Lýður Guðmundsson
Lýður Guðmundsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hæstiréttur dæmdi í gær Lýð Guðmundsson, fyrrverandi stjórnarformann fjárfestingarfélagsins Exista, í átta mánaða fangelsi, þar af fimm mánuði skilorðsbundið fyrir brot á lögum um hlutafélög.

Hæstiréttur dæmdi í gær Lýð Guðmundsson, fyrrverandi stjórnarformann fjárfestingarfélagsins Exista, í átta mánaða fangelsi, þar af fimm mánuði skilorðsbundið fyrir brot á lögum um hlutafélög. Bjarnfreður Ólafsson, lögmaður og fyrrverandi stjórnarmaður í Kaupþingi, var dæmdur í sex mánaða fangelsi, þar af þrjá mánuði skilorðsbundið, fyrir brot gegn sömu lögum. Hann var jafnframt sviptur réttindum til að vera héraðsdómslögmaður í 1 ár.

Héraðsdómur Reykjavíkur hafði áður sýknað Bjarnfreð af ákæru sérstaks saksóknara og dæmt Lýð til að greiða 2 milljónir króna í sekt.

Hæstiréttur taldi sannað að Lýður hefði vísvitandi brotið gegn ákvæðum hlutafélagalaga í því skyni að tryggja sér og meðeiganda sínum áframhaldandi yfirráð yfir Exista og það hefði honum tekist. Þetta gerði Lýður með því að greiða Exista minna en nafnverð, eða um 1 milljarð króna, fyrir 50 milljarða nýrra hluta í félaginu. Var þetta talið brjóta í bága við fortakslaust ákvæði laganna um að greiðsla hlutar mætti ekki vera minni en nafnverð hans.

Bjarnfreður var sakfelldur fyrir að hafa hinn 8. desember 2008 sent villandi tilkynningu til Hlutafélagaskrár þar sem kom fram að hækkun á hlutafé Exista að nafnvirði 50 milljarðar króna hefði verið greidd að fullu til félagsins. Fram kemur í dómnum að Bjarnfreður hafi, m.a. í tölvupósti til Lýðs í desember 2008, látið í ljósi efasemdir um að tilkynningin stæðist lög. Engu að síður hefði hann sem lögmaður skrifað undir tilkynninguna og þannig brotið gegn hlutafélagalögum.

Hæstiréttur segir síðan í niðurstöðu sinni að brot bæði Lýðs og Bjarnfreðs hafi varðað verulegar fjárhæðir og verið til þess fallin að hindra eða fresta hvers kyns réttmætum aðgerðum skuldheimtumanna Exista. Því hafi þeir báðir unnið sér til fangelsisrefsingar.

Ekki 50 milljarðar í félagið

„Mikilvægt er að senda eitthvað á eftir þessu sem fyrst þannig að menn haldi ekki að það séu að koma 50 milljarðar inn í félagið!!!!!“

Þetta sagði í tölvupósti sem Lýður Guðmundsson sendi m.a. til forstjóra Exista 3. desember 2008.

Í tölvupósti sem Bjarnfreður Ólafsson sendi 4. desember segir m.a.: „Var á fundi með Deloitte. Þeir ætla að gefa út skýrslu um staðfestingu á hækkun hlutafjár. Hún er rúmt orðuð og tekur tillit til væntanlegs hluthafafundar sem mun lækka hlutafé aftur til jöfnunar á tapi. Það verður svo að koma í ljós hvort þetta fer í gegn hjá Hlutafélagaskrá.“

Brot gegn lögum
» Lýður var talinn hafa brotið gegn 16. grein hlutafélagalaga.
» Bjarnfreður var talinn hafa brotið gegn 153. grein sömu laga.