Það er vanrækt athöfn: Að hugsa. Að staldra við án þess að tala, lesa, horfa eða hlusta á eitthvað. Bara hugsa.

Rútína hversdagslífsins er oft ekkert sérstaklega örvandi fyrir hugann. Talið er að um heilann fari tugir þúsunda hugsana á dag, en meirihlutinn, jafnvel 90%, sé endurtekið efni frá degi til dags.

Þetta er vanrækt athöfn: Að hugsa. Að staldra við án þess að tala, lesa, horfa eða hlusta á eitthvað. Bara hugsa. Það er hollt, en staðreyndin er sú að það getur líka verið mjög óþægilegt, jafnvel ógnvekjandi. Þú ræður nefnilega ekki alltaf við hugann og stundum læðist hann aftan að þér og ögrar.

Í dagsins önn gefst sjaldan andrými til að sleppa huganum lausum í frjálsu flæði. Ég er hinsvegar nýkomin heim úr löngu ferðalagi um ókunnar slóðir þar sem ég sagði algjörlega skilið við mitt hefðbundna líf og tókst á við allt annan veruleika í 7 vikur. Fylgifiskur slíkra ferðalaga er að heilinn fer á yfirsnúning við að meðtaka allt það nýja sem fyrir augu ber og framleiða nýjar hugsanir, aðrar en þær sem spretta hversdagsmunstrinu í kunnuglegu umhverfi. Ég ferðaðist landleiðina milli 8 landa, eftir lélegum vegum, þar sem fyrir kom að áætluð 5 tíma dagleið varð 12 tímar áður en yfir lauk. Mér gafst því mikill tími til að hugsa. Stundum meiri en ég kærði mig um og þegar ég þoldi ekki við lengur greip ég í bók til að hafa ofan af fyrir mér og fylla hugann af hugsunum annarra.

Þegar hugurinn fær að reika óhindrað tímunum saman kemur hann við á óvæntum stöðum og það getur verið áskorun að takast á við það sem hann dregur upp, hvort sem það eru gamlar minningar, nýjar væntingar eða breytt sýn á viðtekin sannindi.

Þannig getur dagur á ferðalagi endað sem meiriháttar sjálfsskoðun. Þú stígur upp í bílinn að morgni og út úr honum 12 tímum síðar, í öðru landi, sveitt og rykug að utan og breytt manneskja að innan.

Una Sighvatsdóttir una@mbl.is