Kristín Dagmar Jóhannesdóttir
Kristín Dagmar Jóhannesdóttir
Eftir Kristínu Dagmar Jóhannesdóttur: "Orðasambandið „eiginkona listamannsins“ á sér nokkuð langa og athyglisverða sögu í listsögulegu samhengi."

Nýlega birtist aðsend grein í Morgunblaðinu frá Aðalsteini Ingólfssyni listfræðingi þar sem hann ræddi um framlag Íslands til Feneyjatvíæringsins árið 2015. Þar komu fram punktar sem eiga rétt á sér í umræðunni, enda er þetta í fyrsta sinn sem Ísland velur „innfluttan“ listamann til að sýna á þessum svokölluðu ólympíuleikum myndlistarinnar.

Marga undraði valið þegar KÍM tilkynnti að tillaga svissneska listamannins Christophs Büchels og sýningarstjórans, Nínu Magnúsdóttur, hefði verið valin sem framlag Íslands. Helst vegna þess að listamaðurinn er ekki íslenskur og þótti jafnvel taka frá íslenskum listamönnum tækifæri sem sjaldan býðst. Það er þó mikilvægt að taka fram að í fyrsta sinn höfðu allir möguleika á að leggja fram tillögur því nú var opnað fyrir sýningartillögur ólíkt því sem áður var. Að velta upp spurningum um þjóðerni í þessu samhengi kemur ekki á óvart. Spurningin hefur snúist um hvort um sé að ræða framlag Íslands – eða íslenskt framlag til Tvíæringsins og vangaveltur um hvað þetta „íslenska“ þarf að uppfylla. Það var þó ekki sú umræða sem kom á óvart í pistli Aðalsteins heldur þau orð sem hann hafði um framlag sýningarstjórans.

Orðasambandið „eiginkona listamannsins“ á sér nokkuð langa og athyglisverða sögu í listsögulegu samhengi. En eitt af hlutverkum listfræðinnar hefur verið að umrita rangfærslur skrifaðar frá sjónarhóli hins hvíta, „eurocentric“, miðaldra karlmanns. Í greininni segir Aðalsteinn að eiginkona Büchels hafi „komið með í kaupunum“ þegar tillagan var valin. Hann leyfir sér að efast um faglega getu sýningarstjórans vegna hjúskapartengsla teymisins. Líkt og hann segir: „Ennfremur má setja spurningarmerki við þá ákvörðun að fela eiginkonu listamannsins stjórn sýningarinnar. Sem fulltrúi miðstöðvarinnar þarf hann væntanlega að taka sjálfstæðar stjórnunarlegar og fjárhagslegar ákvarðanir í Feneyjum. Hjúskapartengsl geta hugsanlega dregið úr sjálfstæði sýningarstjórans gagnvart sýningarframkvæmdinni.“ Klisjulegar og forneskjulegar lýsingar hins kvenlæga eðlis koma hér upp á yfirborðið sem vert er að huga að og ég leyfi mér að efast um að slíkt orðalag væri notað ef kynjahlutverkum væri öfugt farið. Nína Magnúsdóttir er sýningarstjóri og jafnframt hugmyndasmiður verkefnisins í samvinnu við listamanninn. Hún kemur að mótun sýningarinnar og er skrifuð fyrir tillögunni allt frá upphafi. Með því að líta á sýningarstjórann sem einhvers konar 2 fyrir 1-tilboð – „þú greiðir fyrir dýrari vöruna og færð ódýrari fría með-módelið“, dettur hann jafnframt í þann pytt að líta alfarið framhjá framlagi hans í stærra samhengi.

Mig undrar að fagaðilar líti hér alfarið framhjá framlagi sýningarstjóra sem fullgilds aðila til sýningarverkefnis. Hvað svo sem hinn „aðflutti“ listamaður hefur áður gert í íslensku myndlistarumhverfi gæti frá öðrum sjónarhóli litið verið málinu óviðkomandi. Ef sýningarstjórinn er tekinn sem fullgildur í þessum 2 fyrir 1-pakka – getum við ekki litið á það sem svo að hér sé íslenskur sýningarstjóri að vinna með myndlistarmanni óháð bakgrunni? Nína á að baki fjölbreyttan feril og hefur verið virkur þátttakandi í íslensku myndlistarlífi og uppbyggingu þess umhverfis sem drífur samtímalist á Íslandi. Segja má að það sem einkennt hafi störf hennar sé að hugsa íslenska myndlist ekki sem afmarkaða af lóðarmörkum landsteinanna – heldur leitað leiða til að efla þátttöku í alþjóðlegu senunni. Það kemur því ekki á óvart að hún velji sér að vinna með alþjóðlegum myndlistarmanni þegar kemur að Tvíæringnum.

Feneyjatvíæringurinn hefur verið nokkuð samofinn evrópskri menningar- og pólitískri sögu. Sem dæmi hafa ýmsir listamenn sem komið hafa fram fyrir hönd Þýskalands kallað eftir því að gera hið afmarkaða rimlabúr þjóðarskálans að hlutlausu rými. Má þar nefna Joseph Beuys (1976), Hans Haacke (1993) og Gregor Schneider (2001) sem allir hafa leitað leiða við að afmá eða umbreyta vísunum í þjóðernishyggju með tilliti til sögu Þýskalands. Mætti bæta við að árið 1993 var suðurkóreska listamanninum Nam-June Paik boðið að deila þýska skálanum með Hans Haacke. Einnig er vert á að benda á þá sögulegu staðreynd að undanfarin ár hefur sýningarstjórum verið boðið að móta þá sýningu sem fyrir sjónir ber sem framlag þjóða. Til að mynda var þýski sýningarstjórinn Nicolaus Schafhausen valinn til að stjórna þýska skálanum bæði árin 2007 og 2009, en í seinna skiptið valdi hann að starfa í samvinnu við breska listamanninn Liam Gillick. Með þessu á sér stað viss yfirlýsing af hálfu þjóðarinar til alþjóðaumhverfisins um að við tilheyrum heimsmynd óháð landamærum.

Umræða um þjóðerni er mikilvæg. Fjölmenningarstefnan er talin vera að líða undir lok sem viss afleiðing fjármálakreppunnar ef marka má þá and-innflytjendabylgju sem tröllríður nú Evrópu. Ísland er ekki undanskilið þessari umræðu og þjóðernislega orðræðu er að finna víða í pólitísku og menningarpólitísku umhverfi okkar.

Ég hampa framlagi Íslands til næsta Feneyjatvíærings þótt ekki sé um hreinræktaða „íslenska“ afurð að ræða.

Höfundur er listfræðingur og sýningarstjóri.

Höf.: Kristínu Dagmar Jóhannesdóttur