá ég líka hversu barngóður þú varst. Þegar þið Iben komuð í heimsókn snerist þú í kringum þau og breyttist í raun sjálfur í barn. Oft á tíðum voru lætin orðin slík að ég bað þig að róa þig aðeins. Þá sagðir þú já, já, en hélst svo bara áfram. Svo eftir að þið hjónin voruð farin tók oft langan tíma að ná blessuðum börnunum niður.

Eins er mér minnisstætt sumar eitt, þegar við fórum með þér og Iben í sumarbústað. Bústaðurinn var mjög lítill og þ.a.l. herbergin mjög lítil. Þegar svo átti að fara að sofa gat Iben alls ekki hugsað sér að sofa í svona kompu og sagðist ætla að sofa úti í bíl.

Við stríddum henni auðvitað heilmikið og sögðum henni (hún er dönsk) að sannir Íslendingar létu nú ekki lítið og þröngt herbergi hræða sig. En þú, Dengsi, sannaðir enn og aftur hversu góður maður þú varst og tókst svefnpokann þinn og fórst með þinni konu út í bíl og þar sváfuð þið.

Annað var það sem líka einkenndi þig. Það að gefast upp var ekki til hjá þér og þegar eitthvað bjátaði á varst þú alltaf til staðar og sagðir oft þessar fleygu setningar, sem seint munu renna mér úr minni, og steyttir hnefann þeim til áherslu: „Nú er bara að gera hluti“ og „Það veður enginn í vélarnar“.

Já Dengsi minn, svona varst þú. Þegar svo alzheimer-sjúkdómurinn fór að herja á þig þá komu auðvitað erfiðir tímar, sérstaklega fyrir þig og hana Iben þína og Baldur son þinn. Samt verður að segjast að þótt þú hættir að þekkja flest af fólkinu í kringum þig varstu alltaf kátur og hress, en það var líka eitt af því sem einkenndi þig svo mjög. Ég man varla eftir þér nema með bros á vör.

Nú ætla ég að láta þessu lokið og kveðja þig. Hver veit svo hvort við hittumst aftur „hinum megin“.

Farðu í friði vinur minn kær

faðirinn mun þig geyma.

Um aldur og ævi þú verður mér nær

aldrei ég skal þér gleyma.

Svo vöknum við með sól að morgni.

(Bubbi Morthens)

Elsku Iben, Baldur og aðrir nákomnir, ég votta ykkur mína innilegustu samúð.

Guðrún Lára (Gunna).

Afi Dengsi var vinalegur maður með hvítt skegg og góðleg augu. Alltaf þegar við hittum hann fengum við fallegt bros, hlýja kveðju og þétt innilegt handtak. Munum við alltaf minnast hans þannig.

Margs er að minnast,

margt er hér að þakka.

Guði sé lof fyrir liðna tíð.

Margs er að minnast,

margs er að sakna.

Guð þerri tregatárin stríð.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

Gekkst þú með Guði,

Guð þér nú fylgi,

hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.

Grátnir til grafar

göngum vér nú héðan,

fylgjum þér, vinur. Far vel á braut.

Guð oss það gefi,

glaðir vér megum

þér síðar fylgja' í friðarskaut.

(Vald. Briem)

Við sendum þeim sem okkur standa næst og eiga sárast um að binda, Iben og pabba, alla okkar ást og styrk.

Rakel Huld, Karen Rut, Davíð Þór, Aron Örn og fjölskyldur.

Góður drengur, heiðarlegur, traustur, fyndinn og skemmtilegur er mér efst í huga er ég minnist Dengsa vinar míns. Dengsi, eins og hann var alltaf kallaður, og Iben konan hans voru vinir okkar fjölskyldunnar í nær 50 ár. Iben og Dengsi var samnefni er um þau var rætt því svo samrýnd voru þau að í okkar huga voru þau sannarlega eitt. Ég minnist margra góðra stunda sem við áttum saman á heimili okkar Hebba, það leið varla sú vika að ekki heimsæktu þau okkur á Álfholtsveginn eða í Dalalandið og oft var þá glatt á hjalla og umræður skemmtilegar, ekki síst þar sem Dengsi fann oftast fyndnu hliðina á málefnunum. Leiðir skildi hjá góðum vinum en vináttan var alltaf jafnsterk, eins og aldrei hefði verið kvatt þótt höf skildu okkur að.

Þannig var það í hvert sinn er við hittumst í heimsóknum mínum til Íslands. Elsku Iben mín, ég vef þig örmum í huganum og vildi óska að ég væri þér nærri á þessum erfiða tíma. Ég veit í hjarta mínu að Dengsa mínum verður vel tekið hinum megin, svo drengilega gekk hann um götu lífs síns. Við kveðjum góðan vin með trega í hjarta.

Margrét Sölvadóttir

og fjölskylda.