Ragnar Gunnar Þórhallsson
Ragnar Gunnar Þórhallsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is „Skipan hópsins í núverandi mynd skapar þá hættu að sjónarmið notenda komi ekki vel fram. Notendur hafa oft aðra nálgun en þeir sem velferðarþjónustu veita,“ segir Ragnar Gunnar Þórhallsson.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Skipan hópsins í núverandi mynd skapar þá hættu að sjónarmið notenda komi ekki vel fram. Notendur hafa oft aðra nálgun en þeir sem velferðarþjónustu veita,“ segir Ragnar Gunnar Þórhallsson. Hann situr í starfshópi sem félagsmálaráðherra skipaði á dögunum og á að endurskoða lög um málefni fatlaðs fólks og félagsþjónustu sveitarfélaga.

Ragnar Gunnar, sem var formaður Sjálfsbjargar, landssambands fatlaðra, um árabil er í hópnum sem fulltrúi Öryrkjabandalags Íslands. Þar eru einnig fulltrúar ráðuneyta, sveitarfélaga, RKÍ, Hjálparstarfs kirkjunnar, Reykjavíkurborgar, eldri borgara, Þroskahjálpar og fleiri. Bergur Þorri Benjamínsson, málefnafulltrúi Sjálfsbjargar, hefur óskað eftir því við ráðherra að skipan hópsins verði endurskoðuð, þannig að fólk með fötlun hafi meira vægi.

„Nálgun ráðuneytisins í skipan hópsins er gamaldags. Í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem til stendur að fullgilda hér á landi, er gert ráð fyrir því að sá hópur hafi meira um hagsmunamál sín að segja. Ég geri ekki lítið úr starfi hjálparsamtaka en að fulltrúar þeirra í starfshópnum séu tveir en einn frá fötluðum er ekki í takt við tímann. Réttindi eiga ekki að vera góðverk eða ölmusa,“ segir Ragnar Gunnar.

Willum Þór Þórsson alþingismaður er formaður starfshópsins. „Við viljum auðvitað heyra ólík sjónarmið og ég vænti þess að ráðuneytið taki tillit til þeirra sjónarmiða notenda þjónustu sem fram hafa komið,“ segir Willum um starfshópinn sem á að ljúka sínu verki og skila skýrslu fyrir lok þessa árs.