Teitur Birgisson fæddist á Akureyri 6. desember 1969. Hann lést í faðmi fjölskyldunnar á heimili sínu 1. mars 2014.

Foreldrar Teits eru hjónin Alma K. Möller, f. 21. september 1945, og Birgir Björn Svavarsson, f. 14. júní 1945. Systur Teits eru Eygló, f. 3. janúar 1964, gift Hirti Sigurðssyni, og Gígja, f. 25. apríl 1968, sambýlismaður hennar er Jerome Wigny.

Eiginkona Teits er Ruth Viðarsdóttir, f. 14. september 1970. Þau hófu sambúð árið 1988 og gengu í hjónaband 29. ágúst 1999. Foreldrar Ruthar voru Birna Eiríksdóttir, f. 4. nóvember 1937, d. 22. mars 2011, og Viðar Helgason, f. 29. ágúst 1938, d. 17. október 1979.

Börn Teits og Ruthar eru: Andri Leó, f. 5. október 1993, nemi í VMA, kærasta hans er Birta María Guðmundsdóttir, f. 20. apríl 1996. Almar, f. 22. apríl 1996, nemi í MA, og Telma Rut, f. 4. september 1998, nemi í Lundaskóla. Teitur byrjaði ungur að vinna og starfaði hjá Höldi ehf. alla sína starfsævi, fyrst við bensínafgreiðslu en síðar við fjölþætt stjórnunarstörf. Teitur gegndi auk þess stjórnarstörfum í fyrirtækjum Ruthar og systkina hennar.

Teitur var mikill fjölskyldumaður og naut þess að vera með fjölskyldu sinni. Hann var virkur í Frímúrarareglunni og tók þátt í ýmsum nefndar- og félagsstörfum, til dæmis í tengslum við íþróttaiðkun barna sinna.

Teitur greindist með krabbamein árið 2001 og tókst á við sjúkdóminn fram á síðasta dag.

Útför Teits fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 14. mars 2014, og hefst athöfnin kl. 13.30.

Takk fyrir allt elsku pabbi.

Englar Guðs þér yfir vaki og verndi

pabbi minn

vegir okkar skiljast núna, við sjáumst

ekki um sinn

En minning þín hún lifir í hjörtum hér

því hamingjuna áttum við með þér.

Þökkum kærleika og elsku, þökkum virðingu og trú

þökkum allt sem af þér gafstu, okkar ástir áttir þú.

Því viðmót þitt svo glaðlegt var og góðleg var þín lund

og gaman var að koma á þinn fund.

Með englum Guðs nú leikur þú og lítur

okkar til

nú laus úr viðjum þjáninga, að fara það ég skil.

Og þegar geislar sólar um gluggann skína inn

þá gleður okkur minning þín, elsku pabbi minn.

Vertu góðum Guði falinn er hverfur þú á braut

gleði og gæfa okkur fylgdi með þig sem förunaut.

Og ferðirnar sem fórum við um landið út og inn

er fjársjóðurinn okkar pabbi minn.

(Denver/Guðrún Sigurbjörnsdóttir)

Þín börn,

Andri Leó, Almar

og Telma Rut.

Er sárasta sorg okkur mætir

og söknuður huga vorn grætir

þá líður sem leiftur úr skýjum

ljósgeisli af minningum hlýjum.

(H.J.H.)

Elskulegur frændi og vinur, Teitur, er horfinn okkur sýnum og það er svo óumræðilega erfitt að kveðja þennan ljúfa og góða dreng svona alltof, alltof snemma. En svona er lífið stundum, óréttlátt og tillitslaust í okkar augum. En Alfaðir ræður og við verðum að lúta vilja hans.

Við höfum verið samferða Teit allt frá bernskuárum til þessa dags. Við munum hann í fjölskylduboðum hjá afa og ömmu á „eyrinni“ og öðrum samverustundum stórfjölskyldunnar. En minningin um hann er ekki svona lifandi og sterk, vegna þess að hann hafi farið fram með hávaða eða bægslagangi. Þvert á móti er hann okkur svo minnisstæður vegna glaðlyndis síns og ljúfmennsku. Stundum jafnvel eins og hlédrægur eða feiminn. En alltaf með sitt fallega bros á vörum og í augum, og var svo eiginlegt að benda á og tala um spaugilegu hliðarnar í tilverunni. Og það var bæði auðvelt, nærandi og heilsubætandi að hlæja með honum.

