Reykjavík nú og 2100 Á loftmyndinni til vinstri sjást Reykjavíkurhöfn og Kvosin í dag. Á myndinni til hægri er sýnt hvaða áhrif sex metra flóð myndi hafa í Kvosinni verði ekki gripið til flóðavarna. Mikilvægt er að huga að þeim.
Reykjavík nú og 2100 Á loftmyndinni til vinstri sjást Reykjavíkurhöfn og Kvosin í dag. Á myndinni til hægri er sýnt hvaða áhrif sex metra flóð myndi hafa í Kvosinni verði ekki gripið til flóðavarna. Mikilvægt er að huga að þeim.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðni Einarsson gudni@mbl.is Það er orðið löngu tímabært að huga að flóðvörnum fyrir Kvosina í Reykjavík og fleiri byggð svæði sem liggja lágt að sjó, að mati verkfræðinganna Önnu Heiðar Eydísardóttur og Reynis Sævarssonar hjá verkfræðistofunni Eflu.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Það er orðið löngu tímabært að huga að flóðvörnum fyrir Kvosina í Reykjavík og fleiri byggð svæði sem liggja lágt að sjó, að mati verkfræðinganna Önnu Heiðar Eydísardóttur og Reynis Sævarssonar hjá verkfræðistofunni Eflu.

Þau skoðuðu leiðir til að verjast sjávarflóði í Kvosinni. Verkefnið unnu þau í samvinnu við arkítektastofuna Studio Granda. Anna mun fjalla um verkefnið á Vísindadegi Orkuveitu Reykjavíkur (OR) og Orku náttúrunnar (ON) sem haldinn er í höfuðstöðvum OR og ON í dag.

Horft til ársins 2100

Anna sagði að þau hefðu skoðað hvernig sjávarflóð á borð við Básendaflóðið, sem varð 9. janúar 1799, yrði kæmi það árið 2100. Básendaflóðið var mikið sjávarflóð sem olli gríðarlegum skemmdum á Suðvesturlandi. Það eykur á hættuna á sjávarflóði að sjávarborð hækkar og Reykjavík lækkar jafnt og þétt.

„Sjávarborðshækkunin til ársins 2100 er metin verða 0,6 til 1,2 metrar,“ sagði Anna. Hún sagði ekki ljóst hvort það hefðu verið veðurfarslegar aðstæður sem ollu Básendaflóðinu eða hvort það varð af völdum flóðbylgju. Anna sagði að ef kæmi sambærilegt flóð við Básendaflóðið árið 2100 gæti það náð 6,4 metra hæð. Þá er reiknað með hækkun sjávarborðsins og lækkun landsins. Til samanburðar má nefna að meðal stórstraumsflóð í Reykjavík er nú í 2,18 metra hæð.

Reynir sagði að ef atburður á borð við þann sem olli Básendaflóðinu 1799 endurtæki sig á okkar tímum eða í framtíðinni yrði hann mun stærri vegna hækkunar sjávarborðs og lækkunar landsins.

„Það er mikilvægt að hafa í huga að það getur komið flóð,“ sagði Reynir. „Básendaflóðið kemur ekki endilega aftur. Það var líklega einstakur atburður. Allar mælingar á sjávarhæð benda til þess að endurkomutími slíks atburðar teljist í milljónum ára. Þessi atburður var úr takti við allar mælingar.“

Nokkrir kostir í boði

Reynir sagði það orðið nokkuð algengt að sjór ylli skemmdum á götum og göngustígum í Reykjavík. Það yrði algengara með lækkun landsins og hækkun sjávarborðs.

„Það er alveg ljóst að eitthvað verður að gera. Við höfum skoðað það verkfræðilega hvað sé skynsamlegast að gera,“ sagði Reynir. Í skýrslu þeirra eru kynntir nokkrir kostir. Sá ítarlegasti er að fara „hollenska leið“ og byggja varnargarða og hækka þá smátt og smátt. Jafnvel að loka gömlu höfninni með flóðvarnalokum. „Kvosin er illa staðsett ef þetta verður ekki gert. Ef við lokum ekki gömlu höfninni verðum við að verjast sjávarborðshækkuninni innar í landinu,“ sagði Reynir. Þá koma til greina ýmsar aðrar gerðir hindrana til að varna því að sjór flæði inn í Kvosina.

Þau Anna og Reynir sögðu að þessi framtíðarmynd þyrfti ekki að vera neikvæð gagnvart áformum um byggð í Vatnsmýri. Svæðið stæði nokkrum metrum hærra en Kvosin.

„Flestar þjóðir búa við flóðahættu,“ sagði Reynir. Hann sagði flóðavanda ekki meiri hjá okkur en í öðrum löndum og benti á hættu á flóðum við ár og strendur víða í Evrópu. Sé hætta á flóðum lítil og þau fátíð, komi t.d. á 50 ára fresti, sé ekki gripið til mikilla varna en íbúar þurfi að flýja flóðasvæðin um tíma. Þetta séu ekki atburðir sem ógni mannslífum og ákveðin takmörk fyrir því hvað mikið eigi að fjárfesta í vörnum gegn mjög ólíklegum atburðum.

Hærri hafnarbakka

„Það munu koma reglulega smáflóð sem verða til einhverra vandræða. Það þarf að huga að því ekki síðar en strax. Það er verið að samþykkja deiliskipulag á mögulegum framtíðarflóðasvæðum þar sem ekkert tillit er tekið til þessarar hættu. Það er óþarfi,“ sagði Reynir. Hann benti á að landfyllingar, t.d. í Örfirisey og víðar, væru fulllágar.

„Okkur þótti áhugavert að stór flóð núna eru í kringum 3 metra hæð,“ sagði Anna. „Hafnarbakkarnir við Miðbakka og Austurbakka í Reykjavík eru í 3,5 metra hæð. Samkvæmt nýju skipulagi er rætt um að byggja á hafnarbökkunum í Vesturbugt, Miðbakka og Austurbakka. Það verður ekki auðvelt að hækka hafnarbakkana eftir að búið er að byggja mikið á þeim. Það ætti að taka tillit til þessarar þróunar sjávarborðs og huga að því að hækka hafnarbakkana áður en farið verður að byggja á þeim.“

Reynir sagði að yfirvöld víða um heim séu að taka þessi mál föstum tökum vegna fyrirsjáanlegrar hækkunar sjávarborðs. Upplýsingar um þau viðbrögð eru meðal annars efnis í skýrslunni.