Einar S. Hálfdánarson
Einar S. Hálfdánarson
Eftir Einar S. Hálfdánarson: "Samanburður á hagvexti í Evrópusambandinu og Íslandi telst þannig langt í frá að vera aðild til framdráttar."

Í haust sem leið var ég oft í Litháen. Þá kom oft fyrir að græna ljósið virkaði ekki á gatnamótum þar sem lögreglan með blikkandi ljós greiddi leið Mercedes Benz-bílalestar sem ekki hafði tíma til að bíða eins og við hin. Hin nýja stétt embættismanna ESB, sem hvorki borgar skatt né hlítir almennum reglum, var sem sé mætt þar eð Litháen var í forsæti ESB. – Litháar þekkja fyrirbærið frá fyrri tíð. Þegar nómenklatúran, hin nýja stétt, embættismenn kommúnistaflokksins, var og hét höfðu þeir þennan háttinn á. Margir íslenskir stjórnmála- og embættismenn, og viðsemjendur fyrir okkar hönd, sofna og vakna með mynd í huganum þar sem þeir máta sig við þessa valdastóla. Við Svartstakkar erum ekki ginnkeyptir fyrir því sem við blasir, ekki frekar en Icesave-skuldinni.

Fátækleg rök aðildarsinna

Ég hef oftsinnis beðið aðildarsinna um að rekja rök sín fyrir aðild að ESB. Þetta hef ég bæði gert hér í blaðinu og á öðrum vettvangi. Vissulega eru það tæk rök að taka upp evru og þeim þarf að svara. Að öðru leyti fer lítið fyrir rökstuðningi. Á fundi í Valhöll þar sem Þorsteinn Pálsson sat fyrir svörum gaf hann hreint ekki færi á að andstæðingar aðildar spyrðu margs. Sjálfur talaði hann mest um möguleika á styrkjum til Íslands og umbætur á kerfum í tollinum. Árni Þórðarson í Marel sagði mér að heimurinn væri að skiptast upp í blokkir og við gætum ekki staðið þar fyrir utan. Svo eru auðvitað vandræðalegu rökin um að verða þjóð meðal þjóða, vera ekki með þjóðrembing og fleiri aularök af sama toga.

Spurningum svarað

Loksins birtast svör við flestum spurningum sem mestu skipta nú í skýrslu utanríkisráðherra um aðildarviðræður við Evrópusambandið. Samanburður á hagvexti í Evrópusambandinu og Íslandi telst þannig langt í frá að vera aðild til framdráttar. Flestir myndu líklega telja hagvöxt, og þar með lífskjarabata, mikilvægari en verðbólgutölur. Reyndar hefur fyrrverandi formaður Rafiðnaðarsambandsins, merkilegt nokk (líkt og Friedman), talað á öndverðum nótum.

Um evruna

Nú liggur fyrir, svart á hvítu, sem vitað var að ekki er samasemmerki milli vaxta, og annarra lánskjara, og myntar. Enda eru lægri vextir á lánum í lítum en í evrum í Litháen og margfaldur munur á vöxtum á evrulánum milli landa svo tvö dæmi af mörgum séu tekin. Þá hefur evran ekki áhrif til bóta á framleiðni. Lönd á borð við Kína hafa verið að minnka vægi evru mikið í gjaldeyrisforða sínum. Þörf er á að fjalla miklu betur um þennan þátt, t.d. verðlagningu útflutnings Íslands eftir myntum og hversu vel eða illa evran gæti hentað Íslandi.

Kostnaður af aðild

Fyrir liggur og um það er enginn ágreiningur að framlög Íslands til ESB verða langt umfram fengna styrki. Þá er því spáð að samkeppnisstaða Evrópu muni fara versnandi. Við getum sjálfir gert þær umbætur í landbúnaði sem við kærum okkur um. Fátt er meira gagnrýnt í Evrópu en landbúnaðarstefnan og tilheyrandi sukk. Það þarf að gera í samráði við bændur og að teknu tilliti til matvælaöryggis Íslands. Hagsmunir Haga hf. skipta engu máli í því sambandi, heldur hagsmunir neytenda. Enda hljóta Hagar hf. að vera að gæta eigin hagsmuna, ekki okkar neytenda. – Það kann að vera að fáein stór iðnfyrirtæki, svo sem Marel, hafi hag af aðild að ESB. Þeir hagsmunir hljóta að verða metnir og léttvægnir fundnir samanborið við hagsmuni Íslands af yfirráðum yfir auðlindum sínum.

Aðildarferli í fjögur ár að baki

Ég hef atvinnu af samningsgerð og hef lengi haft. Ég hef aldrei nokkurn tíma, aldrei, kynnst samningsgerð þar sem ekki er hafist handa við þau atriði þar sem mest bar á milli. Hvað í ósköpunum ætli hafi valdið því að ekki var byrjað á fiskveiðunum þar sem komið hefði strax í ljós hvort krafan um full og óskoruð yfirráð Íslands næði fram? Hvað var samninganefndin eiginlega að hugsa? Svör óskast.

Höfundur er löggiltur endurskoðandi og hæstaréttarlögmaður.

Höf.: Einar S. Hálfdánarson