Snemma hitti Teitur verðandi lífsförunaut sinn, hana Ruth. Þau rugluðu saman reytum sínum og leyndist engum að þau áttu mjög vel saman. Þau voru sannarlega bæði falleg og samhent hjón og var öllum augljóst innilegt og ástríkt samband þeirra. Saman eignuðust þau þrjú myndarleg og efnileg börn, Andra Leó, Almar og Telmu Rut. Teitur greindist með alvarlegan sjúkdóm fyrir nokkrum árum og virtist á stundum eins og hann ætlaði að hafa sigur, en hlaut að lokum að lúta lægra haldi. Allt sitt stríð háði hann af einstakri yfirvegun og rósemi, ásamt meðfæddu glaðlyndi. Æðrulaus tók hann því sem að höndum bar. Allir þeir, sem kynntust

Teit, hrifust af þessum hjartahlýja og góða dreng, sem möglunarlaust og af karlmensku gekk í gegnum sitt sjúkdómsstríð allt til enda. Við viljum með þessum fátæklegu orðum kveðja elskulegan frænda okkar, sem var öllum svo kær. Þótt hann sé horfinn sýnum mun minningin lifa, um Teit frænda, með stríðnisbrosið sitt bjarta.

Við sendum elsku Ruth, Andra Leó, Almari og Telmu Rut, Birgi og Ölmu, Eygló og Gígju og öðrum ástvinum okkar innilegustu samúðarkveðjur og biðjum algóðan Guð að blessa minningu góðs drengs, Teits Birgisso nar.

Guð eilífs kærleika taki Teit okkar sér að hjarta og veiti honum sinn frið.

Emelía Bára og

Sigríður Margrét.

Sannur baráttumaður er fallinn frá. Krabbameinið vann enn og aftur. Þrátt fyrir mótlæti, torfærur og brekkur stóð Teitur alltaf upp aftur. Styrkur hans og þrautseigja var gríðarleg. Lífið getur verið svo miskunnarlaust. Ruth og Teitur eru eitt og sama nafnið fyrir mér. Þau kynntust svo ung og voru svo krúttleg og samheldin í öllu, ástríðan og virðingin skein svo skært á milli þeirra. Minningarnar streyma fram, stóri vinahópurinn, rúnturinn, Dire Straits, útilegur í Vaglaskógi, Teitur á Höldi, þeirra fallega heimili, börnin þeirra þrjú og margt fleira.

Þar sem ég hef verið búsett erlendis í 13 ár voru samskiptin minni eins og gengur og gerist en alltaf þegar ég kom heim til Akureyrar hitti ég þessa fallegu vini mína. Ég hitti Teit síðasta sumar, þá svo blómstrandi fallegan og jákvæðan og við kvöddumst með því loforði að hittast núna í sumar. Það verður því að bíða betri tíma.

Elsku Ruth mín og börn, ættingjar og vinir. Guð gefi ykkur þann styrk til að halda áfram.

Anna Margrét

Svavarsdóttir,

Suður-Dakóta.

Látinn er kær vinur og félagi langt fyrir aldur fram. Hann barðist hetjulegri baráttu fram á síðustu stundu, svo aðdáun vakti. Dugnaður, harka, jákvæðni og húmor voru hans aðal til hins síðasta.

Mig langar til að þakka fyrir samstarfið og öll samskiptin, sem við höfum átt í gegnum árin okkar hjá Höldi. Það verður ekkert eins eftir fráfall hans.

Ég vil gjarnan lítið ljóð

láta af hendi rakna.

Eftir kynni afargóð

ég alltaf mun þín sakna.

(Guðrún V. Gísladóttir)

Eiginkonu, börnum, foreldrum og öðrum aðstandendum sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Megi minning Teits Birgissonar lifa sem lengst.

Sveinn Bjarman.

Það er ólýsanlega erfitt að horfast í augu við staðreyndir þegar kröftugir jákvæðir einstaklingar með bjarta sýn á það í hverju lífsgæði felast hverfa á braut allt of snemma. Samskipti við slíkan einstakling gefa lífinu ný gildi og bjartari sýn á framtíðina og hið daglega líf.

Teitur fékk aðeins 45 ár. En eins og hann sagði sjálfur er það ekki tímalengdin heldur gæðin sem skipta öllu. Það staðfestir fullkomlega að hann bar nafn með rentu, því nafnið Teitur táknar kæti og gleði. Hann greindist með krabbamein fyrst fyrir um tólf árum og fimm árum síðar fundust hjá honum alvarleg höfuðmein. Hans sýn á lífið gaf honum mörg aukaár til viðveru þrátt fyrir spár lækna um einungis nokkra mánuði. Það bugaði hann ekki og Teitur gaf fólki sem hann umgekkst alltaf jákvæðan styrk og hvatti til dáða, þrátt fyrir oftast erfiðari eigin stöðu.

