Stuðningur við ESB-aðild er nánast enginn innan stjórnarflokkanna

Mælingar á afstöðu fólks til aðildar Íslands að Evrópusambandinu segja talsverða sögu. Fréttaflutningur af þessum mælingum og af málefnum sem tengjast umsókn Íslands að Evrópusambandinu segja ekki minni sögu.

Capacent mældi á dögunum áhuga fólks á aðild að Evrópusambandinu. Eins og venjulega er drjúgur meirihluti andvígur aðild en það athyglisverða kemur í ljós þegar rýnt er nánar í talnaverkið. Af þeim sem kjósa Framsóknarflokkinn eru 3% fylgjandi aðild að Evrópusambandinu og 4% þeirra sem velja Sjálfstæðisflokkinn. Þetta er afar athyglisvert þegar litið er til þess hve sjónarmið þeirra félaga í þessum flokkum, einkum Sjálfstæðisflokknum, sem hlynntir eru aðild fá mikið vægi í fjölmiðlum. Sumir fjölmiðlar eru raunar svo uppteknir af þessum 4% flokksmanna að ætla mætti að þau væru í meirihluta. Í fréttum er jafnvel talað fjálglega um klofning vegna yfirlýstrar óánægju einhvers hluta þessara fjögurra prósenta.

Þegar horft er á samfylkingarflokkana tvo, Bjarta framtíð og Samfylkinguna, má sjá að skoðanir eru mun skiptari en innan stjórnarflokkanna. Í báðum samfylkingarflokkunum eru innan við 80% fylgjandi aðild, en samt er aldrei minnst á hin rúmlega tuttugu prósentin og aldrei rætt við nokkurn fulltrúa þeirra. Þessi ríflega fimmtungur stuðningsmanna flokkanna á ekki heldur nokkurn kjörinn fulltrúa á þingi eða í sveitarstjórnum og enginn úr þessum fimmtungi hefur náð nokkrum frama innan flokkanna eða gegnir þar ábyrgðarstöðu svo vitað sé.

Hvernig má það vera að stöðugt sé verið að elta uppi sjónarmið fyrrnefndra þriggja og fjögurra prósenta úr stjórnarflokkunum sem eru fylgjandi aðild en aldrei reynt að draga fram sjónarmið þessa fimmtungs samfylkingarflokkanna sem vill ekki aðild?

Og hvernig stendur á því að engin athugasemd er gerð við það að forysta samfylkingarflokkanna haldi svo stórum hluta flokksmanna algerlega niðri og hlusti aldrei á þá en sífelld krafa sé gerð til forystu annarra um að taka ævinlega fullt tillit til sjónarmiða fjögurra prósentanna en hunsa um leið vilja og samþykktir allra hinna?