Björn Ómar Jónsson fæddist 3. október 1939. Hann lést 11. mars sl. Útför Björns Ómars fór fram 19. mars 2014.

Fyrstu minningarnar um afa eru jólin þegar hann gaf mér fjarstýrðan rafmagnsbíl. Ætli ég hafi ekki verið um 4 ára og seinna þetta kvöld endaði þessi bíll í neðstu tröppunni á stiganum. Þetta var ekki síðasti rafmagnsbíllinn sem afi gaf mér heldur sá fyrsti af mörgum. Ég man vel eftir ferðunum í sumarbústað afa og ömmu í Kjósinni. Við krakkarnir vorum í kojum í einu herberginu og afi og amma í hinu. Alltaf þegar komið var upp eftir þurftum við að koma rennsli á vatnið. En það kom ofan af fjalli úr opnum brunni. Við afi röltum okkur upp eftir og fórum yfir leiðsluna. Síðan var hún alltaf tekin í sundur á sama staðnum og sogið af öllum lífsins kröftum til að ná rennslinu af stað. Oft þegar við vorum uppi í bústað fórum við í Hvammsvík með afa að veiða, ekki man ég eftir því hvort við veiddum eitthvað en í minningunni voru þetta góðar stundir með afa. Í gegnum árin hef ég oft verið að hjálpa afa með ýmis smíðaverkefni sem tengjast bæði bústaðnum og öðrum verkefnum. Reisti ég eitt af húsunum í Kjósinni með hjálp félaga míns og kom afi reglulega að athuga hvernig allt gengi og var oftast með eitthvert bakkelsi með sér. Seinna breytti afi þessu húsi í silfursmíðaverkstæði sitt og þar hjálpaði hann mér að smíða trúlofunarhringana mína. Afi var góður maður með stórt hjarta og gat ég alltaf leitað til hans með mín vandamál. Ég á eftir að sakna þín, afi, og vona að þú hafir það gott þar sem þú ert núna.

Elvar Þrastarson.