Nú er ég orðin ein í litla leynifélaginu okkar sem við Teitur stofnuðum í byrjun vetrar. Við höfðum þekkst í mörg ár og þótt við hittumst sjaldan þá vissum við af því að við gengum í gegn um svipaða hluti, þótt hans tilfelli hafi verið mun erfiðara en mitt. Höfuðmein sem hrjáðu okkur þörfnuðust síendurtekinna meðferða af ýmsum toga. Við ákváðum svo eftir langt spjall í haust að stofna litla félagið okkar. Við bjuggum við svipaða reynslu og höfðum sameiginlega nálgun gagnvart staðreyndum. Vorum fullkomlega sammála um að okkar trú, von og kærleikur var ekki síður fólginn í jákvæðni, bjartsýni og þolinmæði. Einnig vorum við sammála um að kærleikurinn frá öllum einstaklingum sem við höfum allt um kring er ómetanlegur lífselexír. Jafnframt hið sterka, umhyggjusama og fróða lækna- og hjúkrunarteymi til að bæta stöðuna í hvert sinn. Ég get líka haft það eftir mínum læknum að hið jákvæða viðhorf hjálpar þeim sem hjálpar leitar svo óendanlega mikið og það hefur án nokkurs vafa gefið Teiti lengri tíma.

Þegar við hittumst nú um miðjan febrúar var Teitur ótrúlega hress og jákvæður að vanda. Hann kom með góða uppástungu um nafn á litla félagið okkar. Það var Heilalausa félagið. Ástæðan fyrir nafninu var m.a. sú að við höfðum bæði verið spurð að því hvort við værum kannski aðeins of kærulaus gagnvart stöðunni, kannski haldin Pollýönnu-syndróminu. Eins væri góð ástæða fyrir nafni félagsins að búið var að taka nokkrum sinnum sýnishorn af svæðinu, þótt það væri kannski ekki af heilanum sjálfum. Þetta lýsti Teiti svo vel, alltaf svo stutt í grínið og gleðina. Ég samþykkti auðvitað nafnið á félaginu og hef hugsað mér að halda kyrrláta félagsfundi framvegis, kveikja á kerti og tileinka mér að viðhalda þessu yndislega lífsviðhorfi sem Teitur var svo ríkur af. Það lífsviðhorf eru fjársjóðir sem eru dýrmætari en allur veraldlegur auður og gæfa að verða þessara fjársjóða aðnjótandi.

Ég, ásamt eiginmanni mínum, bið af öllu hjarta um að allir verndarenglar umvefji eiginkonu og börn Teits og að hið milda ljós lýsi þeim í óbærilegri sorg. Foreldrar Teits, systur hans og fjölskyldur þeirra eiga okkar dýpstu samúð.

Ingibjörg Ringsted.

Hvaðan logi lífsins brennur? Hvaðan leiðist okkar för? Hvaðan á frá ósi rennur? Hvaðan eyðist sálarför?

Því er lokið elsku karlinn minn. Í sjö ár var baráttan háð en tapaðist að lokum. Elsku Teitur minn, þvílík forréttindi hafa það verið að vera vinur þinn og vinnufélagi í tuttugu og sjö ár. Minningarnar eru margar en sælustundirnar á bökkum Laxár í landi Syðrafjalls gleymast aldrei, þvílíkar stundir sem við áttum þar oft saman félagarnir. Spor okkar lágu einnig saman í tuttugu ár innan veggja Frímúrarareglunnar sem var þér svo kær. Já, sá maður sem eignaðist vin eins og þig kann að meta lífið. Jesús sagði: Ég er upprisan og lífið, sá sem á mig trúir mun lifa þótt hann deyi. Kæra Ruth, börn, foreldrar og systur, missir okkar allra er mikill en ykkar mestur. Far þú í friði, kæri vinur.

Kristinn Tómasson.

Það vakna margar spurningar í huga okkar þegar við kveðjum kæran vin, Teit Birgisson. Ungur maður fellur frá í blóma lífsins eftir langa og erfiða baráttu við illvígan sjúkdóm.

