Skúli Magnússon
Skúli Magnússon
Viðar Guðjónsson vidar@mbl.

Viðar Guðjónsson

vidar@mbl.is

Skúli Magnússon, formaður Dómarafélags Íslands, segir vinnubrögð Reykjavíkurborgar og innanríkisráðuneytisins „til skammar“ í ljósi þess að ráðuneytið hyggist hefja viðræður við borgina um að flytja héraðsdóm af Lækjartorgi án þess að hafa samráð við dómstólinn eða dómstólaráð. „Ég tel það vera alvarlegt mál að innanríkisráðherra skuli tilbúinn að hefja viðræður um flutning á Héraðsdómi Reykjavíkur án þess að svo mikið sem tala við dómstólaráð eða stjórnendur héraðsdóms. Það lýsir náttúrlega óviðunandi stöðu íslenskra dómstóla gagnvart handhöfum framkvæmdavalds þegar kemur að aðbúnaði í fjármálum,“ segir Skúli. Hann furðar sig á þessu samráðsleysi og bætir við: „Að mínu mati er það bæði Reykjavíkurborg og innanríkisráðuneytinu til skammar að standa svona að málum.“

Með ólíkindum að sjá héraðsdóm í bakhúsi við Hlemm

Hann bendir á að í miðbæ séu gjarnan helstu stofnanir ríkis og borgar og þar á meðal dómshús. „Við sjáum það í öllum höfuðborgum heimsins að dómstólar eru þar í hjarta bæjarins. Menn vilja að dómstólar séu sýnilegir þannig að þeir beri með sér það mikilvægi sem þeim er ætlað og það er með nokkrum ólíkindum að menn sjái fyrir sér héraðsdóm á baklóð við Hlemm,“ segir Skúli. Þrátt fyrir gagnrýnina áréttar Skúli að dómarar og fulltrúar dómstólanna séu reiðubúnir til viðræðna um breytingar á húsnæðismálum. Eftir sitji þó að slík vinnubrögð séu ekki boðleg. Hann tekur undir þau sjónarmið sem borist hafa frá borgarstjórnarmeirihlutanum um að gera Lækjartorg að skemmtilegri stað. „Þar er verulegt svigrúm til bætingar og starfsmenn héraðsdóms myndu fagna því ef Lækjartorg yrði bætt,“ segir Skúli.