Eldgos Íslandsvinurinn Kiefer Sutherland fer með hlutverk í stórmyndinni Pompeii sem frumsýnd er um helgina.
Eldgos Íslandsvinurinn Kiefer Sutherland fer með hlutverk í stórmyndinni Pompeii sem frumsýnd er um helgina.
Werther Óperan Werther eftir Massenet verður sýnd á laugardag frá Metropolitan-óperunni í New York. Þar koma saman tvær helstu stjörnur óperuheimsins, Jonas Kaufmann og Elina Garanca.
Werther

Óperan Werther eftir Massenet verður sýnd á laugardag frá Metropolitan-óperunni í New York. Þar koma saman tvær helstu stjörnur óperuheimsins, Jonas Kaufmann og Elina Garanca. Um er að ræða aðlögun Massenet á sorglegri ástarsögu Goethes um unga listamanninn Werther sem verður ástfanginn af Lotte sem er heitbundinn öðrum manni og veldur þetta honum miklum þjáningum. Leikstjórn og uppsetning er í höndum Richards Eyre og Robs Howell og Alain Altinoglu stýrir hljómsveitinni.

Pompeii

Náttúruhamfarir, átök og ást í meinum er umfjöllunarefni kvikmyndarinnar Pompeii. Þegar eldfjallið Vesúvíus gýs lendir skylmingaþræll í kapphlaupi við tímann við að bjarga sjálfum sér og ástkonu sinni sem lofuð er spilltum aðalsmanni. Hann þarf því að taka á stóra sínum áður en borgin er grafin í eldheita ösku.

Með aðalhlutverk fara Kit Harrington og Kiefer Sutherland.

Metacritic: 40/100

One Chance

Hér er á ferðinni saga byggð á ævi söngvarans Pauls Potts sem sló í gegn í raunveruleikaþættinum Britain's Got Talent . Potts var afgreiðslumaður í búð á daginn en óperusöngvari á kvöldin en þessi mynd fjallar um það hvernig hann var lagður í einelti fyrir að vera öðruvísi en sigraðist á mótlætinu og varð hlutskarpastur í einni vinsælustu hæfileikakeppni Bretlands. Leikstjóri myndarinnar er David Frankel en hann hefur áður leikstýrt myndum á borð við The Devil Wears Prada, Marley & Me og Hope Springs . Aðalleikarar eru James Corden og Julie Walters.

Metacritic: 51/100

The Bag Man

Jack er óheppinn harðnagli sem er ráðinn af alræmdum glæpahöfðingja til að sinna óvenjulegu verkefni. Hann á að sækja tösku, leigja herbergi á móteli og bíða eftir að taskan sé sótt. Áður en langt um líður fara óvæntir hlutir að gerast. Með helstu hlutverk fara John Cusack og Robert De Niro.

Metascore: 28/100

Back to Front: Peter Gabriel

Heimildarmynd um tónleikaferðalag tónlistarmannsins Peters Gabriel, sem þykir fanga kjarna Gabriels sem listamanns. Myndinni er leikstýrt af BAFTA verðlaunahafanum Hamish Hamilton. Myndin verður aðeins sýnd einu sinni hinn 15. mars.

Tore Tanzt

Fjölmargar kvikmyndir eru frumsýndar á þýsku kvikmyndahátíðinni sem nú stendur yfir. Ein þeirra er Tore Tanzt (Nothing Bad Can Happen) en hún fjallar um Tore sem leitar að nýju lífi í Hamborg meðal trúflokksins „The Jesus Freaks“. Myndin er byggð á sönnum atburðum.

Imdb: 7,1/10