[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is Evrópusambandið og Noregur ætla sér að veiða um 400 þúsund tonnum meira af makríl í ár, en nam kvótum þeirra í fyrra.

Baksvið

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

Evrópusambandið og Noregur ætla sér að veiða um 400 þúsund tonnum meira af makríl í ár, en nam kvótum þeirra í fyrra. Í hlut þessara tveggja strandríkja koma 890 þúsund tonn, sem er það sama og nemur allri ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins, ICES, fyrir árið í ár. Þá er eftir að taka inn í reikninginn afla Færeyinga, Íslendinga, Rússa og Grænlendinga svo ljóst er að í ár stefnir í mikla ofveiði úr stofninum. Fyrir síðasta ár var ráðgjöfin 542 þúsund tonn, en heildaraflinn fór í um 900 þúsund tonn.

Svo virðist sem Íslendingar geti gerst aðilar að samningnum sem ESB, Noregs og Færeyja gerðu í fyrrakvöld án aðkomu Íslands. Í hlut Íslendinga kæmu þá væntanlega 11,9 af áætluðum heildarafla eða tæplega 150 þúsund tonn. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins fylgir það skilyrði aðild að samningnum að Ísland veiði þá ekki meira en sem nemur 4% af 100 þúsund tonna tilraunakvóta Grænlendinga eða að hámarki fjögur þúsund tonn. Þetta tæki ekki til aðila sem gera út skip undir grænlenskum fána, né ef Ísland gerist ekki aðili að samningnum. Í fyrra lönduðu íslensk skip tæplega 12 þúsund tonnum af makríl, úr grænlenskri lögsögu.

Ráðgjöf í endurskoðun

Samningurinn er til fimm ára og frá og með næsta ári á að fara að ráðgjöf ICES. Ráðið vinnur nú að endurskoðun á verklagi við rannsóknir á makrílstofninum og er búist við að í vor verði greint frá breyttum aðferðum við matið, þar sem tekið verður tillit til fleiri þátta en áður. Einkum hefur verið miðað við eggjatalningu þriðja hvert ár, en sú aðferð er talin ófullnægjandi og í ár byggist ráðgjöfin fyrst og fremst á afla síðustu ára.

Bjarni Benediktsson og Árni Páll Árnason tókust á um stöðuna í makríldeilunni í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í gærmorgun. „Nú er þannig komið fyrir ríkisstjórninni að hún kemst ekki að borðinu þegar fjallað er um brýn hagsmunamál Íslands,“ sagði Árni Páll. „Það hlálega í þessu öllu saman er að þetta gerist daginn eftir að ríkisstjórnin setur fram nýja Evrópustefnu þar sem sérstaklega er tilgreint að leggja skuli meira upp úr vestnorrænu samstarfi,“ sagði Árni Páll. Hann spurði hvort gleymst hefði að tilkynna Færeyingum og Norðmönnum að þeir væru orðnir hornsteinn í utanríkisstefnu Íslands.

Forkastanleg vinnubrögð

Bjarni Benediktsson sagði Árna Pál draga upp kolranga mynd af atburðum. Ísland hefði setið við samningaborðið, þar til fyrir nokkrum dögum þegar þeir sem við höfum átt í viðræðum við ákváðu að funda sameiginlega án aðkomu Íslands. „Sú ákvörðun þeirra að útiloka menn frá samningaborðinu, hún er forkastanleg,“ sagði Bjarni og bætti við að sama í hvaða flokki menn væru ættu þeir að geta verið sammála um að fordæma þá framkomu vinaþjóða að taka sameiginlega ákvörðun um að hætta að tala við Íslendinga. „Við eigum að senda skýr skilaboð til Norðmanna, Færeyinga og Evrópusambandsins, sem hafa þóst vera í eiginlegum samningaviðræðum við okkur, um að þetta kunnum við ekki að meta,“ sagði Bjarni.

Algerlega út í hött

Haft var eftir Audun Maråk, framkvæmdastjóra norskra útvegsmanna, í gær að Íslendingar hefðu yfirgefið fundarstað í Edinborg á miðvikudag í síðustu viku án þess að fundinum væri lokið. Sigurgeir Þorgeirsson, formaður íslensku sendinefndarinnar, segir þetta af og frá. Fundinum hafi verið formlega slitið og á fimmtudag hafi tekið við tvíhliða viðræður Noregs og ESB um fiskveiðiréttindi.

