[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Helgi Vífill Júlíusson helgivifill@mbl.is Sprotafyrirtækið GIRO hefur varið 44 milljónum á síðustu tveimur árum til að þróa hita- og þrýstimæli sem nýtist við rannsóknir og boranir á háhitasvæðum.

Viðtal

Helgi Vífill Júlíusson

helgivifill@mbl.is

Sprotafyrirtækið GIRO hefur varið 44 milljónum á síðustu tveimur árum til að þróa hita- og þrýstimæli sem nýtist við rannsóknir og boranir á háhitasvæðum. Fyrir viku seldi fyrirtækið fyrsta mælinn til Landsvirkjunar, að því er stofnendur fyrirtækisins, hugvitsmaðurinn Sölvi Oddsson og Gunnar Gunnarsson lögmaður, segja í samtali við Morgunblaðið.

Nú er svo komið að þeir velta fyrir sér hvernig best sé að standa að fjármögnun á næstu skrefum fyrirtækisins: að framleiða mælana og selja þá hér á landi og erlendis.

Raunar er þessi mælir afsprengi vinnu við þróun á hitaþolnum stefnu- og hallamæli sem fer í prófanir síðar á þessu ári, og ætti að verða fáanlegur á næsta ári.

Olíugeirinn heillar líka

Þegar fram líða stundir sjá þeir fyrir sér að fyrirtækið hasli sér einnig völl í olíugeiranum. „Ef mælarnir virka í jarðhita virka þeir klárlega í olíu. Jarðhitamælingar eru mun erfiðari viðureignar en olían,“ segir Sölvi.

Hann hefur auk þess hugmyndir um að smíða og selja mun fleiri vörur sem tengjast jarðhita og olíuvinnslu. „Fyrirtækið minnir á jólatré, það er hægt að hengja svo mikið á það. Það þarf til dæmis spil til að koma mælinum ofan í holuna, ég vil smíða léttari spil en tíðkast í dag, svo þarf dýptarmæli til að mæla hve djúpt mælarnir fara, og svo mætti lengi telja. Það er engin ástæða til að láta staðar numið hér. Möguleikarnir og tækifærin eru mörg,“ segir Sölvi.

Gunnar segist sjá fyrir sér, að GIRO verði samstarfsvettvangur fólks með hugmyndir að vörum fyrir jarðhita og boranir. „Við viljum sérhæfa okkur á þessu sviði og hugvitsmenn þurfa aðstoð við að láta hugmyndir sínar verða að veruleika,“ segir hann. „Það er langur vegur frá því að eiga góða hugmynd og hrinda henni í framkvæmd. GIRO gæti verið það sem upp á vantar til að gera margar góðar hugmyndir að veruleika.“

Aðspurður hvernig það kom til að Sölvi hóf að smíða þessa mæla, segir hann að hugmyndin hafi kviknað þegar hann vann við boreftirlit á Hellisheiði hjá Mannviti. Þá sá hann möguleika á að búa til búnað sem myndi spara peninga og stytta bortíma, sem er téður stefnu- og hallamælir. Nema hvað, í miðju kafi tók hann þá „rökréttu ákvörðun“ að smíða fyrst hita- og þrýstimæli sem sé einfaldara tæki, sem byggist á upphaflegu hugmyndinni, og Landsvirkjun hefur nú keypt.

Nýjungin sem Sölvi hafði fram að færa var að búa til stefnu- og hallamæli sem þoldi mun meiri hita en gengur og gerist á markaðnum í dag.

Gunnar segir að boltinn hafi farið að rúlla þegar Landsvirkjun varð samstarfsaðili GIRO og þegar félagið fékk fyrstu styrkina vegna verkefnisins. Fyrirtækið hefur fengið 20 milljónir frá Tækniþróunarsjóði, andvirði 21 milljónar frá Landsvirkjun í formi beins fjárstuðnings, tækniaðstoðar og annarrar fyrirgreiðslu og þrjár milljónir frá Íslandsbanka, „fyrir utan alla vinnuna og tímann sem við höfum lagt til sem á endanum skapaði vöruna og fyrirtækið“.

Sölvi segir að þeir hafi notið góðs af aðstoð frá Landsvirkjun og Orkuveitu Reykjavíkur. Fyrirtækin hafi leyft þeim að prófa mælana í borholum þeirra, sem er ekki sjálfgefið því borholurnar eru mjög verðmætar. Lykillinn að þróuninni á mælunum var einmitt aðgengi að borholum. „Þessi aðstoð gerði okkur kleift að sanna okkur og sýna að varan virkar,“ segir Sölvi.

Gunnar bendir á að nokkur íslensk fyrirtæki hafi sprottið fram sem veiti erlendum jarðhitafyrirtækjum ráðgjöf, en þeim þykir spennandi að vera búnir að koma á fót fyrirtæki sem framleiðir tæki og tól til að þjónusta þennan iðnað. „Takist okkur að koma á samstarfi við þau, skapast mörg tækifæri,“ segir hann.

Umræddur hitamælir var framleiddur alfarið á Íslandi, ef frá er talin hitaflaskan, sem væri mögulegt að framleiða hér á landi, að sögn Sölva. „Það er vel hægt að smíða þetta allt hér á landi,“ segir hann.

Seldu til Landsvirkjunar
» Fyrir viku seldi GIRO sinn fyrsta hita- og þrýstimæli, sem það varði tveimur árum í að þróa, til Landsvirkjunar.
» Mælirinn er afsprengi vinnu við þróun á hitaþolnum stefnu- og hallamæli sem ætti að verða fáanlegur á næsta ári.