Þeistareykir Unnið hefur verið að undirbúningi virkjana þannig að hægt verði að virkja með stuttum fyrirvara ef kaupendur staðfesta samninga.
Þeistareykir Unnið hefur verið að undirbúningi virkjana þannig að hægt verði að virkja með stuttum fyrirvara ef kaupendur staðfesta samninga. — Morgunblaðið/Helgi Bjarnason
„Þeir sem hafa verið að bíða fara nú að hreyfa sig,“ segir Bergur Elías Ágústsson, bæjarstjóri Norðurþings.

„Þeir sem hafa verið að bíða fara nú að hreyfa sig,“ segir Bergur Elías Ágústsson, bæjarstjóri Norðurþings. Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur samþykkt samninga sem fela í sér ríkisaðstoð til fyrirtækisins PCC sem hyggst byggja kísilmálmverksmiðju á Bakka við Húsavík.

Sveitarfélagið og ríkissjóður gerðu samninga við PCC vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar en í þeim voru fyrirvarar um samþykki ESA. Frágangur annarra samninga, til dæmis orkusölusamnings Landsvirkjunar og fjármögnunarsamnings vegna verksmiðjunnar, hafa sömuleiðis beðið á meðan ESA hefur fjallað um málið. ESA samþykkti stuðning sveitarfélagsins á dögunum og nú hefur samningur ríkisins verið samþykktur.

Væntanlega reynir nú á möguleika PCC og vilja til að reisa kísilmálmverksmiðjuna. ESA tekur fram í niðurstöðu sinni að orkusölusamningur Landsvirkjunar hafi ekki hlotið samþykki ESA en verði væntanlega lagður fyrir stofnunina.

Bergur Elías segir gleðilegt að þessi niðurstaða liggi fyrir og ánægjulegt að fallist hafi verið á öll rök sveitarfélagsins í málinu.

3,9 milljarða kr. ríkisaðstoð

Ríkisaðstoðin felst í því að ríkissjóður og sveitarfélagið veita PCC aðstoð í formi uppbyggingar innviða á svæðinu og beins fjárstyrks til lóðarframkvæmda, afslátta af tekjuskatti, fasteignaskatti og hafnargjöldum og niðurfellingu ýmissa skatta og gjalda til allt að tíu ára. Byggð verður iðnaðarhöfn á Húsavík og verður PCC meðal notenda hennar.

ESA metur ríkisaðstoðina á 3,9 milljarða króna. Heildarfjárfestingin verður 176 milljarðar evra og hlutfall ríkisaðstoðar af fjárfestingu 8,7%.

„Ríkisaðstoðin stuðlar að atvinnusköpun og fjölbreytni í atvinnulífi á svæði þar sem efnahagslíf hefur verið hnignandi og vegur að hluta upp á móti aukakostnaði sem fylgir þessari staðsetningu. Vonandi mun fjárfestingin snúa þróuninni við og fleiri verkefni á Bakka fylgja í kjölfarið,“ segir í frétt á vef ESA.

helgi@mbl.is