Eftir standa eiginkona, börn, foreldrar hans og vinir í sorg og söknuði. Okkur finnst svo sjálfsagt að lífið gangi sinn vangang og að allt sé í föstum skorðum. En auðvitað er það ekki svo og við erum minnt á það æði oft á lífsleiðinni að örlögin grípa inn í lífshlaup okkar sem færa okkur bæði gleði- og sorgarstundir. Okkur er öllum skammtaður tími í þessu lífi frá æðri máttarvöldum og því er það mikilvægt að við notum tímann vel sem okkur er þó gefinn. Teitur vinur okkar, sem við kveðjum hér, fékk alltof stuttan tíma en hann átti svo margt eftir ógert í þessu lífi. Frá fyrstu kynnum var þessi myndarlegi og ungi maður þægilegur, tryggur og góður vinur. Hann var hvers manns hugljúfi.

Síðastliðið haust áttum við ánægjulegar stundir saman með Rut og Teiti ásamt syni okkar og tengdadóttur suður á Spáni í sól og sumaryl. Gott er að eiga þessar minningar sem ekki gleymast.

Elsku Rut, við sendum þér, börnum þínum, foreldrum Teits og öðrum ættingjum okkar innilegustu samúðarkveðjur og biðjum góðan Guð að gefa ykkur styrk í sorginni, sem tíminn einn getur læknað.

Jón og Sigrún.

Kær vinur okkar, hann Teitur Birgisson, er fallinn frá langt fyrir aldur fram eftir langa baráttu við illvígan sjúkdóm. Fyrstu kynni okkar af Teiti voru þau að við félagarnir gengum í sama skóla alla grunnskólagönguna. Teitur féll alls staðar vel inn í hópinn og var vinmargur, hann var glaðlyndur og léttur í fasi og munum við ekki öðruvísi eftir honum. Teitur var mikill áhugamaður um vélknúin ökutæki. Ófáum stundum eyddum við saman sem guttar akandi um bæinn próflausir á nöddum eða vélsleðum. Margar voru ferðirnar á sveitaböllin á þessum árum og þá var mikið um gleðskap og ýmsar skemmtilegar uppákomur og var Teitur alltaf til í alls konar fíflaskap sem við höfðum gaman af. Mikið dálæti hafði Teitur á MMC-merkinu og þá sérstaklega á gerðinni Colt. Það var stundum eins og það væri bara hægt að taka vinstri beygju á þessum gráa Colt því hringirnir í kringum torgið voru ekki taldir í tugum, frekar í hundruðum um helgar. Tíminn leið og við félagarnir festum ráð okkar. Teitur kynntist henni Rut sinni sem síðar varð eiginkona hans og barnsmóðir. Á seinni árum hittumst við félagarnir alltaf nokkrum sinnum á ári til að rifja upp gamla tíma, skiptast á sögum og kjaftagangi um hvað væri að gerast í kringum okkur, gera grín hver að öðrum og hlæja mikið. Oft voru áformin stór um hvað við ætluðum að gera þegar við yrðum stærri (gamlir – það orð var ekki til í okkar orðabók). Teitur, þín verður sárt saknað af okkur félögunum enda um einstakan dreng að ræða. Við vottum fjölskyldu Teits innilega samúð á þessum erfiðu tímum.

Arnar, Kristinn (Kiddi), Leifur (Leibbi) og Jónas (Nóni).

Þegar ég frétti að Teitur vinur minn væri látinn kom það mér ekki á óvart. Ég hafði fylgst með baráttu hans við hinn illvíga sjúkdóm og dáðst að baráttuþreki hans. Hann ætlaði svo sannarlega að sigra í þessari baráttu og svo lengi sem ég gat rætt við hann var sigurbrosið á vör. Hann ræddi um veikindi sín og þrátt fyrir sigurviljann var alvaran kraumandi undir niðri.

Hann fór barnungur að vinna hjá þeim bræðrum á Höldi og þar starfaði hann trúr og tryggur allt til dauðadags. Hann bar mikla virðingu fyrir starfi sínu og reyndi að mæta til vinnu meðan einhver þróttur var til þess. Hann var dáður af vinnufélögum og einnig var vinahópurinn stór. Fjölskyldan, konan og börnin, var honum þó alltaf kærust og kom það alltaf fram hjá honum.

