[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Leikstjóri: Tommy Virkola. Aðalhlutvek: Vegar Hoel, Martin Starr, Derek Mears, Amrita Acharia, Ingrid Haas, Stig Frode Henriksen, Örjan Garnst og Jocelyn DeBoer. Noregur, Ísland, 2014. 100 mín.

Í norsku uppvakningagrínhrollvekjunni Død Snø , eða Dauður snjór, frá árinu 2009, segir af átta læknanemum sem halda í páskafrí í norskum fjallakofa og komast að því að nasistar ofsóttu íbúa svæðisins rúmum sextíu árum fyrr og rupluðu þar og rændu allt þar til íbúar gerðu uppreisn undir lok seinni heimsstyrjaldar. Flúði þá foringi nasistahópsins, Herzog, til fjalla ásamt herflokki sínum með hluta af ránsfengnum og frusu þeir í hel. Þennan nasistafjársjóð finna læknanemarnir og vakna þá nasistarnir til lífsins og fara að brytja nemana niður. Einn þeirra kemst þó lífs af, Martin, eftir að hafa þurft að saga af sér hægri framhandlegg og drepa kærustuna sína með öxi.

Víkur þá sögunni að framhaldsmyndinni, Dauðum snjó 2 , sem tekin var upp að mestu á Íslandi, m.a. á Eyrarbakka, í fyrra. Í byrjun myndar tekst Martin að flýja keyrandi undan nasista-uppvakningunum með foringjann Herzog hangandi utan á bílnum. Sá missir handlegginn í átökunum og verður hann eftir í bílnum. Martin missir rænuna, veltir bílnum og þegar hann kemst til meðvitundar liggur hann handjárnaður við sjúkrarúm á spítala og búið að græða á hann handlegg nasistans, hægri handlegg djöfulsins. Handleggurinn tekur völdin af Martin með kostulegum og afar blóðugum afleiðingum. Martin tekst að flýja af sjúkrahúsinu og hafa samband við hóp bandarískra uppvakningaveiðimanna sem halda til Noregs til að aðstoða hann við að útrýma uppvakningunum. Í ljós kemur að nasistarnir ætla að ljúka verkefni sem Hitler fól þeim, að útrýma öllum íbúum smábæjar í Norður-Noregi og er Eyrarbakki í hlutverki bæjarins í myndinni. Tíminn er naumur og til þess að útrýma nasistunum þarf Martin að vekja til lífsins rússneska hermenn sem Herzog og hans menn slátruðu.

Dauður snjór 2 er skemmtileg grínhrollvekja og eflaust skemmtilegri fyrir Íslendinga en aðrar þjóðir þar sem fjöldi íslenskra leikara og statista kemur við sögu, þó stutt sé, flestir brytjaðir niður nokkrum sekúndum eftir að þeir birtast. Má þar m.a. nefna hinn ágæta Guðmund Ólafsson sem drepinn er af nasista þar sem hann situr á klósettinu og er að lesa dagblað. Blóðsúthellingarnar eru allsvakalegar og greinilegt að leikstjórinn hefur mikið hugmyndaflug þegar kemur að skrautlegum slátrunum. Þá eru garnir fórnarlamba nýttar til ýmissa hagnýtra verka sem ekki verður farið nánar út í hér.

Dauður snjór 2 gefur sambærilegum Hollywood- myndum ekkert eftir í gæðum, kostulegir búningar og gervi og brellur fínar. Þá standa leikarar sig ágætlega og fer þar fremstur í flokki Vegar Hoel í býsna erfiðu hlutverki Martins. Atriðin þar sem nasistahandleggurinn tekur af honum völdin eru t.a.m. sprenghlægileg. Ef ekki væri fyrir fantagott grín væri Dauður snjór 2 uppvakningamynd í meðallagi. Bleksvart og blóðugt spaug gerir myndina að ágætisskemmtun en hún er ekki fyrir klígjugjarna, svo ekki sé fastar að orði kveðið.

Helgi Snær Sigurðsson