[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Digranesi Sindri Sverrisson sindris@mbl.is Grátbólgin augu og gnístran tanna, hughreystandi faðmlög, keppnisgólfið lamið krepptum hnefum vonleysis, eftirsjár og reiði. Ekkert af þessu bar fyrir augu eftir leik HK og Hauka í Digranesinu í gærkvöld.

Í Digranesi

Sindri Sverrisson

sindris@mbl.is

Grátbólgin augu og gnístran tanna, hughreystandi faðmlög, keppnisgólfið lamið krepptum hnefum vonleysis, eftirsjár og reiði. Ekkert af þessu bar fyrir augu eftir leik HK og Hauka í Digranesinu í gærkvöld. Í raun var ekkert sem gaf til kynna að þarna hefði lið verið að falla um deild. Lið sem fyrir tveimur árum varð Íslandsmeistari.

Og skyldi engan undra. Þó að nú sé endanlega ljóst að HK hafni í 8. og neðsta sæti Olís-deildarinnar er alls ekki víst, og raunar ólíklegt, að liðið þurfi að spila í 1. deild á næstu leiktíð. Eins og farið var yfir ítarlega hér í blaðinu á miðvikudaginn felst von HK nú í því að næstneðsta lið deildarinnar, sem líklegast er að verði Akureyri, vinni liðið í 4. sæti 1. deildar í umspili eftir deildakeppnina. Þá er ég vitaskuld að gera ráð fyrir að fjölgað verði í 10 lið í deildinni eins og útlit er fyrir.

Á HK erindi í úrvalsdeild?

Þess vegna er alveg skiljanlegt að enginn skyldi fella tár í Digranesi. Þar að auki hefur legið býsna lengi fyrir að það yrði hlutskipti HK að hafna í neðsta sætinu. Liðið er skörinni neðar en öll önnur lið deildarinnar eftir mikinn leikmannaflótta síðustu tvö ár.

En óneitanlega vaknar sú spurning eftir frammistöðu liðsins í vetur, hvort HK eigi eitthvert erindi í úrvalsdeild. Svo virðist ekki vera nema bætt verði við þunnskipaðan leikmannahópinn. HK hefur tapað 15 af 17 leikjum sínum, að meðaltali með rúmlega 8 mörkum, og ekkert tapanna hefur verið með minna en fimm marka mun. Miðað við leikinn í gær eru HK-ingar líka bara að bíða eftir að komast í sumarfrí. Þeir stóðu reyndar fyllilega í Haukum fyrstu 20 mínúturnar en svo kom munurinn á liðunum í ljós og heimamenn voru fljótir að gefast upp – grípa til óskynsamlegra ákvarðana og sofna á verðinum í vörninni. Sofandi hafa þeir flotið að feigðarósi en verður kannski bjargað eins og áður segir.

Haukar geta forðast úrslitaleik

Haukar eiga ekki í vandræðum með að vinna lið á borð við HK. Þeir eru allt of góðir til þess. Hins vegar bíða þeirra meira krefjandi leikir við ÍR (h), Val (ú) og Akureyri (h) áður en þeir taka á móti ÍBV á Ásvöllum í lokaumferðinni. Misstígi Haukar sig gætu Eyjamenn gert þennan lokaleik að úrslitaleik um deildarmeistaratitilinn, sem er nánast orðinn að starfstitli Haukamanna í símaskránni.