Ungur að árum gerði hann eins og faðirinn, afinn, tengdafaðirinn og fleiri fjölskyldumeðlimir og gekk í reglu frímúrara hér á Akureyri. Þar eins og annars staðar vegnaði honum vel og voru honum falin ábyrgðarstörf fyrir regluna. Frímúrarabræður kveðja góðan bróður og vin er hann nú leggur út á leið hins óþekkta framhaldslífs. Bróðir minn. Það má nú segja að „liðinn sé dagur og kvöldsins ómar kalli“ þegar þú yfirgefur þetta líf og ferð á vit hins óþekkta. Við allir bræður í frímúrarareglunni hér á Akureyri kveðjum þig og minning þín mun lifa í hjörtum okkar. Eiginkonunni, börnum, foreldrum, systkinum og fjölskyldum þeirra óskum við velfarnaðar og það er okkar einlæga ósk að hinn hæsti höfuðsmiður haldi sinni verndarhendi yfir þeim í framtíðinni. Hvíl þú í friði kæri bróðir og vinur.

Ólafur Ásgeirsson.

Kær vinur og vinnufélagi, Teitur Birgisson hefur lagt upp í sína hinstu ferð. Söknuður og sorg eru í huga okkar en einnig minningar um góðan dreng. Þær minningar eru umvafðar birtu, birtu sólargeislanna, vegna þess að Teitur var sólarmegin í lífinu.

Hann var ljóshærður, bjartur yfirlitum og sviphreinn. Af honum ljómuðu gæðin; hann var góður í gegn og með svo ljúfa lund og yfirvegaður í samskiptum að leitun var að öðru eins. Hann ávann sér virðingu og væntumþykju samstarfsfólks og samferðamanna með þægilegu viðmóti, sanngirni og rökfestu. Hann var sannur vinur vina sinna og heill í öllu.

Hann og Ruth eiginkona hans bjuggu sér fallegt heimili, sem hann var eilíflega vakinn yfir að fegra, bæta og lagfæra. Augljóst var hvers virði fjölskylda hans var honum; Ruth sína umvafði hann jafnframt því sem hann sinnti af alúð börnum þeirra þremur í námi, tómstundum og öðru. Hann virtist eiga auðvelt með að laga sig að öllum kringumstæðum og var virkur í öllu samstarfi. Var hann ágætlega á sig kominn, grannur, lipur og samsvaraði sér vel og var meðvitaður um gildi hreyfingar og útiveru. Þess vegna var það svo óvænt sem úrskurðurinn kom; sá dómur sem hann hlaut fyrir nærri sjö árum: krabbamein. Hann – hann af öllum! Hvað á slíkur dómur að fyrirstilla? En þaðan í frá sýndi Teitur úr hverju hann var gerður; bjartsýnn að eðlisfari, með jákvæða lífssýn og var ekki að sýta stöðuna. Hann talaði um hlutina eins og þeir voru, tilgerðarlaust og án mærðar. Okkur mætti hann sem jafningjum og var ætíð hreinskiptinn í öllum samskiptum.

Vinnan og vinnustaðurinn voru honum ákaflega mikils virði og þótt veikur væri mætti hann til vinnu. Áleit hann hluta af því að halda lífi að vera innan um sitt fólk og allt það sem honum var kærast; á daginn á vinnustaðnum en þess utan með fjölskyldunni og sínum nánustu.

Okkur er hann minnisstæður í haustferð Hölds í Þórsmörk fyrir fáum árum. Þótt haltur væri vegna fjölmargra skurðaðgerða undanfarin misseri tók hann fullan þátt og fór með í þær gönguferðir sem farnar voru. Svo ákveðinn var hann í að njóta þeirra stunda sem hann ætti eftir – njóta þeirra eins og mögulegt væri að hann lét ekkert aftra sér.

Síðustu vikur var hann sem fyrr með hugann við vinnustaðinn og kom oft í heimsókn þótt langt væri leiddur, svo miklu máli skipti það hann að vera í sambandi við vinnufélagana. Og sannarlega þótti þeim vænt um ræktarsemina.

Það er eftirsjá að slíkum öndvegisdreng sem Teitur var. Söknuðurinn er mikill og sár, þó er harmur fjölskyldu hans mestur. Við trúum því að nú séu þjáningar hans yfirstaðnar og hann gangi um á eilífðarenginu, haldandi verndarhendi yfir sínu nánasta fólki. Því biðjum við Guðsblessunar og að allt gott umvefji það um ókomna tíð. Minningin um Teit Birgisson mun lifa í hjörtum okkar.

Hjörleifur Gíslason

og Hólmfríður Sólveig

Haraldsdóttir.

