Sigurður Ingi Jóhannsson
Sigurður Ingi Jóhannsson
Viðar Guðjónsson Ágúst Ingi Jónsson Íslendingar munu að óbreyttu setja sér einhliða makrílkvóta næsta sumar í ljósi þess að ESB, Noregur og Færeyjar sömdu um makrílveiðar án aðkomu Íslendinga. Svo virðist sem Íslendingar geti komið að samningnum.

Viðar Guðjónsson

Ágúst Ingi Jónsson

Íslendingar munu að óbreyttu setja sér einhliða makrílkvóta næsta sumar í ljósi þess að ESB, Noregur og Færeyjar sömdu um makrílveiðar án aðkomu Íslendinga. Svo virðist sem Íslendingar geti komið að samningnum. Í hlut Íslendinga kæmu þá 11,9% af áætluðum heildarafla eða tæplega 150 þúsund tonn.

Skilyrði á Grænlandsmiðum

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins fylgir það skilyrði aðild að samningnum að Ísland veiði þá ekki meira en sem nemur 4% af 100 þúsund tonna tilraunakvóta Grænlendinga, eða að hámarki 4 þúsund tonn. Þetta tæki ekki til aðila sem gera út skip undir grænlenskum fána, né ef Ísland gerist ekki aðili að samningnum. „Að því gefnu að menn sætti sig við eðlilega hlutdeild til Íslendinga þá finnst mér ekki útilokað að við gætum komið að slíku samkomulagi,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegsráðherra.

Í desember tilkynna framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og íslensk stjórnvöld að þau hafi náð óformlegu samkomulagi um að Ísland fái 11,9 prósent af makrílstofninum. Andstaða Norðmanna hafi hins vegar staðið eiginlegum samningi fyrir þrifum. Sigurður Ingi segir að engar skýringar séu á því hvers vegna horfið var frá því samkomulagi. ,,Hvorki nú né á síðustu dögum höfum við fengið nokkrar skýringar, formlegar yfirlýsingar eða neitt frá hendi þessara þriggja ríkja,“ segir Sigurður Ingi.

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra lét í gær kalla sendiherra Noregs og fulltrúa ESB og Færeyja á fund í utanríkisráðuneytinu til að gera alvarlegar athugasemdir við hvernig staðið hefði verið að nýgerðu samkomulagi sem stuðlar að veiðum langt fram úr ráðleggingum Alþjóðahafrannsóknaráðsins og stefnir sjálfbærri nýtingu stofnsins í hættu, eins og segir í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.

Ekki tengt viðræðuslitum

Spurður segist Sigurður Ingi ekki telja að fyrirhuguð slit á viðræðum við ESB hafi neitt með ákvörðun sambandsins að gera.

Hann telur samkomulag hinna strandríkjanna ekki veikja stöðu Íslendinga þegar kemur að því að setja sér makrílkvóta fyrir næsta fiskveiðiár. „Þetta er hins vegar sannarlega veiking á mörkuðum og veikir stofninn sannarlega til lengri tíma,“ segir Sigurður Ingi. 20 - 21