Rauðaldin Tómatarnir vaxa grænir en verða síðan rauðir að lit.
Rauðaldin Tómatarnir vaxa grænir en verða síðan rauðir að lit. — Morgunblaðið/Ásdís
Bæjarráð Grindavíkur telur að óhóflegar kröfur ríkisins sem eiganda jarðanna Staðar og Húsatófta um byggingaréttargjald og lóðarleigu hamli því að ný atvinnufyrirtæki byggist upp í Grindavík.

Bæjarráð Grindavíkur telur að óhóflegar kröfur ríkisins sem eiganda jarðanna Staðar og Húsatófta um byggingaréttargjald og lóðarleigu hamli því að ný atvinnufyrirtæki byggist upp í Grindavík. Erlent fyrirtæki sem hefur haft áform um að byggja risagróðurhús í landi Staðar, í þeim tilgangi að framleiða tómata til útflutnings, þyrfti að greiða yfir 200 milljónir kr. í byggingarréttargjald samkvæmt ýtrustu kröfum ríkisins.

Í aðalskipulagi Grindavíkur er gert ráð fyrir tveimur atvinnusvæðum á landi í eigu ríkisins. Annars vegar er um að ræða nýtt fiskeldisfyrirtæki í landi Húsatófta og hinsvegar risagróðurhús í landi Staðar, lengra úti á Reykjanesi. Lóðirnar hafa verið skipulagðar í samvinnu við fyrirtækin.

Leitað hefur verið til ríkisins um leigu lóðanna. Í drögum að samningi sem fjármálaráðuneytið hefur kynnt Grindavíkurbæ er gert ráð fyrir að greitt verði byggingaréttargjald og hærri leiga en tíðkast hefur í Grindavík. Róbert Ragnarsson, bæjarstjóri í Grindavík, segir engin fordæmi fyrir innheimtu byggingarréttargjalds á iðnaðarsvæðum á Suðurnesjum og ráðuneytið hafi heldur ekki getað vísað til fordæma annars staðar á landi ríkisins. Aftur á móti sé vísað til fordæma á höfuðborgarsvæðinu þar sem Reykjavíkurborg og Kópavogskaupstaður hafi innheimt byggingaréttargjald. Róbert nefnir einnig að ríkið innheimti ekki byggingarréttargjald á landi sínu á Ásbrú í Reykjanesbæ.

Til stendur að hefja framkvæmdir við fyrsta áfanga nýrrar fiskeldisstöðvar í landi Húsatófta. Skipulag er afgreitt og fjárfestar komnir að verkefninu og telur Róbert að verkefnið strandi á óhóflegum kröfum ríkisins.

Unnið hefur verið að undirbúningi annars stórs verkefnis sem þó er ekki komið á framkvæmdastig, byggingu hollensks fyrirtækis á stórri gróðurhúsasamstæðu til framleiðslu á tómötum til útflutnings. Miðað við kröfur ríkisins þyrfti að greiða rúmar 200 milljónir í byggingarréttargjald til ríkisins vegna þeirrar framkvæmdar. Telur Róbert augljóst að ekki verði af því verkefni ef ekki verður breyting á afstöðu.

Fyrirhugað er að funda frekar með embættismönnum fjármálaráðuneytis og vonast Róbert til að farsæl lausn finnist. helgi@mbl.is