Kveðja frá kjörstjórn Akureyrar

Það er ekki einfalt verkefni að halda kosningar. Að mörgu er að hyggja. Rétt framkvæmdar og óhlutdrægar kosningar eru jú ein grunnforsenda fyrir virku lýðræði. Lykilatriði er að til framkvæmdarinnar veljist gott fólk sem er tilbúið að leggja á sig öguð vinnubrögð og þann tíma sem þarf. Við Akureyringar höfum verið sérlega heppin með starfsfólk til vinnu við kosningar. Þar stóð Teitur fremstur meðal jafningja. Honum kynntumst við fyrst er hann kom til starfa fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar fyrir fjórum árum hjá kjörstjórninni á Akureyri. Á þessum tæpum fjórum árum hefur verið kosið sex sinnum og alltaf var hann til þjónustu reiðubúinn. Í kosningunum í apríl sl. var hann nýbúinn í erfiðri lyfjameðferð, en lét það ekki stöðva sig og kom þrátt fyrir það til starfa. Hann virtist búa yfir miklu æðruleysi og einkenndi það framgöngu hans alla, sem og yfirveguð og vönduð vinnubrögð. Hann naut vinnu sinnar við kjörstjórnina og alltaf var stutt í fallega brosið. Góður maður og samstarfsfélagi er farinn og hans verður sárt saknað.

Fjölskyldu hans allri sendum við okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Minningar um traustan og góðan samstarfsmann munu lifa áfram.

Helga Eymundsdóttir,

Þorsteinn Hjaltason,

Baldvin Valdemarsson.

Kveðja frá Höldi

Kær vinur og samstarfsfélagi er fallinn frá í blóma lífsins og farinn til nýrra starfa í öðrum heimi. Það veit ég og skal vitna fyrir hverjum sem er að betri vin, félaga og samstarfsmann er vart hægt að hugsa sér. Teitur steig sín fyrstu skref hjá Höldi árið 1983, þá rúmlega 13 ára gamall, sem bensíntittur eins og það var kallað. Síðan tóku við önnur störf bæði á skrifstofu og úti á örkinni, og alltaf jókst ábyrgðin hjá vaxandi fyrirtæki. Um aldamótin tók Teitur við sem rekstrarstjóri bílaþjónustusviðsins okkar, en þegar hann greindist með krabbamein fyrir rétt um sjö árum tókum við saman þá ákvörðun að nú væri rétt að hægja aðeins á og hann tók við starfi mannauðsstjóra fyrirtækisins, starf sem átti að vera ívið léttara en í sívaxandi fyrirtæki hlóð alltaf meiru á hann. Ekki kvartaði Teitur undan því heldur leysti störf sín af alúð og lagni svo aðdáunavert var. Ég leitaði mjög oft til Teits til að ræða hin ýmsu mál sem í raun komu starfi hans ekki beint við, það var bara svo gott að geta rætt málin við Teit sem þekkti fyrirtækið betur en lófann á sér. Samstarf okkar hefur varað í um 28 ár og löngum verið afar náið. Ég veit hreinlega ekki hvernig ég hefði komist í gegnum marga hluti án samráðs við Teit. Það hlýtur að teljast einstakt að aldrei nokkurn tímann greindi okkur á um hlutina. Við gátum alltaf rætt okkur saman að bestu lausninni, byrjuðum kannski hvor á sínum endanum, eða ekki, og enduðum á sama punkti og báðir alltaf sáttir. Hetjulegustu baráttu sem ég hef kynnst er lokið og í raun gafst Teitur aldrei upp, það orð var ekki til í orðabókinni, um það vorum við sammála. Við töluðum oft um að þetta væri eins og að ganga yfir Vaðlaheiðina, það kemur alltaf ný brekka gamli, nýtt verkefni sem þarf að sigra, og Teiti tókst það alltaf, þar til nú að lengra varð ekki komist. Við sem eftir sitjum erum tóm að innan, skiljum ekki af hverju svona góður maður eins og Teitur er tekinn frá eiginkonu sinni og þremur börnum, ástvinum og samstarfsmönnum sem allir sakna hans sárt. Þau eru mörg tárin sem hafa fallið undanfarna daga, bara fallegt lag fær mann til að hugsa til Teits og tárast. Hann var svo yndisleg manneskja, og þegar ég velti því fyrir mér, þá held ég svei mér að ég hafi aldrei séð þennan góða vin minn reiðast, eins ótrúlegt og það er á svo löngum tíma. Það verður erfitt að vera án Teits, og stórt skarð höggvið í góðan hóp, en ég veit að hann fylgist áfram með okkur og við munum reyna að breyta rétt og halda áfram að byggja upp gott fyrirtæki með sama anda og við höfum gert hingað til og með þeim hætti heiðra minningu Teits sem best við getum. Fyrir hönd Hölds og samstarfsmanna Teits þakka ég fyrir öll árin sem við fengum með honum sem samstarfsfélaga og vini. Við sendum Ruth, Andra, Almari og Thelmu, foreldrum, systkinum og öðrum ástvinum okkar innilegustu samúðarkveðjur, megi Guð styrkja ykkur í sorginni. Hvíldu í friði kæri vinur.