„Allt tal um að við höfum yfirgefið fundinn í Edinborg og slitið viðræðum er algerlega út í hött. Ég skil ekki hvernig nokkur maður getur haldið slíku fram,“ segir Sigurgeir. „Samningamaður Evrópusambandsins var í forsæti á fundinum og hann sleit fundi eftir samráð við aðra samningamenn með þeim orðum að nú væri fullreynt að ekki myndu nást samningar. Hann hefði litið svo á að þetta hefð verið úrslitatilraun til að ná samkomulagi fyrir árið 2014. Skömmu áður hafði ég rætt við fulltrúa Noregs og það lá fyrir að Ísland og Noregur myndu ekki ná saman á þessum fundi. Að við höfum farið af fundarstað áður en fundi lauk er einfaldlega rangt.“

Ýmsir kostir eru í stöðunni

• Stundum ábyrgar, sjálfbærar fiskveiðar, segir framkvæmdastjóri LÍÚ Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

„Við þurfum ekki að gleypa það hrátt sem virðist eiga að bjóða okkur. Það eru ýmsir kostir í stöðunni og brýnt að vega þá og meta af yfirvegun áður en ákvörðun er tekin um framhaldið,“ segir Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri LÍÚ, um stöðuna varðandi makrílveiðar eftir að ESB, Noregur og Færeyjar sömdu sín á milli án aðkomu Íslands. Hann leggur áherslu á þá afstöðu LÍÚ að Ísland sé þjóð sem stundi ábyrgar, sjálfbærar fiskveiðar og það orðspor skipti miklu máli á alþjóðavettvangi . Einnig að makrílstofninn verði nýttur hér á landi til framtíðar.

Á sama stað og áður

Kolbeinn segir að í raun sé Ísland á sama stað og áður og hafi ekki gert neina samninga. Fyrsti kostur sé að taka þeim 11,9% sem hin strandríkin virðist vera að bjóða Íslandi, en þá yrði aflamviðmið um 147 þúsund tonn í ár. Annar sé að vera án samnings og miða við 16-17% hlutdeild af ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins eins og stjórnvöld hafi áður gert. Með þessari viðmiðun yrði aflahámarkið einnig tæplega 150 þúsund tonn.

Þriðji kostur væri síðan, að mati Kolbeins, að hefja óábyrgar veiðar eins og hin strandríkin hafa samið um sín á milli og miða við 16-17% af áætluðum heildarafla. Samkvæmt þeirri aðferð yrði aflinn nálægt 200 þúsund tonnum.

Samtvinnaðir hagsmunir Evópusambandsins og Noregs

Kolbeinn segir greinilegt að hagsmunir Evrópusambandsins og Noregs í sjávarútvegi séu svo samtvinnaðir að ESB hafi ekki getað skilið Noreg eftir. „Evrópusambandið var tilbúið að fórna sinni samningsafstöðu í makrílnum til að geta lokað öðrum þáttum eins og tvíhliða samningum við Noreg um fiskveiðiréttindi, segir Kolbeinn. „Þess vegna var samið um þetta óhóflega magn sem gæti orðið 1.400-1.500 þúsund tonn í ár og ákveðið að skilja Íslendinga eina eftir.

Norðmenn komu viðræðunum hvað eftir annað í uppnám. Þegar við höfðum náð saman með ESB um hlutdeild urðu þeir æfir og sögðu að ESB hefði stungið sig í bakið. Næst sögðu þeir að hlutdeild Íslendinga væri alltof há og síðan kröfðust þeir heildarkvóta langt umfram ráðgjöf og viðmið Íslands og ESB. Þá var komið að samskiptum þeirra við Færeyinga bak við tjöldin til að tryggja að við fengjum ekki að veiða makríl í færeyskri lögsögu í framtíðinni. Loks kröfðust þeir þess í blálokin á samningaviðræðunum í Edinborg að íslensk skip fengju ekki að veiða makríl í grænlenskri lögsögu.

Maður spyr sig hvort þetta hafi allt verið einhverjar brellur til að koma í veg fyrir að samningar næðust á þeim grundvelli, sem við höfðum rætt um við Evrópusambandið,“ segir Kolbeinn.

Þýddi mikinn tekjubrest

Á heimasíðu LÍÚ kemur fram að Kolbeinn telur ástandið háalvarlegt og óttast að veiði sem er komin svo langt uppfyrir ráðgjöf geti skaðað makrílstofninn mjög og jafnvel orðið til þess að hann hætti að ganga á Íslandsmið. Það hefði í för með sér gríðarlegan tekjubrest fyrir íslenskt samfélag en heildaraflaverðmæti makríls á síðasta ári nam um 22 milljörðum.

„Skilaboðin sem send eru með þessu samkomulagi eru í rauninni þau að ósveigjanleiki og kröfur um ofveiði sé það sem virkar á endanum best en ekki kröfur um sjálfbærni,“ segir Kolbeinn

Sendiherrar á fund ráðherra

• „Niðurstaðan er sú að allir tapa“ Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra lét í gær kalla sendiherra Noregs og fulltrúa Evrópusambandsins og Færeyja á fund í utanríkisráðuneytinu til að gera alvarlegar athugasemdir við hvernig staðið hefði verið að nýgerðu samkomulagi um makrílveiðar sem stuðlar að veiðum langt fram úr ráðleggingum Alþjóðahafrannsóknarráðsins og stefnir sjálfbærri nýtingu stofnsins í hættu.

