Sigríður Níelsdóttir fæddist 11. ágúst 1920. Hún lést 26. febrúar 2014. Útför Sigríðar fór fram 5. mars 2014.

Ég var heimagangur á heimili Sigríðar frá því að ég man fyrst eftir mér. Þau Guðmundur áttu fallegt heimili á Fjölnisvegi 20 og ég var tíður gestur að leika við Níels frænda minn og jafnaldra. Foreldrum okkar hefur greinilega líkað vinátta okkar frændanna og komu okkur iðulega saman til leikja, enda þótt við byggjum hvor í sínum bæjarhlutanum. Sigríður sýndi að því er virtist óendanlega þolinmæði yfir hávaðasömum og óstýrilátum strákahópnum. Við Nilli vorum bekkjarbræður og sessunautar í Miðbæjarskólanum og urðum við iðulega samferða heim. Veitingar í eldhúsinu á Fjölnisveginum voru fastur liður í tilverunni og sú umönnun sem stráklingar á þessum aldri gerir sér ekki ljósa fyrr en áratugum seinna.

Sigríður var glæsileg kona, há og grönn, með hávöxnustu konum af sinni kynslóð. Hún bar sig vel og var ákveðin í fasi; sagði meiningu sína skilmerkilega, ef svo bar undir. Hún bjó manni sínum og sonum glæsilegt heimili, sem var þó opið til leikja ungdómsins. Ég skammast mín ennþá fyrir að hafa fellt ofnhillu í stofunni með flestum kristal- og glermunum heimilisins í ærslafullum byssuleik. Ekki var ég skammaður, þótt tilefnið hafi verið ærið.

Þau Guðmundur ferðuðust mikið, voru útivistar- og hestafólk. Þau áttu bíl frá minni fyrstu minningu og fóru í langar og stuttar ferðir um landið. Iðulega flaut ég með. Ég man vel eftir fjallgöngu á Úlfarsfell, þar sem við Pétur Guðmundarson, 6-8 ára gamlir, tókum á rás upp fjallið á undan þeim hjónunum, Sigríði og Guðmundi, ásamt Nilla og Snorra. Guðmundur hljóp okkur uppi áður en okkur tókst að hlaupa fyrir björg á norðanverðu fjallinu.

Fjölskyldan flutti að Hagamel 44 þegar við frændurnir vorum á fermingaraldri. Húsið var nýtt og glæsilegt, byggt í kantinum á stóru braggahverfi, sem hvarf á næstu árum. Þarna héldu þau Guðmundur heimili í hálfa öld, komu drengjunum til manns og önnuðust hvort annað meðan bæði lifðu. Sundlaug Vesturbæjar var steinsnar frá og nýttu þau hana vel – það hefur vafalaust átt þátt í langlífi þeirra beggja. Bæði Guðmundur og Sigríður komust á tíræðisaldur áður en heilsan fór að láta undan síga. Þau fengu að vísu bæði augnsjúkdóma á efri árum, sem gaf mér tækifæri til að endurgjalda eilítið umstangið sem þau höfðu af mér í æsku. Læknismeðferð getur þó verið tvíeggjuð; Sigríður fékk nýja augasteina einhvern tíma eftir áttrætt. Hún sá miklu betur eftir aðgerðirnar, en það kostaði stórhreingerningu á Hagamelnum. Nú sá hún kusk og ryk í öllum skotum, þar sem ekkert hafði verið sýnilegt fyrr.

Þeim fækkar óðum, sem komu að uppvexti mínum – tóku þátt í að ala mig upp. Foreldrar mínir eru löngu gengnir og fáir eftir af fullorðnu fólki æsku minnar. Einhvers staðar segir að það þurfi þorp til að ala upp börn; hóp af fullorðnu fólki, sem heldur utan um ungviðið og leiðir það til nokkurs þroska. Sigríður var hluti þessa hóps fyrir mig.

Einar Stefánsson

og fjölskylda.