Steingrímur Birgisson,

forstjóri Hölds.

Komið er að kveðjustund þrátt fyrir þann ótrúlega baráttuvilja sem Teitur hefur sýnt. Aldrei á minni lífsleið hef ég áður kynnst öðrum eins viljastyrk og æðruleysi og hjá honum þessi ár frá því hann greindist með krabbamein. Það virtist vera sama hvað kom upp á í veikindum hans, alltaf var hann jafn ótrúlega hress og jákvæður. Við kvörtum yfir smávandamálum sem upp koma en mikið höfum við lært af honum. Hann var öllum frábær fyrirmynd um það hvernig taka skal slíkum áföllum. Þótt við getum einungis vonað að sá lærdómur þurfi aldrei að nýtast okkur er hann dýrmætur og fyrir það erum við þakklát.

Þetta hafa verið erfiðir tímar hjá Teiti og fjölskyldu hans, þá sérstaklega síðastliðnir þrír mánuðir. Þrátt fyrir það stappaði hann stálinu í okkur hin. Sagði hann til dæmis við mig: „Það er ástand á kallinum, en þetta kemur allt.“

Hann var sannanlega góð fyrirmynd, með mikla kímnigáfu og mikið baráttuþrek. Vildi enga vorkunn og var bjartsýnn til hinstu stundar.

Teitur vann hjá Höldi á Akureyri með skóla sem ungur maður og síðan í fullu starfi eftir að skólagöngu lauk þar til hann lést að kveldi 1. mars, aðeins 44 ára gamall. Við samstarfsmenn hans og vinir hjá fyrirtækinu í Reykjavík vorum lánsamir að kynnast vel þessum duglega dreng og frábæra samstarfsmanni þrátt fyrir fjarlægðina á milli okkar. Hann var nákvæmur og pottþéttur í öllu því sem hann tók sér fyrir hendur. Þótt fjölskyldan hafi verið honum efst í huga þá var vinnan, vinnufélagar og vinir hans honum ofarlega í huga því varla leið sá dagur að ekki væri hann í sambandi, jafnvel á meðan erfiðum meðferðum stóð. Það eru mikil forréttindi að hafa fengið að vinna við hlið þessa góða félaga allan þennan tíma.

Nú er margs að minnast og í sorginni rifjast upp þær góðu stundir sem við áttum með Teiti í vinnu, vinnuferðum, árshátíðum, á golfvellinum og fleira sem var baukað.

Við sem vorum svo heppnir að fá að vera með honum í golfferðunum til Flórída þar sem við áttum ómetanlega daga munum alltaf minnast þess tíma með miklu þakklæti. Áttum við þar frábærar samverustundir. Á golfvellinum, við sundlaugina, í blaki eða bara við eldamennskuna og uppvaskið. Allt er þetta okkur ómetanlegt. Þegar ljóst var að hann kæmist ekki með okkur í Flórídaferðina síðastliðinn vetur vegna veikinda var ekki um annað að ræða af hans hálfu en að við færum en þó með því skilyrði að við sendum honum myndir og sögur á hverjum degi. Lýsir það honum og hans styrk.

Við vottum Ruth, börnunum, foreldrum og ástvinum Teits okkar dýpstu samúð. Megi guð vera með ykkur og veita ykkur styrk við fráfall þessa góða drengs.

F.h. samstarfsfólks í Reykjavík,

Bergþór Karlsson.

Ég á fá orð til þess að lýsa því hversu ósanngjarnt það er, að þú sért farinn elsku Teitur. Við þekktumst í um 20 ár og á þeim tíma gerðist svo margt yndislegt sem ég mun ávallt geyma í hjarta mínu. Á þessum árum fann ég svo sterkt fyrir hjartahlýju þinni og vináttu og hversu vel og fallega þú barst virðingu fyrir fjölskyldu þinni, vinum og bara lífinu öllu. Í veikindum þínum varstu alltaf svo jákvæður og umfram allt hetja. Ég mun sakna þín og vináttu þinnar en hugga mig við það að geta yljað mér við yndislegar minningar.

