Ragnheiður Torfadóttir fæddist í Reykjavík 14. mars 1949. Hún lést á Landspítalanum 1. september 2013.

Útför Ragnheiðar Torfadóttur fór fram frá Fossvogskirkju 11. september 2013.

Í dag, 14. mars, hefðir þú mín elskulega systir orðið 65 ára. Núna hálfu ári eftir að þú lést hefur þessi sári sannleikur síast inn, þótt erfitt sé að sætta sig við að þú sért farin. Minningarnar hafa flætt fram af miklum þunga, allar góðar, en margar ljúfsárar. Þú varst mér allt, systir og besta vinkona, sem ég gat alltaf leitað til með allt sem herjaði á hugann og fengið hjá þér góð ráð og stuðning.

Ógleymanleg eru árin okkar saman á Skóló. Þá plönuðum við að við yrðum saman á elliheimili, þar sem við myndum rifja upp gamlar minningar. Síðar komu svo heimsóknirnar mínar og barnanna heim til Íslands. Þú taldir ekki eftir þér að fara með okkur vítt og breitt um landið, heimsækja ættingja og njóta náttúrunnar í fallegum lautum með kaffi á brúsa. Og ótalmargar dásamlegar sumarbústaðaferðir. Mikið gátum við hlegið saman að óvæntum atvikum, sem urðu að bröndurum, sem ég er enn að hlæja að. Það var t.d. „Valagilsá“, „Rescue team“ og „Æ láttu mig hafa eina helvítis pulsu“. Enginn skilur þetta núna nema ég.

Ómetanlegt er mér hvað þú varst yndisleg við börnin mín og hvað þið Siggi tókuð frábærlega vel á móti Liz þegar hún heimsótti ykkur á síðustu árum. Það hefur átt hvað stærstan þátt í hvað henni þykir vænt um Ísland.

Elsku Ragna, þú minntir mig alltaf á pabba. Sama hugulsemin. Alltaf að senda mér kort, bréf, allan Arnaldar-bókaflokkinn hvorki meira né minna og margar fleiri góðar bækur. Ekki má gleyma öllum kassettuspólunum, sem við töluðum inn á og sendum hvor annarri á tímabili. Það var hápunkturinn þegar spóla kom í pósti.

Minningarnar gætu fyllt heila bók, en ég vil að lokum þakka þér fyrir samveruna sl. sumar, þegar þið komuð að heimsækja okkur. Það var óendanlega dýrmætur tími. Þakka þér fyrir allt og allt. Guð geymi þig. Ég vil kveðja þig með fallegu ljóði og enda svo þessar línur til þín eins og þú endaðir öll þín bréf með orðunum:

Þín systir meðan lifi.

Ef öndvert allt þér gengur

og undan halla fer,

skal sókn í huga hafin,

og hún mun bjarga þér.

Við getum eigin ævi

í óskafarveg leitt

og vaxið hverjum vanda,

sé vilja beitt.

...

Ég endurtek í anda

þrjú orð við hvert mitt spor:

Fegurð, gleði, friður –

mitt faðirvor.

(Kristján frá Djúpalæk)

Rún.