Fyrsta vefsíðan Myndin er af fyrstu vefsíðunni sem er frekar frumstæð eins og sjá má. Efni hennar er um veraldarvefsverkefnið sjálft.
Fyrsta vefsíðan Myndin er af fyrstu vefsíðunni sem er frekar frumstæð eins og sjá má. Efni hennar er um veraldarvefsverkefnið sjálft. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Kjartan Kjartansson kjartan@mbl.is Aldarfjórðungur er nú liðinn frá því að breski tölvunarfræðingurinn Tim Berners-Lee, sem þá vann við evrópsku rannsóknarstöðina í öreindafræði, CERN, í Sviss, setti fyrst fram tillögu, 12.

Baksvið

Kjartan Kjartansson

kjartan@mbl.is

Aldarfjórðungur er nú liðinn frá því að breski tölvunarfræðingurinn Tim Berners-Lee, sem þá vann við evrópsku rannsóknarstöðina í öreindafræði, CERN, í Sviss, setti fyrst fram tillögu, 12. mars árið 1989, að því sem síðar varð að veraldarvefnum. Hann átti eftir að valda byltingu í upplýsingatækni.

Ári síðar, í nóvember árið 1990, setti Berners-Lee með aðstoð verkfræðingsins Roberts Cailliau fram nánari útfærslu á hugmyndinni. Hún gekk út á að nota sérstakan vafra til að skoða svonefnd stiklutextaskjöl (e. hypertext documents ) sem send yrðu á milli vefþjóns og notanda. Það yrði gert með því að slá inn veffang (e. URL) sem lýsti staðsetningu skjalsins. Verkefnið fékk heitið veraldarvefurinn (e. WorldWideWeb )

Fyrir lok þess árs hafði Berners-Lee búið til fyrsta vefvafrann, notað tölvu sem vefþjón í fyrsta skipti og skrifað fyrstu vefsíðuna.

Til að byrja með voru ekki margar vefsíður til, aðeins um 130 talsins árið 1993 en fljótlega náði þetta nýja form upplýsingamiðlunar útbreiðslu sem Berners-Lee hefði ekki getað órað fyrir. Árið 1996 var þeim búið að fjölga í 230.000 og fjórum árum síðar mátti finna einn milljarð síðna í gegnum Google. Áætlað er að í fyrra hafi um 2,7 milljarðar manna notað internetið.

Vinalegra viðmót á netinu

Oft eru hugtökin veraldarvefur og internet notuð í sömu merkingu. Internetið er hins vegar í raun innviðirnir, fjöldi tölvuneta sem tengjast sín á milli en þegar talað er um veraldarvefinn er átt við vefsíður og tengingarnar á milli þeirra. Hann er aðferð til þess að skoða efni sem er geymt á netinu.

„Ég man vel eftir þessum tíma þegar veraldarvefurinn kom. Internetið var komið og við notuðum textaviðmót til að flytja skrár og upplýsingar sem var mjög óþjált. Maður þurfti að vera hálfgerður tækninörd til að geta notað þetta,“ segir Yngvi Björnsson, starfandi deildarforseti tölvunarfræðideildar Háskólans í Reykjavík.

Veraldarvefurinn var fyrst hugsaður fyrir vísindaheiminn en stóra byltingin segir Yngvi hafa orðið þegar hann náði fótfestu hjá almenningi vegna þess hve vinalegra viðmót hans var en það sem áður hafði þekkst á internetinu. Í kjölfarið fóru fyrirtæki að nota hann meira og notkun hans varð almenn.

„Í raun gátu nú allir haft aðgang að öllu sem var á netinu. Þetta varð það einfalt að hver sem er gat farið að setja inn upplýsingar á vefinn. Internetið varð eign almennings. Veraldarvefurinn gerði það svo þægilegt í notkun að það varð aðgengilegt öllum,“ segir Yngvi.

Græddi ekki á vefnum

Hugmyndafræði Berners-Lee var enda að gera upplýsingar sem aðgengilegastar fyrir alla. Hann sóttist aldrei eftir að fá einkaleyfi fyrir uppfinningu sinni og því hefur hann aldrei grætt fúlgur fjár á henni eins og önnur stór nöfn í tölvuheiminum eins og Bill Gates eða Steve Jobs.

„Honum er umhugað um að halda þessu opnu. Það er í raun barátta sem stendur ennþá í dag. Það er ennþá ógn af því að ríki og stórfyrirtæki vilja stýra aðgengi að netinu,“ segir Yngvi.

Réttindaskrá fyrir vefinn

Tim Berners-Lee er enn umhugað um frelsi á netinu og ber ugg í brjósti vegna njósna stjórnvalda um þegna sína þar. Hann lét meðal annars hafa eftir sér við breska ríkisútvarpið BBC í tilefni af afmæli veraldarvefsins að ef til vill væri ástæða til að útbúa réttindaskrá til að verja netnotendur.

„Ætlum við að halda áfram veginn og leyfa ríkisstjórnum að stjórna og hafa sífellt meira eftirlit? Eða ætlum við að koma okkur upp grunngildum? Ætlum við að setja upp eitthvað í líkingu við Magna Carta fyrir veraldarvefinn, nú þegar hann er svona mikilvægur, svona stór hluti af lífi okkar, að hann jafnast á við mannréttindi?“ sagði Berners-Lee.