[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Kaplakrika Guðmundur Hilmarsson gummih@mbl.is Það er ólíkt gengi hjá FH og ÍBV á handboltavellinum þessar vikurnar en liðin áttust við í Kaplakrika í gærkvöld þar sem Eyjamenn fögnuðu sigri, 30:27.

Í Kaplakrika

Guðmundur Hilmarsson

gummih@mbl.is

Það er ólíkt gengi hjá FH og ÍBV á handboltavellinum þessar vikurnar en liðin áttust við í Kaplakrika í gærkvöld þar sem Eyjamenn fögnuðu sigri, 30:27. Þetta var sjöundi sigur ÍBV-liðsins í síðustu átta leikjum og fjórði sigurleikur liðsins í röð en uppskera FH-liðsins í síðustu átta leikjum er einn sigur og sjö töp Stuðningsmenn Hafnarfjarðarliðsins eru svo sannarlega orðnir langeygir eftir að sjá sína menn vinna sigur í Kaplakrika en í dag eru sléttir fjórir mánuðir frá því liðið vann síðast heimaleik. Það var 14. nóvember þegar liðið bar sigurorð af botnliði HK.

Agnar Smári frábær

„Við erum gífurlega glaðir enda var þetta var frábær sigur. Við sýndum mikinn karakter í lokin að vinna þennan leik,“ sagði Agnar Smári Jónsson, leikmaður ÍBV, við Morgunblaðið eftir leikinn en Agnar Smári átti frábæran leik í Krikanum í gær og skoraði 10 mörk í öllum regnbogans litum. „Fyrri hálfleikurinn var ekki góður hjá okkur. Sóknarleikurinn var allt í lagi en vörnin var léleg. Við bættum hana mikið í seinni hálfleik og þá kom markvarslan upp,“ sagði Agnar Smári.

FH-ingar höfðu lengi vel undirtökin í leiknum. Í fyrri hálfleik keyrðu þeir hvað eftir annað í bakið á Eyjamönnum og skoruðu hvert markið á fætur öðru úr hraðaupphlaupum. Þeir nýttu sér vel að leikmenn ÍBV voru mjög seinir að skila sér til baka. En í seinni hálfleik löguðu Eyjamenn þessa hluti. Það tók þá átta mínútur að vinna upp fjögurra marka mun FH-inga og þegar þeir komust yfir í fyrsta sinn þegar 11 mínútur voru eftir var eins og það gripi um sig örvænting í liði FH enda ekki í fyrsta sinn sem FH-ingar missa tökin á leiknum þegar líða fer á seinni hálfleikinn. Vestmannaeyingar gengu á lagið með Norðmanninn Henrik Eidsvaag í miklu stuði á milli stanganna í seinni hálfleik og þeir fögnuðu vel og innilega þegar leiktíminn rann út.

Það gengur hvorki né rekur hjá FH-ingum og með sama áframhaldi ljúka þeir keppni um miðjan apríl. Það var fínn bragur á FH-liðinu í fyrri hálfleik en í seinni hálfleik datt botninn úr leik liðsins eins og oft áður í vetur. Ragnar Jóhannsson komst einna best frá leiknum í liði FH.

Agnar Smári Jónsson og Róbert Hostert báru sóknarleikinn hjá ÍBV uppi og þeir sýndu glæsileg tilþrif og þá vó þáttur Henriks Eidsvags í markinu þungt en með sigrinum stigu Eyjamenn stórt skref í átt að úrslitakeppninni. Það er stemning í þeirra herbúðum eins og Eyjamanna er siður og sjálfstraustið gott hjá leikmönnum eftir gott gengi.

FH – ÍBV 27:30

Kaplakriki, Olís-deild karla, fimmtudag 13. mars 2014.

Gangur leiksins : 1:0, 3:1, 5:2, 10:6, 13:10, 18:14 , 20:20, 23:24, 26:27, 27:30.

Mörk FH : Ragnar Jóhannsson 7, Einar Rafn Eiðsson 4, Ásbjörn Friðriksson 4/2, Ísak Rafnsson 4, Atli Rúnar Steinþórsson 3, Valdimar Fannar Þórsson 2, Magnús Óli Magnússon 2, Benedikt Reynir Kristinsson 1.

Varin skot : Ágúst Elí Björgvinsson 8, Sigurður Örn Arnarson 7.

Utan vallar: 6 mínútur.

Mörk ÍBV: Agnar Smári Jónsson 10, Róbert Aron Hostert 9, Magnús Stefánsson 4, Theodór Sigurbjörnsson 3/1, Andri Heimir Friðriksson 3, Guðni Ingvarsson 1.

Varin skot: Henrik Eidsvaag 17, Kolbeinn A. Ingibjargarson 4/1.

Utan vallar: 4 mínútur.

Dómarar : Gunnar Óli Gústafsson og Bjarki Bóasson. Mistækir.

Áhorfendur : 380.