Lamb Þeir sem vilja geta fengið páskalamb á diskinn sinn.
Lamb Þeir sem vilja geta fengið páskalamb á diskinn sinn.
Ferskt kindakjöt er væntanlegt í verslanir fyrir páska. Nokkur sláturhús bjóða upp á páskaslátrun sem sum kalla vorslátrun sauðfjár. „Þetta er alltaf svipaður skammtur hjá okkur, um 800 fjár.

Ferskt kindakjöt er væntanlegt í verslanir fyrir páska. Nokkur sláturhús bjóða upp á páskaslátrun sem sum kalla vorslátrun sauðfjár.

„Þetta er alltaf svipaður skammtur hjá okkur, um 800 fjár. Það hefur skipst til helminga, lömb og fullorðið fé,“ segir Magnús Freyr Jónsson, framkvæmdastjóri Sláturhúss KVH ehf. á Hvammstanga. Þar verður boðið upp á páskaslátrun 8. apríl. Magnús segir að bændur séu að láta slátra lömbum sem hafi verið of smá í haust og geldum ám. Aðeins hluti kjötsins fer því ferskur á markað sem páskalamb.

SS verður með páska- og þjónustuslátrun 26. mars. Í gær var búið að panta slátrun fyrir 900 fjár, bæði fullorðið og lömb.

Sigmundur Hreiðarsson, stöðvarstjóri Norðlenska á Húsavík, segir að frekar sé boðið upp á vorslátrun sem þjónustu við bændur en að svo mikil eftirspurn sé eftir fersku kjöti fyrir páska. Bændur þurfi að láta slátra geldfé og öðru til að létta á húsunum. Sauðfjárslátrun verður hjá Norðlenska á Húsavík og Höfn, SAH afurðum á Blönduósi og KS á Sauðárkróki í byrjun apríl.

Nóg er til af kindakjöti í birgðum, heldur meira en á sama tíma á síðasta ári enda hefur heldur dregið úr sölu síðustu mánuði. Salan síðustu tólf mánuði var 1,3% minni en sama tímabil á fyrra ári. helgi@mbl.is