Náttúruverndarinn Á dagskrá Hugvísindaþings í dag er meðal annars málstofa um Guðmund Pál Ólafsson, náttúrufræðing og rithöfund, og verk hans.
Náttúruverndarinn Á dagskrá Hugvísindaþings í dag er meðal annars málstofa um Guðmund Pál Ólafsson, náttúrufræðing og rithöfund, og verk hans. — Morgunblaðið/RAX
Hugvísindaþing verður haldið í Háskóla Íslands í dag og á morgun, föstudag og laugardag, og hefst það klukkan 13 í dag í aðalbyggingu háskólans. Á þinginu koma fræðimenn frá öllum landshornum saman og kynna nýjustu rannsóknir í hugvísindum.

Hugvísindaþing verður haldið í Háskóla Íslands í dag og á morgun, föstudag og laugardag, og hefst það klukkan 13 í dag í aðalbyggingu háskólans. Á þinginu koma fræðimenn frá öllum landshornum saman og kynna nýjustu rannsóknir í hugvísindum. Boðið verður upp á hátt í 150 fyrirlestra í 37 málstofum þessa daga og eru allar málstofurnar opnar almenningi.

Í tilkynningu frá Háskólanum segir að hugvísindin láti sér ekkert mannlegt óviðkomandi og á þinginu verði allt mögulegt mannlegt til umfjöllunar. Frá ungum til gamalla, hinu framandi til hins kunnuglega, frá náttúrunni fyrir utan okkur til þess sem hugurinn smíðar, frá tilfinningum til staðreynda, fortíð til nútíðar, tungumáli til hugsana, frá valdamönnum til uppgjörs, dýrum til manna og Íslandi til útlanda. Sem dæmi verður einnig fjallað um Íslendingasögur, miðaldabókmenntir og nýrri bókmenntir, náttúrufræðinginn og rithöfundinn Guðmund Pál Ólafsson og náttúru Íslands, söguskoðun valdhafa, hið síbreytilega íslenska mál, þjóðkirkjuna, Biblíuna í bókmenntum og listum, búddisma, erfðatækni og hagnýta siðfræði, bókmenntir og sjálfstæði Skotlands og ótalmargt annað.

Á morgun, laugardag, hefjast málstofur klukkan 10.

Dagskrá þingsins má sjá á heimasíðu Hugvísindastofnunar – hugvis.hi.is/hugvisindathing og kynning á málstofum hefur einnig farið fram á fésbókarsíðu stofnunarinnar – www.facebook.com/hugvisindastofnun.