Í fréttatilkynningu er eftirfarandi haft eftir ráðherra: „Íslendingar hafa tekið þátt í samningaviðræðum um makríl til að tryggja réttmætan hlut Íslands á grundvelli sjálfbærra veiða allt fram í miðja síðustu viku þegar fundi strandríkjanna var slitið. Ísland og Evrópusambandið höfðu náð samkomulagi á grundvelli sjálfbærra veiða sem ESB snýr nú baki við. Svo virðist sem viðsemjendur okkar hafi unnið að annars konar samkomulagi á bak við tjöldin.“

Samkomulag um ofveiði

Hann sagði að Íslendingum væru settir afarkostir um að ganga inn í samkomulag sem gengi út á að stunda ofveiði á makríl, að minnsta kosti fyrsta kastið. „Niðurstaðan er sú að allir tapa. Við höfum verið tilbúin til viðræðna á grundvelli ábyrgrar fiskveiðistjórnunar. Evrópusambandið var með okkur í því þangað til í gær. Sjálf auðlindin er í hættu með þeirri ofveiði sem samkomulagið leggur grunninn að,“ er haft eftir Gunnari Braga.

Sáu til lands um síðustu helgi

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Þegar Norðmenn og ESB buðu Færeyingum 12,6% hlut í heildarmakrílaflanum um síðustu helgi gengu viðræður hratt fyrir sig með þeirri niðurstöðu að samningar tókust í fyrradag.

Þetta segir Jacob Vestergaard, sjávarútvegsráðherra Færeyja, í samtali við Morgunblaðið.

Að hans sögn hafa Færeyingar gert tvíhliða samning við Norðmenn sem heimilar Norðmönnum að veiða ígildi allt að 35% makrílafla Færeyinga í færeyskri lögsögu. Mega Færeyingar veiða sama hlutfall síns heildarafla í norskri lögsögu. Þá sé sambærilegur samningur við ESB langt kominn en hlutfallið þar sé 30%.

Verður hlutur Færeyinga af heildarmakrílaflanum 12,6%.

Úrslitatilraun til að ná samningum í makríldeilunni lauk í Edinborg 5. mars án samnings.

Spurður hvort síðan hafi verið tekin ákvörðun um að setja Íslendinga út í kuldann vitnar Vestergaard til samtals við formann færeysku saminganefndarinnar. Sá hafi sagt honum að viðræðum Íslands, Færeyja, ESB og Noregs í Edinborg væri lokið, enda hefðu fulltrúar Íslands yfirgefið borgina.

„Íslensku fulltrúarnir voru horfnir á braut þegar við hófum tvíhliða viðræður við Noreg annars vegar og ESB hins vegar. Þá kom í ljós að grundvöllur var fyrir samkomulagi milli þessara aðila. Við virtumst geta orðið ásátt um hlut Færeyja og í kjölfarið tókust samningar.“

Tekið að skýrast á mánudag

– Hversu langan tíma tók að landa samningunum?

„Þegar það slitnaði upp úr tvíhliða viðræðum Noregs og ESB á laugardag hófum við samtöl við báða aðila og kom þá fram vilji þeirra til að gera samning milli Færeyja, ESB og Noregs. Ég held að það hafi verið á mánudaginn sem okkur varð ljóst að samningar myndu takast,“ segir Vestergaard og svarar því aðspurður til að Færeyingar telji ekki að veiðar umfram 890.000 tonna ráðgjöf ICES ógni makrílstofninum.

Mikilvægt að tryggja ábyrga stjórnun

Elisabeth Aspaker, sjávarútvegsráðherra Noregs, fagnar samkomulagi Noregs, Evrópusambandsins og Færeyja um stjórnun og veiðar úr makrílstofninum. Á heimasíðu ráðuneytisins er haft eftir henni að hún hefði helst viljað að Ísland væri hluti af samkomulaginu, en samningur ríkjanna þriggja væri stórt skref í rétta átt.

Hún segir að það hafi verið skilningur aðila á fundinum í Edinborg í síðustu viku að möguleikar á samkomulagi strandríkjanna fjögurra hafi verið úr sögunni. Nokkur atriði hafi komið í veg fyrir það.

„Það er mikilvægt fyrir Noreg að tryggja ábyrga stjórnun á makrílnum,“ segir Aspaker. „Þegar í ljós kom að loknum fundi ríkjanna fjögurra að mögulegt var að ná samkomulagi milli Noregs, ESB og Færeyja sáum við frá sjónarhóli Noregs enga ástæðu til að reyna ekki þann möguleika. Með þessu fáum við samning sem nær yfir stærsta hlutann af útbreiðslusvæði makrílsins.“

Í fyrradag var einnig gengið frá tvíhliða samningi Noregs og Evrópusambandsins um gagnkvæm fiskveiðiréttindi. Þar með var endi bundinn á óvissu sem hefur valdið því að danskir sjómenn hafa ekki það sem af er ári getað sótt á hefðbundin fiskimið í Norðursjó og Skagerak. aij@mbl.is