Leifur Þorsteinsson
Leifur Þorsteinsson
Eftir Leif Þorsteinsson: "Að það sé ekki einu sinni boðið upp á að fólk geti gengið örna sinna er ekki hægt."

Titillinn á þessum pistli mínum er sá sami og birtist í grein Morgunblaðsins 18. febr. sl. þar sem var viðtal við Pétur Ármannsson, arkitekt og sviðsstjóra hjá Minjastofnun Íslands, þar sem hann telur að sundlaugin sem er innan við bæinn Seljavelli undir Eyjafjöllum þurfi á andlitslyftingu að halda. Mig langar að hnykkja aðeins á því sem þar kemur fram. Um er að ræða sundlaug sem upprunalega var byggð 1923 af Ungmennafélaginu Eyfellingi undir forystu Björns Andréssonar í Berjanesi. Þetta var í árdaga bílaaldar á Íslandi, allar helstu ár óbrúaðar og því ekki önnur tæki en hestvagnar til efnisflutninga. Ég held meira að segja að öllu efni hafi verið skipað upp í sandinn sunnan sveitarinnar og síðan flutt á hestum á staðinn. Það má því ljóst vera að mikill hugur hefur verið í Austur-Eyfellingum eins og sveitin hét á þeim tíma. Eins og sést á mynd með greininni er þetta ekki bara stórmerkilegt að hafa komið þessu í kring með þeim tækjum og tólum sem þá voru fyrir hendi heldur er staðsetning og uppbygging laugarinnar sennilega einsdæmi enda kemur fram í viðtalinu við Pétur að þegar hann sýni myndir af þessu mannvirki erlendis þá veki það mikinn áhuga og athygli. Ekki er ég hissa á því þar sem um er að ræða mannvirki sem er lengst inni í gili fyrir innan bæinn Seljavelli á bökkum Laugaár sem á rætur í Eyjafjallajökli. Það er þannig að þrír veggir eru steyptir, síðan er sá fjórði fjallið sjálft. Laugin er svo vel falin að maður sér hana ekki fyrr en maður er næstum alveg kominn að henni. Það má ljóst vera að þarna streymir heitt vatn sjálfkrafa upp á yfirborðið og mér þykir líklegt að upprunalega hafi það komið beint út úr berginu þó svo nú sé það leitt úr lind sunnan laugar. Aðstæður eru þannig að heilmikill grænþörungagróður er í lauginni. Botninn er alltaf sleipur og ekkert við því að segja. Gerir það kannski ennþá heilsusamlegra að baða sig þar. Með tilkomu laugarinnar var tekin upp sundkennsla í báðum sveitunum Austur- og Vestur-Eyjafjallahreppi 1927.

Þó svo ég geti kannski ekki talið mig Eyfelling finnst mér að ég eigi ansi djúpar rætur á þessum slóðum. Móðir mín var frá Stóru-Mörk og sjálfur dvaldi ég þar sumarlangt hjá mínu fólki í gegnum allan minn uppvöxt. Um er að ræða einn af vestustu bæjunum undir Fjöllum. Tel mig því þokkalega kunnugan á þessum slóðum. Ekki man ég nákvæmlega hvenær ég synti fyrst í lauginni en hygg að það hafi verið á árunum í kringum 1960. Ég þykist muna að búningsaðstaðan við laugina hafi aldrei verið upp á marga fiska en maður lét sig þó hafa það. Ekki get ég munað eftir að þar hafi verið neitt klósett. Síðan gerist það að byggð er ný laug með tjaldstæði rétt við bæinn Seljavelli sem stendur talsvert sunnar. Það var mjög þarft framtak sem var mikið notað, alla vega í byrjun. En því miður þá hefur þessu öllu nú verið lokað. Hvað þar býr að baki er mér ekki ljóst.

Í Eyjafjallajökulsgosinu vorið 2010 fylltist laugin af ösku. Fljótlega eftir að gosinu lauk átti ég erindi á þessar slóðir og kom m.a. að bænum á Seljavöllum. Það var ófögur sjón sem blasti við manni þar. Sennilega 10 cm þykkt öskulag jafnt yfir öllu. Það skyldi því engan undra að laugin skyldi fyllast. En öll él styttir upp um síðir og engin nótt er svo dimm að ekki fylgi dagur eftir því fljótlega eftir að gosinu lauk var allri ösku mokað upp úr lauginni. Mínar væntingar voru líka þær að búningsaðstaðan hefði verið lagfærð samtímis.

Þá kem ég loks að því sem mér býr raunverulega í brjósti. Þannig var að um miðjan ágúst í fyrra héldum við ættarmót, afkomendur ábúenda í austurbænum í Stóru-Mörk sem þar bjuggu á fyrri hluta síðustu aldar. Eitt af því sem var á dagskránni var að fá sér sundsprett í gömlu lauginni innan við Seljavelli. Dálítill spotti er frá bílastæðinu og inn að lauginni. Þarna var stöðugur straumur af fólki, að mér fannst mest erlendir ferðamenn. Ég sá fljótt að laugin hafði mjög svipað yfirbragð og hún hafði fyrir gosið. Síðan opna ég dyrnar á búningsklefanum og þá blasti við mér ófögur sjón. Bleyta og drulla um allt gólf og meira að segja hafði einhver skilið eftir sig nærfötin sem voru að sjálfsögðu grútdrullug á gólfinu. Við vorum svo heppin að veður var gott og því ekkert mál að vefja utan um sig handklæði meðan farið var í sundfötin. Síðan heyrði ég frá einum í hópnum að einhver hafði gengið örna sinna á bak við búningklefana, geðslegt eða hitt þó heldur. Auðvitað á þetta ekki að vera svona. En hverjum er um að kenna? Ég held að við værum litlu bættari þó við fyndum einhverja sökudólga, þeir eru vafalaust margir. Vonandi eru allir mér sammála um að svona á þetta ekki að vera. Það gengur ekki að bjóða fólki upp á slíkt. Tekjur Íslendinga af erlendum ferðamönnum skipta milljörðum á ári og einhver er virðisaukinn. Þess vegna gengur ekki að segja mér að það vanti peninga. Að það sé ekki einu sinni boðið upp á að fólk geti gengið örna sinna er ekki hægt. Ég gæti talið upp marga staði sem fjöldi fólks sækir í þar sem slíkt þarfaþing er ekki til staðar.

Höfundur er náttúrufræðingur og hefur verið fararstjóri í ferðum Ferðafélags Íslands um árabil bæði í byggð og óbyggð.

Höf.: Leif Þorsteinsson