Stuldur Altaristöflunni eftir Emil Nolde, Málsverður í Emmaus, var stolið úr danskri kirkju. Myndin er frá sýningu á verkum Noldes í Þýskalandi.
Stuldur Altaristöflunni eftir Emil Nolde, Málsverður í Emmaus, var stolið úr danskri kirkju. Myndin er frá sýningu á verkum Noldes í Þýskalandi. — AFP
Lögreglan í Danmörku leitar nú málverks eftir Emil Nolde, sem stolið var úr kirkju í Ølstrup, sem er skammt frá Ringkøbing á Jótlandi.

Lögreglan í Danmörku leitar nú málverks eftir Emil Nolde, sem stolið var úr kirkju í Ølstrup, sem er skammt frá Ringkøbing á Jótlandi. Vitni sáu dökkbláum Opel ekið af vettvangi og hefur lögregla nú lýst eftir bíl með þýskum númerum að því er segir í frétt Ritzau .

Málverkið var í altaristöflu kirkjunnar. Nolde málaði það árið 1904 og er það metið á 210 milljónir íslenskra króna.

Málverkinu hefur verið stolið á milli klukkan níu á mánudagsmorgun og ellefu á þriðjudagsmorgun. Eftirlýsti bíllinn sást við kirkjuna um klukkan hálfátta að kvöldi. Kirkjan er opin frá sólarupprás til sólarlags.

Í alfræðiriti Gyllendals á vefnum, Den Store Danske Encyklopædie, segir að Nolde hafi fæðst í Nolde í Slésvík 1867 og búið á þeim slóðum mestallt sitt líf. Eftir 1920 var hann danskur ríkisborgari, en „þýsksinnaður“ í list sinni, eins og segir í alfræðiritinu, og í fremstu röð þýskra expressjónista. Nolde gekk í nasistaflokkinn í Norðurslésvík eftir valdatöku nasista í Þýskalandi 1933 og segir í alfræðiritinu að sannfæring hafi búið að baki, en ekki tækifærismennska. Nasistar sögðu list hans hins vegar bera sjúklegri úrkynjun vitni og bönnuðu honum að mála.

Stolna verkið málaði Nolde fyrir kirkjuna vegna þess að hann var kvæntur dóttur prófastsins þar.