Listamaður Brynjar er fjölhæfur, æfir og keppir í samkvæmisdönsum og málar myndir úr ólíklegasta hráefni.
Listamaður Brynjar er fjölhæfur, æfir og keppir í samkvæmisdönsum og málar myndir úr ólíklegasta hráefni. — Morgunblaðið/Þórður
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Brynjar Björnsson hefur teiknað frá því hann gat haldið á penna. Hann hefur gaman að því að fara sínar eigin leiðir og hefur verið að prófa að nota í myndlistinni ýmis hráefni sem flestir tengja frekar við mat en listsköpun.

Brynjar Björnsson hefur teiknað frá því hann gat haldið á penna. Hann hefur gaman að því að fara sínar eigin leiðir og hefur verið að prófa að nota í myndlistinni ýmis hráefni sem flestir tengja frekar við mat en listsköpun. Hann býr til myndir úr sykri, hveiti og tómatsósu. Og hann blandar saman dansi og myndlist.

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

Þessi áhugi kom strax í ljós í leikskóla. Um leið og ég gat haldið á penna fór ég að krassa. Þegar krakkarnir voru úti að leika sér í sandkassanum var ég inni að teikna, af því mér fannst það langskemmtilegast. Ég bjó mér til minn eigin heim,“ segir Brynjar Björnsson sautján ára strákur úr Skorradal sem fer óhefðbundnar leiðir í myndlistarsköpun sinni og notar meðal annars sykur og hveiti í verkin sín. „Áhugi minn á því að mála vaknaði fyrir alvöru þegar ég var í níunda bekk og fór í starfskynningu til Bjarna Þórs, listamanns á Akranesi. Ég fékk að fylgjast með þegar Bjarni Þór var að vinna og hann leyfði mér að prófa að mála með allskonar litum og hann kenndi mér líka ýmsar ólíkar aðferðir. Þetta var mjög skemmtilegt og fræðandi og ég hef málað á fullu alveg síðan þá,“ segir Brynjar sem er á fyrsta ári í Fjölbraut í Garðabæ, á myndlistarbraut að sjálfsögðu. „Þetta er mjög skemmtilegt nám og ég læri margt gagnlegt, en á eftir að bæta miklu við mig því ég er nýbyrjaður og er núna á annarri önninni minni.“

Hárlakk til að binda efnin

Brynjar hefur mest málað með akríl en undanfarið hefur hann verið að prófa sig áfram með hin ýmsu hráefni, sem fæstum dettur kannski í hug að nota sem efnivið í málverk. „Þetta byrjaði á því að ég var að skoða listamanninn Viktor Muniz frá Brasilíu og sá að hann gerði verk úr sykri. Mér fannst það spennandi og ég ákvað því að prófa og gerði eitt portrett úr sykri og það gekk vel. Þá langaði mig að taka þetta aðeins lengra og fara mínar eigin leiðir. Ég gerði verk úr sandi, blandaði sykri við og notaði líka hveiti. Ég nota puttana til að forma myndefnið með sykrinum, sandinum og hveitinu, síðan úða ég hárlakki yfir til að binda allt fast. Þetta er tilraunastarfsemi sem ég hef verið að þróa og ég er búin að gera eitt verk úr tómatsósu og ég ætla klárlega að prófa að nota önnur efni í myndlistarverk, til dæmis súkkulaðisósu og kókosmjöl,“ segir Brynjar og bætir við: „Ég vil framkvæma hugmyndir sem ég fæ.“

Ætlar að dansa úti í heimi

Brynjar er harðákveðinn í að fara í listnám til útlanda eftir að hann lýkur námi í Fjölbraut í Garðabæ. „Það hentar mér vel því ég er að æfa og keppa í samkvæmisdansi og mig langar til að dansa meira úti í heimi. Mig langar líka að sjá meira af veröldinni og finnst spennandi að koma á nýja staði. Við Perla Steingrímsdóttir kærastan mín, sem er líka dansfélagi minn, erum bæði spennt fyrir því að búa í útlöndum. Ég er búinn að kíkja á nokkra listaskóla, sérstaklega í Frakklandi og á Ítalíu, þar eru góðir myndlistarskólar. En mig langar líka að læra grafíska hönnun, það er spennandi og skapandi. Myndlistin, dansinn og Perla eiga hug minn allan,“ segir Brynjar en það er nóg framundan hjá þeim í dansinum, þau eru að fara að keppa á Evrópumóti í lok apríl, síðan er bikarmeistarmót í maí og þau munu keppa á Ítalía í sumar. Þau eru líka á fullu að undirbúa sig fyrir keppnina Ísland got talent, sem þau taka þátt í, en þar notar Brynjar myndlistina, málar nýja mynd fyrir hvert atriði.