Ég sendi þér kæra kveðju

nú komin er lífsins nótt,

þig umvefji blessun og bænir

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því,

þú laus ert úr veikinda viðjum

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti

þá auðnu að hafa þig hér,

og það er svo margs að minnast

svo margt sem um hug minn fer,

þó þú sért horfinn úr heimi

ég hitti þig ekki um hríð,

þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir)

Ég bið góðan Guð að styrkja Ruth, Andra Leó, Almar, Telmu Rut og alla ástvini í þessari miklu sorg. Guð blessi ykkur.

Eydís Einarsdóttir.

Elsku yndislegi frændi minn,

hér sit ég og skrifa og tárin streyma. Það er svo rosalega sárt að kveðja þig elsku vinur, sérstaklega þar sem ég er engan veginn tilbúin að sætta mig við það að þú sért farinn frá okkur. Þú sem hefur verið partur af lífi mínu frá því ég fæddist og ég hef alltaf litið upp til þín og ávallt litið á þig sem fyrirmynd og sem stóra bróður minn þó svo þú værir móðurbróðir minn.

Það er virkilega erfitt að trúa á æðri mátt þegar hann getur verið svona ósanngjarn. Daginn sem þú kvaddir okkur sagði Ruth að þeir færu ungir sem guðirnir elska og að þú værir búinn að gera svo margt gott á þessum tíma sem þú varst hjá okkur. Ég reyni að hugsa um þessi orð til að berjast á móti reiðinni þar sem reiðin er jú engum holl og ég veit að þú værir ekki sáttur við frænku þína ef hún léti reiðina vinna.

Sjálfur horfðir þú alltaf á lífið í björtu ljósi og naust þess til hins ýtrasta að vera til. Vandamál voru aldrei hindranir heldur voru þau verkefni til að takast á við og það gerðir þú ávallt áreynslulaust og með bros á vör.

Ég gat leitað til þín hvenær sem var og með hvað sem var og alltaf var svarið það sama, „jájájájá, ekkert mál Brynja mín, við reddum því bara“. Ég mun aldrei geta endurgoldið allt sem þú hefur gert fyrir mig og krakkana en ég mun gera mitt besta til að vera alltaf til staðar fyrir Ruth og krakkana þína líkt og þú varst fyrir mig.

Ég er endalaust þakklát fyrir allar góðu stundirnar sem ég fékk með þér, alla „grautana“ á laugardögum, afmælin, veislurnar, jólin, áramótin og Benidorm. það var alveg sama hvað við vorum að gera, það var alltaf stutt í brosið og hláturinn enda varstu með einstakan húmor og mikill stríðnispúki. Oftar en ekki varð ég fyrir barðinu á stríðninni og það hlakkaði í þér þegar þú sást færi á að skjóta á litlu frænku en alltaf þó í góðu gamni.

Þú varst svo duglegur og til fyrirmyndar við allt sem þú tókst þér fyrir hendur, í sambandi ykkar Ruthar, í öllu sem tengdist krökkunum, við allt sem tengdist fallega heimilinu ykkar, við vinnu og í samskiptum við alla í fjölskyldunni og vini þína. Þú skipaðir stóran sess í lífi svo margra.

Nú kveð ég þig elsku Teitur minn, þó ekki í hinsta sinn því ég trúi því að við munum hittast aftur. Söknuðurinn er ólýsanlegur og þær verða margar stundirnar sem verða tómlegar og skrítnar án þín en minningarnar um einstakan mann hleypa hlýjunni inn í hjartað þar til við sjáumst næst. Þangað til, þá veit ég að þú munt vaka yfir okkur.

Elsku Ruth, Andri, Almar, Telma, amma, afi, mamma og Gígja, þið eigið alla mína samúð. Megi Guð gefa ykkur styrk í gegnum þessa erfiðu tíma.

Fyrir mér varst þú ímynd hins göfuga og góða

svo fallegur, einlægur og hlýr.

En örlögin þín ráðin – mig setur hljóða

við hittumst samt aftur á ný

Megi algóður guð þína sálu nú geyma

gæta að sorgmæddum, græða djúp sár.

Þó kominn sért yfir í aðra heima

mun minning þín lifa um ókomin ár.

(Höf. ók.)

Brynja Jóhannsdóttir

Möller.