Stakan „Afi minn fór á honum Rauð“ fékk níu líf eins og kötturinn eftir útkomu ljóðabókar Bjarka Karlssonar.

Stakan „Afi minn fór á honum Rauð“ fékk níu líf eins og kötturinn eftir útkomu ljóðabókar Bjarka Karlssonar. Á miðvikudag birtust hér í Vísnahorni vísur hans um fylgjurnar, sem smyglað var út af fæðingardeildinni, og byrjuðu svo: „Heyrðu snöggvast, Halla mín“. Sem ég var að velta þessu fyrir mér birtist skyndilega karlinn á Laugaveginum og sönglaði:

Heyrðu snöggvst, Snati minn,

snjalli vinur kæri,

heldurðu ekki hringinn þinn

ég hermannlega bæri?

Lof mér nú að leika að

látúnshálsgjörð þinni;

ég skal seinna jafna það

með jólaköku minni.

Jæja þá, í þetta sinn

þér er heimil ólin.

En hvenær koma, kæri minn,

kakan þín og jólin?

Karlinn lagði kollhúfur eins og hann væri að tala við sjálfan sig en hélt svo áfram:

Heyrðu snöggvast, snótin mín,

snúin er þessi veröld.

Sumir eiga áfengt vín

sem ástar-fylla keröld.

Lúther sagði vín og víf

væru dyggðir rarar;

aðrir verða allt sitt líf

argir góðtemplarar.

Æ því, sál mín, að því gæt

á hérvistar róli

að velja ást og vínin sæt

vígð af biskupsstóli.

Og var horfinn.

Jón Gissurarson segir á Leirnum að ástæðulaust sé að bera kvíða í brjósti:

Oft minn þýður þanki er

þraut og kvíða ekki ber

ef að blíðar ylja mér

ormahíðisliljur hér.

Rétt er að Þorsteinn Erlingsson hafi síðasta orðið:

Líkast er það ljósum draum

að liggja svona og heyra

heillar nætur glasaglaum

glymja sér við eyra.

Þennan hvella hljóm ég læt

hringja mig að beði;

mér er hann angan unaðssæt

ásta, víns og gleði.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is