Hulinn Maðurinn sem ákærður er fyrir að hafa hrist barn sitt svo harkalega að það leiddi til dauða þess huldi sig fyrir ljósmyndurum fjölmiðla í gær.
Hulinn Maðurinn sem ákærður er fyrir að hafa hrist barn sitt svo harkalega að það leiddi til dauða þess huldi sig fyrir ljósmyndurum fjölmiðla í gær.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Andri Karl andri@mbl.is Erfitt er að sjá hvernig rétta á hlut karlmanns á þrítugsaldri og fá fjölskipaðan Héraðsdóm Reykjavíkur til að trúa því að hann hafi ekki 17.

Baksvið

Andri Karl

andri@mbl.is

Erfitt er að sjá hvernig rétta á hlut karlmanns á þrítugsaldri og fá fjölskipaðan Héraðsdóm Reykjavíkur til að trúa því að hann hafi ekki 17. mars 2013 hrist fimm mánaða dóttur sína svo harkalega að hún hlaut við það heilablæðingu sem síðar leiddi hana til dauða. Þetta er niðurstaða blaðamanns eftir fyrri dag aðalmeðferðar yfir manninum. Henni verður framhaldið í dag og fleiri vitni leidd til skýrslugjafar auk þess sem málflutningur er eftir, þannig að sú niðurstaða kann að sjálfsögðu að breytast. Auk þess sem það er víst niðurstaða dómara málsins sem skiptir sköpum.

Maðurinn neitar sök. Hann var einn með dóttur sinni frá klukkan 17.45 umræddan dag en þá fór móðir hennar til vinnu í nokkrar klukkustundir. Þegar hann leitaði til nágranna síns skömmu fyrir klukkan sjö vegna þess að stúlkan svaraði ekki áreiti hafði hann einn verið með henni. Sérfræðingur í heila- og taugaskurðlækningum á Landspítalanum gerði aðgerð á stúlkunni. Hann kom fyrir dóminn í gær og sagði að það sem kom fyrir þennan litla líkama hefði verið honum ofviða. „Miðað við útlit blæðingarinnar og það sem ég varð vitni að í aðgerðinni get ég ekki með nokkru móti séð annað en að líðan hennar hafi versnað mjög fljótt eftir það sem gerðist. Þá er ég að tala um mínútur.“ Hann sagði að barnið hefði orðið rænulaust á nokkrum mínútum, svo mikil var blæðingin, auk þess sem blæðingar voru á mörgum stöðum og „fleiri, fleiri millilítrar“ sem streymdu um heilann á hverri mínútu. „Það er ekki lengi sem heilinn þolir svoleiðis magn.“

Áverkar eftir veru með föður

Faðir barnsins gaf einnig skýrslu fyrir dóminum. Lýsing hans var á þá leið að nákvæmlega ekkert hefði komið fyrir barnið á þeim tíma sem hann var einn með það. Ýjað var að því að móðir barnsins hefði verið ein með það áður en hún fór til vinnu og einnig að hún væri þunglynd, skapbráð og hefði rætt um hvatir sínar til að hrista barnið þegar það gréti.

Barnið var grátgjarnt en þá sérstaklega þegar það var hjá öðrum en móður sinni. Vinkona móðurinnar orðaði það þannig að stúlkan þyrfti alltaf að sjá móður sína annars færi hún að gráta. Hún sagði reyndar einnig að barnið hefði verið hrætt við föður sinn. Í því samhengi má nefna spurningar ríkissaksóknara til föðurins um þau fáu skipti sem hann var einn með barninu. Saksóknari spurði út í þrjú tilvik, á Þorláksmessu 2012, 10. febrúar 2013 og 5. mars 2013. Þann 28. desember leitaði móðir barnsins til læknis vegna stórs marbletts á innra læri barnsins sem náði út á rasskinn, 11. febrúar hringdi móðirin í lækni vegna þess að barnið gat ekki rétt úr vinstri fæti og eftir 5. mars hætti barnið að geta velt sér.

Þá bar réttarmeinafræðingur sem vann skýrslu í málinu vitni um að barnið hefði verið með eldri áverka, bæði rifbeinsbrot og brot á sköflungsbeini. Hún taldi þessa áverka renna stoðum undir að barnið hefði orðið fyrir ofbeldi áður.

Spurði nágranna hvað væri að

Barnið var það eina sem maðurinn hefur eignast. Vinkona móður þess greindi frá því að hann hefði ekkert sinnt heimilisstörfum en varið öllum sínum tíma í tölvuleikjum. Hún sagði einnig að sambandið hefði verið erfitt. Nágrannakona þeirra bar að móðirin hefði kvartað undan því að faðirinn gerði ekki nægilega mikið á heimilinu og að henni þætti hún standa ein í þessu. Og móðir föðurins kom einnig fyrir dóminn og sagði móðurina hafa sagt sér að hún hefði í febrúar verið að íhuga að slíta sambandinu þar sem henni liði ekki vel með honum.

Á fimm mánaða lífsskeiði stúlkunnar kom það fáeinum sinnum fyrir að móðirin brá sér frá og faðirinn sá um dóttur þeirra. Þann 17. mars 2013 gerðist það. Og þegar maðurinn bankaði upp á hjá nágrönnum sínum eftir að hafa haft umsjón með stúlkunni í um klukkustund spurði hann þá ítrekað: „Hvað er að henni, hvað er að henni?“ Þegar nágranninn tók við stúlkunni var hún alveg máttlaus og hann vissi að það væri eitthvað alvarlegt.

Hann kom yfir til þeirra berfættur og sagði nágrannakonan að hann hefði greinilega verið hræddur. Þegar á sjúkrahúsið var komið var maðurinn þögull og spurði einskis. Vinkona konunnar sagði að sér virtist hann vera tilfinningalaus. Og það getur blaðamaður vottað að hann sýndi engar tilfinningar þar sem hann sat og hlustaði á lýsingar á þeim áverkum sem dóttir hans varð fyrir, hvorki hjá réttarmeinafræðingi, þeim lækni sem tók við dóttur hans á Landspítalanum né heila- og taugasérfræðilækninum sem framkvæmdi aðgerð á stúlkunni. Annað verður sagt um áhorfendur í dómsal 101 í Héraðsdómi Reykjavíkur.

Aðalmeðferð heldur áfram í fyrramálið og þó svo stefnt sé að því að henni ljúki þá er ekki hægt að fullyrða um það enda urðu nokkrar tafir á vitnaleiðslum í dag.